22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. landsk. þm. sagði, þá snerust þær viðræður, sem einstakir ráðh. áttu við norska áhrifamenn og m. a. forsrh. og sjútvrh. Noregs, í fyrsta lagi um það, sem slíkar umr. hafa vafalaust snúist áður um, í tíð fyrri ríkisstjórna, þ. e. styrkveitingar til norsks sjávarútvegs. Við létum þar í ljós mikla óánægju okkar yfir framhaldi þessara styrkveitinga og bárum fram þá ákveðnu ósk að dregið yrði verulega úr þessum styrkveitingum. Fyrstu samskipti á milli okkar í þessum efnum voru þau, að við óskuðum eftir að fá að kynna okkur uppbótakerfi norðmanna, og fóru tveir menn til að kynna sér það. Norska sjútvrn. var boðið og búið að veita þessum mönnum allar þær upplýsingar sem fyrir hendi voru, og ég get sagt það hér, að þeir leyndu okkur engu í þeim efnum. Hér er litið svo á að sé verið að tryggja norskum sjómönnum samsvarandi laun og hliðstæðum öðrum stéttum, það sé byggðavandamál, en það sé ekki um að ræða óheilbrigða samkeppni í sölu á fiskafurðum við önnur lönd.

Það er rétt, sem hv. þm. nefndi áðan, að það hefur komið í norskum blöðum um gjöf norðmanna til portúgala, að þeir hafi gefið hafrannsóknarskip. Við því er auðvitað ekkert að segja út af fyrir sig. En hitt væri óheilbrigt og óheiðarlegt, ef við stæðum frammi fyrir því að norðmenn undirbyðu okkar samningamenn. En um það vil ég ekki fullyrða og á engan hátt væna norsku ríkisstj. um það á þessu stigi málsins. Þeir fulltrúar okkar, sem eru nýfarnir til Portúgals til þess að semja um sölu á saltfiski, ræddu við forsrh., viðskrh. og mig um þessi mál og hétu því að láta okkur fylgjast með því sem gerðist, ef slíkt sem þetta kæmi upp. En fyrr megum við ekki og getum ekki ásakað norsku ríkisstj. eða norsk stjórnvöld. Hitt er svo annað mál, sem er okkur öllum áhyggjuefni, að viðskipti okkar við portúgölsku þjóðina eru allt of lítil miðað við þau miklu kaup sem þeir hafa gert hjá okkur. Hér er um fátæka þjóð að ræða sem þarf að auka verslun sina og viðskipti, og það er okkar hagur að auka verulega viðskipti við portúgölsku þjóðina.

Varðandi það, sem hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Norðurl. e., sagði um fiskimálaráðstefnuna, þá var það auglýst að öllum væri frjálst að taka þátt í þessari ráðstefnu. Það var sérstakt þátttökugjald sem hver og einn varð að greiða. Og það var fulltrúi í sjútvrn. sem hafði allan veg og vanda af undirbúningi þessarar ráðstefnu, Arnmundur Backman lögfræðingur, sem vann þar mikið og gott starf. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda, að því miður voru allt of fáir þm. þátttakendur í ráðstefnunni. En þetta var auglýst víða, að allir aðilar hefðu rétt til þátttöku í fiskimálaráðstefnunni. Ég veit að heildarsamtök í sjávarútvegi stóðu að því að senda nokkra fulltrúa hver fyrir sig, og það sem var eiginlega verra; að hlutfallslega var meiri þátttaka úr hópi þm. a. m. k. tveggja annarra þjóða en okkar íslendinga þó að ráðstefnan hafi verið haldin hér.

Í sambandi við samskipti á milli þessara þjóða vil ég ekki á nokkurn hátt gera lítið úr því sem hefur verið gert á undanförnum árum. Þau eru allveruleg á sviði fisksölumála, en þau eru takmörkuð á öðrum sviðum, vegna þess að við höfum vérið á undan í okkar útfærslu. En nú eru þessi viðhorf breytt, og ég hygg að ég megi alveg örugglega segja að það er áhugi ríkisstj. í heild fyrir því að auka samskipti og upplýsingaskyldu á þessum sviðum á milli þessara þjóða og nokkurra annarra þjóða sem liggja næst okkar fiskveiðilandhelgi; en ekki síst, heldur frekar þessara þjóðá sem hér hafa verið nefndar og þál. frá 1972 fjallaði um.