26.10.1976
Sameinað þing: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

27. mál, álver við Eyjafjörð

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvað tók hv. þm. svo sárt af því sem ég sagði. Ég ætlaði að gefa honum „komplíment“ fyrir áhuga hans á náttúrurannsóknum, og ef hann hefur misskilið mig, þá vil ég leiðrétta það. Hér er einmitt verið að fara að hans ráðum. Ég vil einnig leggja áherslu á það sem ég tók fram, að engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort þessi rannsókn verði gerð eða hverjir gera hana, en ég teldi rétt að hún verði gerð af íslendingum sjálfum og tel það sjálfsagt. Aðeins er verið að kanna hve umfangsmikil slík rannsókn er þar sem hún er gerð, eins og t.d. í Noregi, af opinberum aðilum þar.

Um þessa skýrslu vil ég segja að allir, sem hafa beðið mig um þessa skýrslu, hafa fengið eintak af henni. Mér er ekki kunnugt um að hv. þm. hafi beðið um skýrsluna, hvorki mig né viðræðunefndina. Ef hann hins vegar biður um hana skal ég sjá um að hann geti fengið ljósrit af henni.