22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Á þskj. 311 er till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1977–1980. Till. þessi er í sama formi og lögin frá 1965 gerðu ráð fyrir, þ. e. að nú í till. er gert ráð fyrir áætlun um vegagerð næstu fjögur ár. Hins vegar er þó gert ráð fyrir að í framkvæmdinni verði þetta með þeim hætti, að skipt verði niður fjárveitingum til vegaframkvæmda næstu þrjú ár, en aftur síðasta árið verði heildarfjárhæðir settar upp, en ekki skipt á hin einstöku verk eins og á hinum þrem fyrri árum.

Eins og vegalögin gera ráð fyrir, er þessi þáltill. um vegáætlun byggð á því að verða endurskoðuð að tveim árum liðnum. Þess vegna eru tölur notaðar fyrir tvö síðustu árin eins og fyrir annað ár þessarar vegáætlunar, því að þegar að því kemur að nota þarf þá fjármuni, sem eru ætlaðir á árunum 1979 og 1980, verður Alþ. búið að fjalla um vegáætlunina á nýjan leik.

Tekjur vegáætlunarinnar hækka um 26% í krónum á árinu 1977 frá 1976. Þá er gert ráð fyrir að heildarfjárhæðin hafi svipað gildi og á s. l. ári, þar eð hækkun á verðlagi á milli þessara ára er a. m. k. ekki reiknuð meiri en þessari hækkun nemur. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að á árinu 1978 hækki framkvæmdagildi fjárins frá 1977 um 5%. Fjárhæð tekna frá árinu 1976 hækkar fyrir árið 1978 um 48%. Eins og ég áður sagði eru hins vegar fjárhæðirnar 1979 og 1980 óbreyttar að krónutölu, enda fer fram endurskoðun á þinginu 1978–1979, og á því þingi munu þá sitja einhverjir þm., sem ekki sitja hér nú, og aðrir héðan farnir, sem nú eiga hér sæti.

Um tekjuáætlun vegáætlunarinnar er það að segja, að markaðar tekjur hafa orðið fyrir miklu áfalli síðan 1965, að þær voru fyrst upp teknar að verulegu marki. Er það bensínskatturinn fyrst og fremst, sem var höfuðþáttur tekjustofna til vegagerðar og skal vera það núna áfram. Verðhækkun á bensíni á heimsmarkaði hefur að sjálfsögðu eytt að nokkru þeim möguleikum, sem Vegagerðin ætlaði sér að hafa af bensínskattinum, og svo hitt, að notkunarauki bensíns hefur ekki orðið eins mikill og reiknað var með, sem m. a. stafar af verðhækkuninni á bensíninu á alþjóðamarkaði og þess vegna höfum við stefnt í þá átt að nota sparneytnari bíla en áður.

Mörkuðu tekjurnar miðast við að notuð verði lagaheimild um hækkun gjaldstofna í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar. Bensíngjaldið, sem er hæsti liðurinn í mörkuðu tekjustofnunum eða 3/4 hlutar þess, er nú 19.96 kr. á hvern lítra eða fjórðungur bensinverðsins. Innkaupsverð á bensíni er annar fjórðungur, helmingurinn er önnur gjöld, þar af til ríkissjóðs 31.3%, dreifingarkostnaður 15.2% og jöfnunargjald 2.6%. Á þessu hefur orðið raunveruleg breyting hin síðustu ár sem ég skal nú gera frekari grein fyrir.

Hluti bensíngjalds í útsöluverði bensíns hefur farið minnkandi síðan 1973. Hinn 1. jan. 1964, eftir að gjald þetta var fyrst lagt á, var það um 48% af útsöluverðinu og hélst þannig með smábreytingum til 1973, var 1. jan. það ár 51.9%, en lækkaði á því ári og í ágústmánuði var það tæp 43%. Þá voru önnur gjöld til ríkissjóðs um 20.2%, innkaupsverðið 17%, dreifingarverðið 17.7% og jöfnunargjaldið 2.2%. Þetta hefur þó haldið áfram að breytast. 1. jan. 1974 var bensingjaldið 38% af heildarverðinu, 1. jan. 1975 33%, 1. jan. 1972 27% og nú 25% eða 19.96 kr. af 80 kr. sem bensínlítrinn kostar:

Um raunverulegar greiðslur vegna vegamála frá 1971–1980 og framlag ríkissjóðs þeirra vegna vil ég nú fara nokkrum orðum.

