21.02.1977
Efri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

51. mál, skotvopn

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í stuttu máli lýsa yfir ánægju minni með brtt. frá allshn. í heild sem hv. frsm. gerði grein fyrir. Að því er ég best fæ séð miða þær allar að því að herða eftirlit og auka aðhald um skynsamlega og mennilega meðferð á þessum veiðivopnum. Og ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að mjög mikið sé í húfi að við drögum sem allra mest úr hættunni á misnotkun þessara tækja, hvort heldur af gáleysi, vankunnáttu, kjánaskap eða giftuleysi. Mér virðast allar þessar till. miða í þá átt.

Ég geri mér að vísu ekki alveg grein fyrir því, hvað við er átt þar sem ræðir um tæki til hleðslu á skotfærum. Mér er það minnistætt, í þann mund sem ég fór að fara með byssu austur á landi, áður en löggjöf um byssuleyfi gekk í gildi, að tæki notuðum við engin til þess að hlaða með patrónur önnur en þau sem við sjálfir bjuggum til og var þá stauturinn til þess að þjappa við forhlaðinu. Nú hef ég frétt það mér til dálítillar gleði, að ýmsir veiðimenn eru farnir að hlaða haglabyssuskot sín að nýju og spara með því allmikið fé, en þetta mun hafa byrjað aftur vegna þess að í stað pappaskothylkjanna, sem flutt voru inn um langa hríð og komu í staðinn fyrir messingpatrónurnar, er nú farið að flytja inn þessi skotfæri eða skot í plastpatrónum eða skothylkjum sem hægt er að hlaða aftur nokkrum sinnum með ágætis árangri. Hvað sem því líður, þá er ég eflaus um að það er rétt að stuðla að gætilegri meðferð á hvellettum og púðri sem til þessara hluta eru notuð, því að dæmi veit ég þess að orðið hafi slæm meiðsli af klaufalegri meðferð á þessu sprengiefni við hleðslu á skotfærum.

Enn sem fyrr er ég þeirrar skoðunar, að taka beri það til alvarlegrar athugunar hvort ekki beri að setja sérstök lög um skotveiði sem brúað geti bilið á milli þeirrar löggjafar, sem hér um ræðir, og t. d. fuglafriðunarlaganna og fyllt geti upp í ýmis önnur göt varðandi skotveiðar á landi hér. Ég er vissulega samþykkur brtt. við 3. mgr. 20. gr., sem kveður á um að ekki megi hleypa af skoti á vegum, yfir vegi, úr ökutæki á ferð. Ég vildi gjarnan einmitt í þess háttar löggjöf sem ég ræddi um, um skotveiði yfirleitt, að bannað yrði að skjóta úr bíl á ferð. Ég hef heyrt sögur eins og hv. frsm. allshn. gat um áðan, en ekki fengið sönnur á þeim, að skotið hafi verið hreindýr úr flugvél. Aftur á móti veit ég sönnur á því, að hreindýr hafi verið skotin úr bíl. Fyrir allmörgum árum fundust hræ inni í Hamarsdal af 12 hreinkúm sem höfðu verið skotnar í kviðinn með haglabyssu. Sá fannst ekki sem þennan verknað hafði framið, en ummerki sýndu það ljóslega að kýrnar höfðu verið eknar uppi, hreinkýrnar komnar að burði og höfðu verið eknar uppi af jeppa og þessi vesalings maður, sem hlýtur að hafa verið illa sjúkur, vann á þeim með þessum hætti. E. t. v. gætum við aldrei komið í veg fyrir að óhappamenn eða sjúklingar gerðu þetta, hvað svo sem við færðum í lög, að aka uppi veiðidýr á bil og vinna svona á þeim. En ég hneigist til þess að styðja nokkuð skoðun þeirra manna sem telja að við gætum dregið úr hættunni, sem veiðidýrum okkar og aðallega fuglum er búin af of hörðum atgangi skotmanna, með því að kveða á um það t. d. að óleyfilegt sé við rjúpnaveiðar eða fuglaveiðar inni á hálendinu eða inni á heiðunum okkar að aka á bílum af alfaravegi eða nota snjósleða eða vélsleða til slíkra hluta, heldur verði þeir, sem þetta sport vilja stunda, að gera svo vel að hafa fyrir því að fara gangandi. Ég hef mjög sterka tilhneigingu til að styðja þetta sjónarmið, og ég er alveg viss um að við gerðum rétt í því að athuga þetta, hvort við gætum ekki í fyrsta lagi stuðlað að aukinni vernd þessara veiðidýra okkar fyrir of mikilli hörku af atgangi veiðimanna og í öðru lagi gert þessa skemmtilegu iðju, sem sportveiði með byssu er ef almennilega er að unnið, — gert þetta sport skemmtilegra og göfgað það dálítið með því að kveða á um það í lögum hversu þar skuli að unnið. En ég ítreka sem sagt stuðning minn við þessar brtt. í heild.