26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að staðhæfa að það hefur ekki staðið á hv. alþm. að veita móttöku skýrslu þeirri frá Norsk Hydro sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, hefði hún staðið til boða, en hún hefur ekki staðið til boða og það hefur verið farið með hana eins og mannsmorð.

Ég hélt nú að hv. þm. hefði ekki þurft að beina því til mín sérstaklega eða vekja sérstaka athygli á kröfu minni um að gerðar yrðu umhverfisrannsóknir. Hitt er annað mál, að ég tel æskilegt, þegar fjallað er um mál af þessu tagi, að það verði annar aðili heldur en erlendur auðhringur og ekki síst annar aðili heldur en Norsk Hydro, af þeim upplýsingum sem ég hef um starfsemi þess hrings í Noregi, sem knýi slíkar rannsóknir fram. Og með fullri virðingu fyrir viðræðunefnd um orkufrekan iðnað vildi ég gjarnan að hv. Alþ. fengi að fjalla um mál þessarar tegundar áður en hún er búin að vera mjög lengi með puttana í því, eins og kallað er. Reynslan hefur verið þess háttar.

Fsp. fyrirspyrjanda um kostnaðinn af umhverfisrannsóknum, sem þegar væru byrjaðar, var svarað á þá lund að þær væru engar byrjaðar, heldur væri allt hér á athugunarstigi. Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði um viðhorf okkar og umfjöllun um orkumálin okkar, nauðsyn þess að Alþ. taki afstöðu til þess með hvaða hætti við eigum að nota orku okkar, koma henni í peninga. Hitt staðhæfi ég jafnframt, að þá er nauðsynlegt að Alþ. taki fyrst og fremst afstöðu til þess hvort við eigum að nýta þessa orku fyrst og fremst til þess að framleiða verðmæti úr landsins gæðum í þágu fólksins í landinu eða hvort við eigum að láta þessa orku og síðan starfsorku fólksins í landinu fala fyrir erlenda auðhringi í annars konar tilgangi.