Útgjöld ríkissjóðs vegna vegagerðarinnar á verðlagi ársins 1977 verða lögð til grundvallar í því dæmi, sem ég ætla nú að gera grein fyrir. Inn í það dæmi kemur greiðsla ríkissjóðs vegna vaxta, verðtryggingar og afborgana af lánum til vegagerðar, markaðir tekjustofnar, beint framlag ríkissjóðs og lán sem tekin eru til vegagerðar. Með því að færa þetta á þennan hátt til verðlags ársins 1977 lítur dæmið þannig út að til vegamála hafi verið veitt á þessum árum sem hér segir: 1971 7 milljarðar 210 millj. kr., 1972 7 milljarðar 865 milli. kr„ 1973 8 milljarðar 773 millj., 1974 8 milljarðar 469 millj. kr., 1975 6 milljarðar 968 mill.j. kr., 1976 6 milljarðar 710 millj. kr„ 1977 6 milljarðar 935 millj. kr. og 1978 7 milljarðar 296 millj: kr. Ég sé ekki ástæðu til að fara lengra út í þessa upptalningu.

Ef þetta er hins vegar tekið hlutfallslega og samanlögð útgjöld, miðað við vísitölu framfærslukostnaðar 1971, eru lögð til grundvallar sem 100, þá verður árið 1972 með 109, 1973 122, 1974 117, 1975 97, 1976 93, 1977 96 og 1978 101.

Rétt er að hafa það í huga, að þegar verið var að leggja veg og byggja brýr yfir Skeiðarársand var því haldið fram hér á hv. Alþ. að raunverulega væri ekki rétt að taka fjárveitingu eða fjármagnsútvegun til þess inn í heildardæmið í vegagerðinni. En í þessum tölum, sem ég hef hér notað er það gert. Ef þessu væri hins vegar breytt og enn er miðað við það verðlag sem við notum 1977, þá hefði fjármagnsútvegun til Skeiðarársands verið 433 millj. 1972, 816 millj. 1973, 950–960 millj. 1974.

Ef þetta er reiknað út á þennan veg breytist það nokkuð, því að alls var fjárveiting til Skeiðarársands 2 milljarðar 350–360 millj. kr. Ef dæmið væri tekið með þessum hætti og umreiknað til verðlagsins 1977 og árið 1971 sem 100, þá er þetta 108 til vegagerðarinnar 1972, 110 1973, 104 1974, 94 1975, 93 1976, 97 1977 og 101 1978.

Við þennan samanburð verður einnig að hafa það í huga, að á árunum 1973–1974, sem eru hæstu árin með fjárveitingar, var aukafjárveiting til Þingvallavegar vegna þjóðhátíðarinnar um 80 millj. kr. Þess vegna eru þessar tölur ekki sambærilegar við það sem nú gerist. Þessu til viðbótar má svo minna á það, að á þessum árum, 1970 og þar á eftir, var einnig tekið lán hjá Alþjóðabankanum vegna hraðbrautarframkvæmda hér á Suður- og Vesturlandi og Kópavogi 1974 tekið alveg inn í ríkissjóð. Allt þetta kemur inn í þetta dæmi og gerir það ekki raunverulega sambærilegt við það sem nú er við að fást.

Þessu til viðbótar er svo rétt að geta þess, að greiðslur vegna lána hafa aukist verulega á síðari árum. 1972 voru vextir og afborganir og verðtrygging aðeins 100 millj. kr. 1973 var það hins vegar 1155 millj., 1974 um 1200 millj., 1976 1357 millj., árið 1977 tæpar 1300 millj. og 1978 verður það 1360 millj. Þetta ber að hafa í huga í sambandi við þessar fjárveitingar.

