21.02.1977
Efri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

165. mál, póst- og símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. landsk. þm., Helga Seljan, fyrir undirtektir hans undir þetta frv. Segir mér svo hugur að eins muni verða um aðra hv. þm., að þeir séu fúsir til að styðja málið, enda er megintilgangur málsins, eins og hefur komið fram í umr., að gera skipulagninguna hagkvæmari og betri og stjórnunina auðveldari á þessari stærstu stofnun landsins. Það er besta tryggingin fyrir því að gjald til stofnunarinnar geti verið í sæmilegu hófi, því að stofnun, sem hefur ekki tekjur nema af eigin rekstri, verður auðvitað að gæta hvors tveggja: að ná í hæfilega háar tekjur og fara vel með. Að þessu er stefnt með frv. sem hér er lagt fram.

Út af því, sem hv. þm. sagði um að austfirðingar hefðu orðið síðastir með sjálfvirka kerfið, þá datt mér nú í hug hvort það hafi ekki verið gert til þess að jafna upp, af því að þar kom síminn fyrst á land. Það hefur sennilega ekki verið haft í huga.

En út af fsp., sem ég ætla að svara, því að annað í ræðu hans gefur ekki tilefni til þess, þá vil ég segja það um umdæmisstjórastörfin að þeim hefur þegar verið breytt í nútímahorf þar sem hefur fallið til af sjálfu sér, eins og t. d. þegar bæjarsímastjórinn í Reykjavík varð að hætta vegna aldurs. Þá var ákveðið með reglugerð að sameina starf ritsímastjóra og bæjarsímastjóra í eitt starf stöðvarstjórans í Reykjavík. Það er eins og þetta frv. og reglugerðin gera ráð fyrir og er þegar komið í framkvæmd. Bæjarsímastjóri, sem þá var, tók við starfi umdæmisstjóra. En hann var því miður ekki langlífur í því svo að það hefur komið annar maður í hans stað. Á Akureyri varð umdæmisstjórinn að hætta vegna aldurs og þá var umdæmisstjóri skipaður fyrir allt Norðurland, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Aftur á Austurlandi hefur ekki verið nein breyting og það er enga breytingu að finna í þessu frv. um tilfærslu á umdæmisstjóranum þar. En sá, sem í því embætti situr, situr meðan honum endist aldur til eða hann hættir af öðrum ástæðum. Það verður svo endurnýjað þegar þar að kemur, en frv. gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu.