17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

139. mál, lausaskuldir bænda

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 260 um lausaskuldir bænda. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram athugun á því hvort nauðsynlegt sé að útvega Veðdeild Búnaðarbanka Íslands aukafjármagn á árinu 1977 þannig að Veðdeildinni verði gert kleift að veita þeim bændum, sem verst eru settir, tækifæri til þess að breyta lausaskuldum í föst lán. Leiði könnunin í ljós að hagur einhverra sé það bágur að þetta komi ekki að fullum notum, þá verði kannað hvort unnt sé að gera Stofnlánadeild og Veðdeild kleift að veita þeim bændum, sem eiga í mestum erfiðleikum, frest á afborgunum af lánum við deildirnar.“

Þessari till. lét ég fylgja grg., svo hljóðandi: „Eitt alvarlegasta vandamál, sem íslensk bændastétt á við að stríða, er það hve fjárhagsafkoma bændanna er misjöfn. Reynsla undanfarinna ára hefur verið sú, að bændur hefur vantað talsvert upp á að ná því kaupi sem þeim hefur verið áætlað í verðlagsgrundvelli, oftast 20–30%. Verðlagsgrundvöllur byggist á meðalbúi, en aðstaða hinna einstöku bænda er að sjálfsögðu mjög mismunandi, bæði hvað varðar jarðnæði, starfsaldur og aðstöðu alla. Sem betur fer hefur nokkur hluti bænda ágæta fjárhagsafkomu og verulegur hópur þolanlega, en þeir, sem lakast eru settir, eiga við afleit kjör að búa, og það er alvarlegast við þetta, að það virðist draga mjög hratt í sundur, þeir ríku verða ríkari, en þeir fátæku fátækari.

Margir af þeim sem fjárhagurinn þrengist örast hjá, eru frumbýlingar. Það skapast m. a. af því að bústofnunin er mjög fjármagnsfrek og stofnlánafyrirgreiðsla til ýmissa þátta, svo sem jarðakaupa, hefur verið gjörsamlega ófullnægjandi og til annarra þátta skorin mjög við nögl. Stafar þetta af því að Stofnlánadeild og Veðdeild hafa aldrei haft nógu rúman fjárhag til þess að sinna verkefnum sínum svo sem þurft hefði. Frumbýlingar hafa því neyðst til þess að taka mjög óhentug og dýr lán og uppbygging verðlagskerfisins ekki gefið svigrúm til þess að reka búskap með miklu lánsfé á háum vöxtum.

Sumir þeirra, sem á annað borð skulda verulegar fjárhæðir, virðast nú orðið eiga í miklum erfiðleikum og bæta mjög ört við skuldirnar.

Árin 1962 og 1968 hafði skapast áþekkt ástand, þar sem nokkur hópur bænda var kominn í skuldakröggur. Þá var í bæði skiptin tekið það ráð að gefa mönnum kost á því að breyta lausaskuldum í föst lán, og enn fremur var 1971, 1972 og 1973 veitt sérstök fyrirgreiðsla til þess að þeir, sem verst voru settir, gætu frestað afborgunum af stofnlánum. Þessi aðstoð gaf ótrúlega góða raun. Stéttarsamband bænda hefur gert könnun á því, hvernig hinum einstöku bændum, sem aðstoðarinnar nutu, hefur vegnað síðan, og leiddi hún í ljós að búskapur langflestra hefur komist á réttan kjöl.

Það er skoðun flm. að sama reynsla mundi verða nú, þar sem í flestum tilfellum sé um að ræða tímabundna erfiðleika í rekstri vegna mikils fjármagnskostnaðar og ef skuldabyrðin yrði gerð léttbærari gæti það ráðið úrslitum um framtíðarbúrekstur þessara bænda. Á það má einnig benda að skuldabreyting í sjávarútvegi hefur nýlega verið gerð og gefið góða raun.“

Þarna lýkur grg.