Um lánamálin vil ég segja það til viðbótar því, sem fram hefur komið, að fyrstu árin var þannig með farið að Vegasjóður greiddi vexti og afborganir af lánum. Svo var t. d. um Vestfjarðaáætlun. Árið 1970 var hins vegar greitt með ríkisframlagi og sú fjárhæð var tæpar 600 millj. kr., en frá og með árinu 1972 hefur ríkissjóður greitt alla vexti, afborganir og verðtryggingar af vegalánum. Þessu til viðbótar er svo að geta þess, að ríkissjóður greiðir nú upp halla sem hefur orðið á vegáætlun síðustu ára, en hann hefur numið hundruðum millj. kr. og gerir því stöðu Vegasjóðs betri. Sá eini halli, sem tekinn er inn í vegáætlun nú, eru þau útgjöld, sem ríkissjóður hefur ekki greitt, heldur hefur Vegagerðin sjálf annast greiðslu á þeim eða skuldað er á annan veg, en það eru 92 millj. kr. Allt annað sem hefur verið umframgreiðslur eða ofáætlaðar tekjur, hefur ríkissjóður nú borgað að fullu og Vegagerðin því notið þess.

Ekki er ég þó ánægður með þær fjárveitingar sem verða til vegamála nú og á næsta ári. Hins vegar er það skýranlegt, að fyrri framkvæmdir draga úr því sem nú verður unnt að framkvæma, því auðvitað væri mikill munur ef við hefðum til ráðstöfunar í nýjar framkvæmdir þær 1300 millj. kr., sem fara til þess að greiða vexti og afborganir af lánum á árinu 1977, og tæpar 1400 millj. kr., sem þarf að nota í sama skyni á árinu 1978. Þetta er rétt að hafa í huga þegar málið er skoðað í heild. Þessu til viðbótar vil ég vekja athygli á því, að þegar framlag ríkissjóðs er raunverulega gert upp með réttum hætti, eftir að ríkissjóður er búinn að taka á sig öll lánvegna vegagerðarinnar, má segja að í vegáætlun fyrir 1977 sé framlag ríkissjóðs ekki 779 millj. kr., heldur eigi að bæta þar við 1600 millj. sem teknar eru að láni og sé framlagið því 2379 millj. kr. og á árinu 1978 sé það 2700 millj.

Í sambandi við lántökurnar á vegáætlun fyrir árin 1977 og 1978 vil ég vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir að á þeim árum verði notuð heimild í lögum um Norður- og Austurveg um happdrættisskuldabréfalán, þannig að allt að 1000 millj. kr. verði notaðar á þessu ári af þeirri fjárhæð til sölu á bréfunum og þá afgangurinn á næsta ári eða 850 millj. kr. Þetta þýðir að sjálfsögðu það, að skiptingin verður að vera í samræmi við lögin þannig, að 60% fari til vegarins frá Reykjavík til Akureyrar og 40% frá Reykjavík austur til Egilsstaða.

Að sjálfsögðu verður að nota af þessu fé í þær nýbyggingar sem unnið verður að á þessum landssvæðum, eins og t. d. brúargerð yfir Borgarfjörð, vegagerð á Holtavörðuheiði, áframhald á veginum kringum Blönduós og austur þaðan. Einnig verður haldið áfram með veginn frá Þjórsá til Hvolsvallar, hvort sem það verður tekið að einhverju leyti milli Hvolsvallar og Heilu, því þar eru verulegir kaflar sem eru það vei undirbyggðir að leggja mætti varanlegt slitlag á þá. Ég geri einnig ráð fyrir því að af þessu fé verði tekið í veg um skriðurnar fyrir Lónsheiði og önnur slík verkefni sem þegar er unnið að.

Þá vil ég og segja það í þessu sambandi, að ég tel að við afgreiðslu vegáætlunar næstu tveggja ára a. m. k. verði í raun og veru að draga úr þeim Austur- og Norðurlandsáætlunum sem í gangi eru. Það er ekki hægt að komast fram hjá þeim á þessum árum og verður að taka tillit til þeirra við skiptingu á þeim fjárveitingum sem við höfum nú til vegaframkvæmda, þó að þær séu, eins og ég hef áður sagt, allt of litlar. Það verður ekki hjá því komist að afgreiða málin á þennan hátt í þessari vegáætlun, a. m. k. á næstu tveim til þrem árum.

