21.02.1977
Efri deild: 44. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

51. mál, skotvopn

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv., sem hér liggur fyrir, og tel, að það sé margt í því til bóta. Samt get ég ekki stillt mig um að koma með ábendingar um tvö atriði sem ég tel að ættu að vera innan þessara laga, skal þó ekki fullyrða, hvort annað atriðið er til í öðrum lögum varðandi leyfi til dýraveiða.

Fyrra atriðið er það, að mér sýnist að með þeim reglum, sem hér eru settar fram um eigendaskipti á skotvopnum, sé alltaf gert ráð fyrir verslun milli manna í þessum efnum. Þar er um mikinn misskilning að ræða. Sennilega ganga flest skotvopn á Íslandi í dag að erfðum. Maður deyr og einhver annar fær skotvopnin. Það er einmitt í þessum tilfellum sem hættan er mest. Menn hafa geymt skotvopn á einhverjum stað, hvort sem þeir hafa gert það í útihúsi eða heima hjá sér, og það er ekkert eftirlit með því almennilegt, að það sé tryggt að það taki við þessu skotvopni aðili sem hefur leyfi til þess að hafa það undir höndum. E. t. v. er hægt að koma þeirri skyldu á lögreglustjóra, að þeir innkalli skotvopn við dauðsföll og þannig sé tryggt að það verði aldrei nema skamman tíma sem þetta á sér stað, þeirra sé sem sagt skyldan að sjá til þess að einhver afkomenda afli sér tilskilinna leyfa ella sé skotvopnunum skilað. Að þetta eftirlit sé í höndum lögreglustjóra eða sýslumanna er ein leiðin sem kæmi þarna sterklega til greina að fara, og önnur er sú að óska hreinlega eftir því að öll skotvopn séu tryggð og menn verði að greiða tryggingariðgjald af þeim. Þannig yrði það þá í höndum tryggingarfélaga að sjá til þess, ef eigandi fellur frá, að þá sé einhver sem greiði af því iðgjald og þess vegna bundin við ákveðinn mann áfram yfir ákveðnu skotvopni.

Hitt atriðið, sem ég vildi vekja athygli á, varðar veiðiskap. Við íslendingar höfum stundað það lengi að veiða sjófugl okkur til matar, og ekki ætla ég að mæla gegn því að það verði gert áfram. Hins vegar tel ég algerlega óviðeigandi að þær veiðar geti átt sér stað með hraðbátum. Það, sem veldur því, er í fyrsta lagi að mikið af þessum sjófugli er það seinfær til flugs að það er varla hægt að flokka það undir veiðiskap lengur, nema þá bara hreina slátrun, ef menn vinna saman að því á hraðbáti, við skulum segja að það séu tveir bátar sem séu notaðir samtímis. (StJ: Það er bannað samkv. lögum.) Það má vera að þetta sé í öðrum lögum og þess vegna þurfi ekki að ræða það, og þá tek ég það af dagskrá.

En ég get ekki stillt mig um, af því að ég er farinn að ræða um veiðiskapinn, að geta þess, að ég tel að hreindýraveiðar þeirra austfirðinga eigi að leggjast niður og af því að íslendingar telja sig nú vera á svo háu menningarstigi, þá reynum við að komast upp á menningarstig lappanna að slátra þeim eftir eðlilegum leiðum. Ég lít það alveg sömu augum, að okkur er heimilt að fara að veiða hreindýr austur á fjörðum, eins og ef leyft væri að skagfirskir stórbændur mættu selja réttinn til að skjóta úr stóðinu. Ég er alveg viss um að klárarnir mundu hreyfa sig og það gæti orðið álíka mikið sport og kúaveiðarnar þar austur frá.