17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

89. mál, fræðsla og þáttur fjölmiðla í þágu áfengisvarna

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Suðurl. tók svo margt fram í sinni ágætu ræðu af því, sem ég hefði viljað sagt hafa í sambandi við þessa till. sem hér er til umr., að ég þarf ekki að tala hér langt mál. Aðeins vil ég láta það koma skýrt fram, að ég held að hverrar skoðunar sem við erum almennt um meðferð áfengis, þá getum við öll verið sammála um það, að við viljum öll stuðla að og veita stuðning hverju því sem er hægt að segja að sé fyrirbyggjandi aðgerð til að hindra þær hroðalegu afleiðingar sem við öll viðurkennum að ofneysla áfengis hefur.

Hitt er svo annað mál, að okkur greinir á hvernig sé best að standa að þessum málum og hver sé mesta orsök þess að verr hefur farið í okkar þjóðfélagi heldur en skyldi. Aðeins vil ég láta það koma fram hér, að ég er í hópi þeirra sem telja að margt það, sem hefur farið miður vel í þessum málum hjá okkur, megi rekja til rangrar, stórgallaðrar áfengislöggjafar og þá ekki síður gallaðrar framkvæmdar á þeirri löggjöf. Það er eitthvað bogið við að hafa löggjöf sem heimilar sölu og neyslu á sterkasta hluta þessa vímugjafa sem um er að ræða, en bannar dreifingu og neyslu á veikustu tegundinni sem hér er um að ræða, og segja svo að menn vilji framfylgja fyrirbyggjandi aðgerðum.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir, er vakin athygli á mjög mikilvægum þætti, sem er fræðslan um áfengismálin og leiðbeiningar um varnir í sambandi við þetta mál. Ég tel að það, sem felst í þessari till., geti verið til bóta, og það er sjálfsagt að kanna það allt saman. Hins vegar fer ég ekki ofan af því, að við þurfum að gera betur. Við þurfum að athuga þessi mál meira frá grunni. Ég efast ekki um getu skólanna og uppeldisstofnananna til þess að verða að því liði sem óskað er eftir og stefna er mörkuð um í þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir. En einhvern veginn er ég nú þannig skapi farinn, þannig gerður, að ég lít á þetta mikla vandamál fyrst og fremst sem uppeldisatriði, og ég treysti miklu meira á heimilin sjálf til að rækja þennan hluta svo vel megi fara.

Hv. 3. þm. Suðurl. varaði við ýmsu sem miður fer í margs konar áróðri, sem vissulega á að sumu leyti rétt á sér í sambandi við áfengisvarnir og umr. um áfengismál. Ég get verið honum sammála um það, að mér finnst stundum að þar sé unnið meira af kappi en forsjá. Og mér er til efs að ýmsar ráðstafanir, sem er verið að gera, nái tilgangi sínum. Ég get til að mynda gefið þá yfirlýsingu hér, að ég gat aldrei skilið þá ráðstöfun, að það tilheyri fyrirbyggjandi vörnum eða nái einhverjum ákveðnum tilgangi að banna almennar áfengisauglýsingar. Mér er ómögulegt að skilja viturleik þeirrar ráðstöfunar, að slíkar auglýsingar megi ekki birtast í fjölmiðlum þjóðarinnar, en ekki er fyrr komið í venjulega bifreiðaafgreiðslu, þar sem eru afgreiddir miðar í langferðabifreiðar, að ég tali ekki um þar sem eru afgreiddir farmiðar í flugstöðvum innanlands, en þar blasir við söluop þar sem maður kaupir alls konar útlend tímarit sem eru meira og minna löðrandi í slíkum auglýsingum. Svona boð og hömlur að mínu mati smásmuguleg bönn ná ekki tilgangi.

Ég tek undir með þeim, sem hér hafa talað, og hv. flm. þessarar till., að okkur ber siðferðileg skylda til að styðja á sem bestan máta allar þær ráðstafanir sem eru fyrirbyggjandi í sambandi við hættuleg áhrif sem ofneysla áfengis getur haft í för með sér, og þá ekki síst að styðja almenna fræðslu bæði í skólum og fjölmiðlum. Skal ekki standa á mér að styðja till. til fjárútláta í því sambandi. En ég vil þó um leið allra vinsamlegast fara fram á það, að það megi ræða það af rósemi og fullu raunsæi hvort ekki sé svo mikið ábófavant þeirri löggjöf, sem þjóðin býr við, og framkvæmd hennar allri, að þörf sé einhverra úrbóta.