Um útgjaldahlið þáltill. vil ég hins vegar segja það, að á árinu 1976 fóru 9.3% af heildarútgjöldum til vegamála til viðhalds, en á árinu 1977 er gert ráð fyrir að það verði 36.5% og á árinu 1978 38.8%. Það er því gert ráð fyrir að með þessari vegáætlun verði veruleg stefnubreyting í þá átt að sinna viðhaldinu betur en gert hefur verið. Öllum er nú orðið ljóst að það verður ekki hjá því komist, en um það má segja að þm. hafi verið tregir og er ég þar engin undantekning.

Til framkvæmda við hraðbrautir og þjóðbrautir var í fyrra varið um 86% af þeirri fjárhæð sem fór til nýrra framkvæmda, en nú er hins vegar gert ráð fyrir að 80% fari til stofnbrauta, þeirra greina í þjóðvegakerfinu sem áður voru hraðbrautir og þjóðbrautir, en 20% fari til þjóðbrauta, sem áður voru landsbrautir. Þarna er því dregið úr fjárveitingum til stofnbrauta miðað við hina tvo flokkana, sem áður voru, og hlutur landsbrautanna gerður betri.

Um aðra þætti í skiptingu útgjalda vil ég segja þetta:

Í till. er reiknað með hækkun á vísitölu vega- og brúargerða sem nemur umsömdum hækkunum. Þar til viðbótar er svo reiknað með að það geti orðið 18–20% hækkun frá árinu 1977 til 1978 þegar miðað er við heildarkostnaðinn.

Skrifstofukostnaður og annar kostnaður í liðnum stjórn og undirbúningur hækkar frá fyrri áætlun í samræmi við verðhækkanir, þar sem eingöngu er reiknað með fjölgun um þrjá starfsmenn á áætlunartímabilinu.

Í grg., sem till. fylgir, er mjög ítarleg og sparar mér því útskýringar, sem ég að öðrum kosti hefði orðið að gera, — og henni fylgja góðar töflur sem hv. þm, hafa þegar kynnt sér, að ég geri ráð fyrir, — er gerð ítarleg grein fyrir viðhaldinu. Er það ráðamönnum vegagerðarinnar áhyggjuefni hvað viðhaldið hefur dregist aftur úr. Í þessari till. að vegáætlun er gerð tilraun til þess að snúa þessari þróun við og vinna smátt og smátt upp það sem tapast hefur á undanförnum árum vegna hinnar miklu verðbólgu. Gerð er úttekt á viðhaldsþörfinni í heild og gerð till. um að veitt verði fé til að standa undir um 72% af æskilegu viðhaldi á árinu 1977 og síðan að auka þetta ár frá ári.

Eins og í síðustu vegáætlun er viðhaldinu skipt í þrennt: sumarviðhald, vetrarviðhald og vegmerkingar.

Í þeirri vegáætlun, sem nú er lögð fram, er reiknað með snjóruðningi eftir nýjum snjómokstursreglum, en það hefur lengi staðið til að endurskoða gildandi reglur sem eru frá 1968. Þessar nýju reglur, sem nú hafa verið settar, fela í sér mun meiri þjónustu en áður hefur verið. Fleiri vegir eru mokaðir á kostnað ríkisins og vegir eru mokaðir oftar en áður. Heimild er og í þeim reglum að endurgreiða til sveitarfélaga ef um mjög mikinn snjómokstur er að ræða, en það skal gert eftir umsókn frá viðkomandi sveitarfélagi, og skal endurgreiðslan þó aldrei fara fram úr 50% kostnaðar.

Í kaflanum um fjárframlög til nýrra þjóðvega eru þrír liðir í staðinn fyrir fimm áður. Er þetta í samræmi við nýgerðar breytingar á vegalögum, en skv, þeim er þjóðvegum nú skipt í stofnbrautir og þjóðbrautir. Enn fremur eru landshlutaáætlanir felldar niður í vegáætluninni.