Ég er þess fullviss, að mörgum alþm. er ljós sá vandi, sem hér er við að etja. Það fylgir starfi okkar dreifbýlisþm. a. m. k. að komast í nána snertingu við atvinnureksturinn í kjördæmum okkar og þá ekki síst rekstur þeirra fyrirtækja sem í erfiðleikum eiga. Það er talsverður tími liðinn síðan ég fór að velta því fyrir mér, hvort ekki væri rétt að láta fara fram könnun á skuldamálum þeirra bænda sem í mestum erfiðleikum eiga, og ef könnunin leiddi í ljós að nauðsynlegt væri að veita þeim sérstaka fyrirgreiðslu, hvort sú fyrirgreiðsla, sem till. getur um, væri ekki sú heppilegasta.

Ég gerði þetta að umtalsefni á landbúnaðarráðstefnu á Blönduósi í fyrrasumar, kjörmannafundi Stéttarsambands bænda á Blönduósi, og á aðalfundi Stéttarsambandsins í fyrrahaust. Stéttarsambandsfundurinn gerði ályktun um málið, og stjórn sambandsins fór að afla gagna. 400 bændur óskuðu eftir því að framtöl þeirra fyrir 1975 yrðu athuguð. Þeirri athugun er ekki lokið. Mér þykir eðlilegt að Alþ. og ríkisstj. láti málið til sín taka sem fyrst. Það er sjálfsagt að athuga framtölin fyrir árið 1976 strax og þau verða tiltæk, enda eru sterkar líkur fyrir því að hjá ýmsum hafi enn sigið á ógæfuhlið. Ég undirstrika sérstaklega, að ég tel verulegan hluta bændastéttarinnar búa við allgóð kjör. En hinu er ekki unandi, að einhver hluti stéttarinnar er að sligast, og þá er siðferðileg vesöld að rétta þeim ekki hjálparhönd.

Talsverð umræða hefur verið um kjör bænda nú í vetur og láta ýmsir bændur í ljós óánægju með það ástand sem skapast hefur. Samkv. lögum er bændum ætlað að bera úr býtum sömu laun og svokallaðar viðmiðunarstéttir. Reynslan hefur þó orðið önnur. Hagskýrslur áranna 1966–1975 sýna að fjölskyldutekjur bænda á aldrinum 25–66 ára hafa til jafnaðar aðeins verið 75% af tekjum viðmiðunarstéttanna. Ef gert er ráð fyrir að innan þessara aldursmarka séu 4000 bændur, þá vantar á tekjur þeirra á þessu 10 ára tímabili 6548 millj. kr. Búnaðarmálastjóri hefur bent á að þessi upphæð er 668 millj. hærri en það fé, sem varið hefur verið til útflutningsbóta á sama tíma, og sýnist þá lítil ástæða til að vera að fárast yfir útflutningsbótafénu.

En hvers vegna tekst bændum ekki að fá lögboðin vinnulaun sín? Verðlagsgrundvöllur landbúnaðarvara er samningsatriði. Við gerð hans er unnið mikið starf af glöggum og góðviljuðum mönnum, og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að annað form en það, sem nú tíðkast við verðlagsákvörðun, gæfi réttlátari eða skárri raun. Þó eru skekkjur augljósar á hverjum tíma, en ég geri hér einungis eina þeirra að umtalsefni, þ. e. a. s. vaxtaliðinn í grundvellinum.

Samkv. dæmi, sem sett hefur verið upp af Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins, kostar 32.5 millj. að stofna 400 kinda bú, en það er nokkru minna en umsamið grundvallarbú. Þar er land reiknað á 11 millj., ræktun á 3 millj., byggingar á 9 millj., vélar á 51/2 millj. og bústofn á 4 millj. Það er auðvelt að rökstyðja, að þessar tölur eru ekki áætlaðar of háar, enda gefa nýlegar sölur á jörðum með áhöfn og vélum vísbendingu í þessa átt. Sú stofnlánafyrirgreiðsla, sem unnt væri að fá út á þessa 32.5 millj. kr. fjárframfestingu, er samkv. áður nefndu dæmi einungis 36.4%. Það er jarðakaupalán 1.6 millj., ræktunarlán 600 þús., lán vegna byggingar útihúsa 5.2 millj., vélalán 800 þús., bústofnskaupalán 1232 þús. og lán vegna byggingar íbúðarhúsa 2.3 millj. Þarna er miðað við að allt sé byggt frá grunni. Stofnlánafyrirgreiðslan er þannig einungis 11 millj. 432 þús. af 32.5 millj. kr. heildarkostnaði. Það, sem á milli ber, verður bóndinn að útvega með öðrum hætti, eigin eignum eða með því að stofna til lausaskulda.

