22.02.1977
Sameinað þing: 54. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

152. mál, samstarf við grannþjóðir um sjávarútvegsmál

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. síðasti ræðumaður hafi gert sér grein fyrir því, að ég væri búinn að nota ræðutíma minn, þegar hann kvaddi sér hljóðs — (EKJ: Ég bað um orðið áður.) að hann hafi fylgst með því, þegar ég kvaddi mér hljóðs, og vil nú gjarnan að þessi örstutta aths. yrði dregin frá þeim tíma sem ég fæ ella undir mína stuttu aths.

Ég bar ekki fram fsp. mína hér til þess að efna til neins konar keppni um frumleik í hugmyndasmíð, hvorki við hv. þm. Eyjólf K. Jónsson né við nokkurn annan. Fsp. þessi, eins og ég tók fram í upphafi, var borin fram nokkru áður en þessi sjónvarpsþáttur í Kastljósi kom á dagskrá. Aftur á móti vakti ég athygli á því hversu fjarri því færi að ríkisstj. hefði getað sinnt þessari samþykkt Alþ. þar sem svo mikið vantaði á það að jafnvel fiskimálastjóra, Má Elíssyni, hefði verið ókunnugt um efni þessarar þáltill. Þrátt fyrir það að Eyjólfur Konráð Jónsson þekki Má Elísson eflaust miklu betur en ég, sem ég efast ekkert um, þá var það nú svo, vegna þess að ég þekki Má Elísson líka og einnig að heiðarleika, að ég hringdi til hans og spurði hann hvort satt væri sem stjórnandi þáttarins hefði sagt mér, að hann hefði borið það fram þarna að þessari þáltill., sem samþ. var óbreytt með öllum greiddum atkv., hefði verið breytt mjög mikið í meðförum Alþingis. Már Elísson, sem ekki brást fremur en fyrri daginn í því að segja satt, sagði: „ Já, mig minnti það. “ Hitt má svo Eyjólfur Konráð Jónsson eiga við fornvin sinn, Má Elíssyni á brýn neinar annarlegar hvatir.

Ég hefði sem sagt ekki kvatt mér hljóðs í þriðja sinn, ef ekki hefði sprottið upp þessi ágæti þm. Norðurl. v. til þess að bæta dálitlum ómerkilegheitum, eins og oft fyrri daginn, saman við þó nokkuð skynsamlegar umr.