17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

89. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í þágu áfengisvarna

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr. þar sem nýlokið er umr. um hliðstætt mál, samið af þeirri sömu n. sem hér hefur verið vitnað til og að baki báðum þessum till. stendur, bæði frv. í Ed. og þál. hér. Ég hef það eitt um hvort tveggja að segja, að ég tel þetta mjög sjálfsögð mál og sjálfsagt að þau nái fram að ganga. En það, sem ég vil leggja höfuðáherslu á, eins og ég reyndar gerði í hv. Ed. og hér hefur einnig verið komið inn á af tveim hv. síðustu ræðumönnum, er sjálf fræðslan, að til fræðslunnar um skaðsemi ofneyslu áfengis verði ekkert sparað.

Við alþm. höfum á undanförnum árum fengið sent blað, fjölritað blað sem gefið er út að ég hygg á kostnað og með eigin fyrirhöfn ritstjórans, Steinars Guðmundssonar. Blaðið nefnist Snepill. Þetta blað hefur stundum verið talið af ýmsum þm. vera ærið hvassyrt í okkar garð og löggjafans. En þrátt fyrir ýmis stóryrði, sem ég mundi persónulega hafa orðað með einhverjum öðrum hætti, hef ég ekki séð neitt það á þingmenn borið eða réttara sagt löggjafarsamkomuna sem ekki er hægt að rökstyðja að er hreinn sannleikur. Það er staðreynd að Alþ. hefur ár eftir ár og áratugum saman haft það sem sinn feitasta tekjulið í fjáröflun til ríkisins að selja nægjanlega mikið áfengi. Og þegar okkar ágætu fjmrh. hefur skort fé, þá hefur áfengið einfaldlega verið hækkað, þannig að íslenska ríkiskerfið mundi ríða til falls ef allir íslendingar tækju saman höndum um að hætta að neyta þess, og ýmsa þá þjónustuliði, sem taldir eru jákvæðir í okkar löggjafarstarfi, mundi dragast úr hömlu að framkvæma vegna þess að skortur væri á áfengisneyslu í landinu. Þetta eru þversagnir annars ágætra laga sem um þessi efni eru til, en hafa ekki náð framkvæmd vegna þess að fé hefur skort til umræddra framkvæmda, þ. e. a. s. fyrirbyggjandi framkvæmda og fræðslu og aðstoðar við þá sem hafa orðið áfenginu að bráð um lengri eða skemmri tíma. Þessi ískalda staðreynd blasir við okkur, og við komumst ekki hjá að viðurkenna að þó að nokkuð djúpt sé tekið í árinni utan þings í okkar garð, þá er þetta sannleikur, — sannleikur sem við verðum að horfst í augu við.

Það var aðeins eitt atriði sem ég var ekki sammála hv. 1. flm. um áðan, og ég hygg að sé á röngum upplýsingum byggt, að áfengið hafi haldið innreið sína í raðir íþróttamanna meira nú en áður hefur verið. Ég veit að íþróttasamtökin hafa það á stefnuskrá sinni að vinna gegn áfengisneyslu, og ég hygg að þau hafi ekkert slakað á þeirri kló nú frekar en áður.

En væri ekki umhugsunarefni fyrir okkur að taka stærri hlut áfengiságóðans til þess að koma í veg fyrir áfengisneyslu og til að bjarga þeim sem bjargað verður af þeim, sem þegar neyta of mikils áfengis, og veita betri aðstöðu til að framkvæma þau lög og þær reglur sem í gildi eru? Ég benti á það í hv. Ed. um daginn að hér er ágætis áfengisvarnaráðunautur og áfengisvarnaráð skipað valinkunnu fólki í þessum efnum. Eini vonarneistinn í sambandi við þá, sem orðið hafa áfenginu að bráð, hefur reynst nýbyggingin á spítalalóðinni á Vífilsstöðum. Áður var þetta sérdeild frá geðveikrahælinu að Kleppi sem átti að sjálfsögðu sáralitla samleið með þeim sjúklingum sem þar verða að dvelja. Þetta eru ljósustu blettirnir sem hafa sést í viðbrögðum löggjafans á undanförnum áratugum. En áfram höldum við að treysta á afraksturinn af aukinni neyslu áfengis til annarra nauðsynlegra þarfa í landinu.

Ég held að það taki enginn mark á þessum lögum okkar og lagasetningu, ályktunum og reglugerðum, ef ekki verður skipt um af hálfu okkar sem löggjafarsamkomuna skipum á hverjum tíma. Það er ekki heldur við því að búast að almenningur taki slíka löggjöf alvarlega meðan ekki er gert kleift að starfa samkvæmt gildandi lögum sem sett eru með annarri hendinni, en hindruð í framkvæmd með hinni. Um þetta erum við öll sammála.

Ég bendi á það, sem ekki hefur verið orðað hér, að ég hygg, í þessum umr. nú frekar en áður, að það er vaxandi skoðun með atvinnurekendum hjá erlendum þjóðum að þeir bókstaflega kosta og styðja fjárhagslega opinberlega stór sjúkrahús til þess að hjálpa nauðsynlegustu vinnukröftum sínum til þess að losna úr viðjum áfengisneyslunnar, — vinnukröftum sem þeir mega ekki við því að missa og hafa e. t. v. varið löngum tíma til að þjálfa til sérstakra starfa, en verða áfengisnautninni að bráð. Í launaskyni, þegar viðkomandi hefur fengið fullan bata af þessum sjúkdómi sínum, hefur hann fengið vinnuna aftur og jafnvel hæri laun. Hér er einn liðurinn sem vert væri fyrir íslenska atvinnurekendur að hugsa um. En þá þarf að vera aðstaða til að taka við slíkum sjúklingum.

Meginatriðið í þessu tali okkar öllu um áfengismálin er þó það, að við séum sjálfum okkur samkvæmir, framkvæmum þau lög og þær reglur um áfengismál sem við höfum samþykkt og afgreitt héðan frá okkur, gerum það kleift með fjárhagslegum stuðningi að þau verði framkvæmd í raun og sannleika.