Með hinum ógurlegu vaxtakjörum, sem nú gilda í landinu, er róður með miklar lausaskuldir fyrirsjáanlega erfiður. Hvernig ætlar verðlagsgrundvöllurinn bóndanum að standa undir vöxtum? Samkv. grundvellinum frá 1. des. 1976 ætti bóndinn að fá 5% vexti af eigin fé, — ég endurtek : 5% vexti af eigin fé, 2 068 560 kr., þ. e. a. s. 103 428 kr., gert er ráð fyrir að laun greiði 9.91% vexti af 660 þús. kr. skuld við Stofulánadeild eða 65 406 kr., hafi lausaskuldir 343 841 kr. og greiði í vexti af þeim 16.75%, eða alls í vexti 226 427 kr. Á þessu sést að ekki er óeðlilegt þó að skór kreppi að einhverjum frumbýlingnum, þar sem það fjármagn, sem þarf til búrekstrarins yfir árið, er þar að auki og hann þarf að sjálfsögðu einnig að greiða vexti af því.

Þá er rétt að hafa í huga hvernig skiptingu stofnlánafjár er háttað milli atvinnuveganna. Formaður Stéttarsambands bænda hefur gert könnun á því og leyfi ég mér að vitna til hennar.

Um áramótin 1975–1976 var staðan þannig: Stofnlánadeild landbúnaðarins hafði lánað bændum 2935 milli., Veðdeild Búnaðarbanka Íslands 507 millj., Byggðasjóður 104.1 millj., samtals þá til landbúnaðar 3546 millj. kr. Til iðnaðar höfðu farið frá Iðnlánasjóði 1428 millj., frá Iðnþróunarsjóði 2194 millj., Iðnrekstrarsjóði 88 millj., Veðdeild Iðnaðarbankans 91 og úr Byggðasjóði 552 millj. Þetta voru samfals til iðnaðar 4 milljarðar 353 millj. kr. Til sjávarútvegs og fiskiðnaðar höfðu farið úr Fiskveiðasjóði 14 milljarðar 263 millj., úr Byggðasjóði 2 milljarðar 374 millj., samtals 16 milljarðar 637 millj. kr. til sjávarútvegsins. — Stofnlánadeild landbúnaðarins hafði auk þess lánað til íbúðarhúsa í sveitum 680 millj. Stofnlánadeild hafði lánað vinnslustöðvum landbúnaðarins 586 millj. og Byggðasjóður vinnslustöðvunum 89.7 millj., en um þessi lán er álitamál hvort ekki er eðlilegast að telja þau til iðnaðar.

Bændur hafa á fundum sínum gert kröfu um aukin afurða- og rekstrarlán, þannig að þeir fengju kaup sitt greitt fyrr. Allir sjá að það er ekki hagkvæmt að fá ekki verulegan hluta launa sinna greiddan fyrr en eftir árið, jafnvel þó að vaxtafært sé hluta af þeim tíma.

Þrátt fyrir það að mér sé ljós nauðsyn þess að hækka rekstrarlánin, þá sé ég ástæðu til þess að þakka hæstv. landbrh. fyrir þann árangur sem hann hefur náð til leiðréttingar þeirra í ráðherratíð sinni frá 1971. Þar hef ég orðið var við ljón á vegi hans.

Mönnum hefur verið tamt að gagnrýna útflutningsbæturnar og telja eftir það fé sem til þeirra hefur verið varið. Ég tel að ef við eigum að geta verið okkur sjálfum nógir um framleiðsíu landbúnaðarafurða til innanlandsneyslu, þá sé óhjákvæmilegt að stundum sé framleitt of mikið. Tíðarfar og fleiri óvissir þættir ráða svo miklu um framleiðslumagnið. Mér er t. d. ómögulegt að segja til um það í dag hvort bú mitt gefur af sér sömu afurðir og það gerði í fyrra. Þær gætu orðið 10% meiri eða minni. Það má ekki skoða útflutningsbætur sem niðurgreiðslu til útlendinga. Ef þeirra nyti ekki við yrði verð innanlands að hækka að því skapi. Það var fyrirkomulagið sem gilti áður en þær voru teknar upp. Ég legg áherslu á að útflutningsbætur koma öllum íslenskum neytendum til góða, og ég tel að þær þurfi að vera. Það er enn fremur mjög mikilvægt að greiðslur útflutningsbótafjár og afurða- og rekstrarlána berist reiðulega og réttstundis.

Ef af lausaskuldafyrirgreiðslu verður þarf að útvega aukafjármagn. Það þýðir ekki að taka það af annarri fjármagnsfyrirgreiðslu til landbúnaðarins eða ráðstöfunarfé Stofnlánadeildar eða Veðdeildar sem er af of skornum skammti. Þessi fyrirgreiðsla verður að vera í því formi sem að gagni kemur. Hér duga ekki skuldabréf sem ekki seldust nema kannske með afföllum. Bændum er ekki hjálp í slíku og það er óviturlegt að setja viðskiptastofnanir bænda í slíkan vanda. Þessi lán verða að vera með viðráðanlegum vöxtum og án verðtryggingar. Vaxtaaukalán eru gersamlega ófær lausn. Rekstur bænda, allra síst þeirra sem verst eru settir, getur alls ekki staðið undir vaxtagreiðslum upp á 22 eða 23%. Þannig yrði misræmið milli bændanna að hyldýpisgjá.

Sá aðili, sem mér þykir eðlilegur til aðstoðar, er Byggðasjóður. Samkv. því, sem ég sagði áðan, hafði Byggðasjóður lánað um áramótin 1975–1976 til sjávarútvegs og fiskiðnaðar 2 milljarða 374 millj., til iðnaðar 552 millj., til iðnaðar á landbúnaðarvörum í þorpum og bæjum 89.7 millj., en til landbúnaðar einungis 104.1 millj. Og þá er rétt að athuga hvernig þessar landbúnaðarlánveitingar Byggðasjóðs skiptust: til veiðifélaga 12.2 millj., til grænfóðurverksmiðja 29.1 millj., til reiðskóla og verktaka 2 millj., til hænsnabúa 5.5 millj., til minkabúa 38.8 millj., til ræktunarsambanda, búnaðarsambanda, garðræktarfélaga og vatnsveitna 6.3 millj. og til bænda við Inn-Djúp 9 6 millj. kr. Þannig var þessum 104.1 millj. ráðstafað.

Ef það er haft í huga að rúmur fjórðungur þeirra, sem búa utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, er sveitafólk, þá sýnist mér hlutur þess mjög fyrir borð borinn og ástæða til að nefna aðstoð Byggðasjóðs. Enn fremur mundu lánskjör Byggðasjóðs vera eðlileg.

Ég heiti á Alþ. og ríkisstj. að hugleiða þetta lausaskuldamál og ráða bót á því. Ég er þess fullviss að hér er einungis um tímabundna erfiðleika nokkurs hluta bænda að ræða. Landbúnaðurinn á sér bjarta framtíð í okkar góða landi, og fá eða engin störf eru lífrænni og eftirsóknarverðari í þjóðfélaginu.

Ég óska eftir því, herra forseti, að hlé verði gert á þessari umr. í dag og málið sent atvmn. til athugunar.