Ég hef nú gert grein fyrir viðhorfum mínum gagnvart meðferð þessara mála við afgreiðslu vegáætlunar að þessu sinni og þarf því ekki að fara frekar út í það. En ég endurtek, að ég tel að innan vegáætlunar þurfi allar fjárveitingar til vegaframkvæmda að vera og skiptast af Alþ. Þau vinnubrögð, sem áður voru við höfð í þessu efni, hafa ekki gefist vel. Þess vegna eiga þau ekki að halda áfram. En umþóttunartímabil, eins og ég talaði um áðan, er eðlilegt í þessu sem öðru.

Ef litið er á þessa liði fá þjóðbrautir hlutfallslega meira en landsbrautir höfðu áður, eins og ég þegar hef greint frá. Til girðinga er fjárveiting sú sama árið 1977 og hún var árið 1976, en hækkar í 60 millj. á næsta ári. Fjárveiting til sýsluvega og vega í kaupstöðum og kauptúnum hækkar verulega, sérstaklega á árunum 1978 og 1979, eins og á hefur verið bent. Hvað sýsluvegina snertir stafar þetta af vegalagabreyt., sem kveður á um að heimaframlag tvöfaldist og ríkisframlag verði 21/2 sinnum það, en það var tvöfalt áður. Einnig hækka gjöld til sýsluvegasjóða af fasteignum utanhéraðsmanna.

Herra forseti. Hér hefur nú verið gerð grein fyrir vegáætlun í höfuðatriðum. Ég hef sýnt fram á hvað hinar mörkuðu tekjur hafa rýrnað frá árinu 1965 til 1976, frá því að vera mestur hluti af vegáætluninni í 60% sem þær eru nú, þar af er bensíngjaldið, sem fer til vegagerðar, 25% af heildarverði bensínsins, en var áður um 50%. Ég hef einnig sýnt fram á það, hvað greiðslur ríkissjóðs eru orðnar mikill hluti af vegáætlun og bæta henni að nokkru upp þá fjárhæð sem ríkissjóður tekur af umferðinni, en þar er söluskatturinn fyrirferðarmestur.

Sú stefnubreyting, sem er gerð í þessari áætlun, er að auka hlut viðhaldsfjár, en því miður verður að gera það á kostnað nýbygginga, og veruleg aukning sýsluvegafjár er gerð vegna mjólkurflutninga eftir að tankvæðingin kom til og akstur skólabarna, sem gerir það að verkum að nauðsyn ber til að þungir og stórir bílar komist heim á hvert heimili að kalla. Ég neita því ekki og tel í raun og veru enga ástæðu til að leyna því, að mjög er þessi till. að vegáætlun fjarri því sem ég hefði kosið hvað fjárhæðir snertir. Hinu má þó ekki gleyma, að þrátt fyrir það að ósk mín væri sú, að fjárveitingar til vegagerðarinnar gætu verið hærri, t. d. eins og þær hafa raunverulega verið hæstar, þá voru á þeim árum, sem sérstaklega skera sig úr og standa árunum 1977 og 1978 framar, verið að framkvæma stór verkefni, eins og ég hef þegar skýrt, og teknar sérstakar fjárhæðir til þessara stóru verkefna, eins og Skeiðarársands, og lán Alþjóðabankans til hraðbrautanna og Kópavogs, og þá lítur málið öðruvísi út. Þetta er ekki gert nú. Stærsta verkefnið sem nú er unnið að, Borgarfjarðarbrúin, er ekki meðhöndlað með þeim hætti sem áður var gert við stórframkvæmdir þó að þörf væri á því að svo væri gert. Þegar þetta er haft í huga og að greiðslur vaxta og afborgana af lánum vaxa ár frá ári er ljóst að sótt er fram til raunverulegrar aukningar fjárveitinga til vegaframkvæmda í heild með þessari vegáætlun, sérstaklega árið 1978.

Þó að verðhækkun á bensíni og tekjuþörf ríkissjóðs til að mæta þeim gjöldum, sem ákvörðuð eru á fjárlögum 1977, komi í veg fyrir auknar fjárveitingar til vegagerðar, að því er nú verður best séð, þá breytir það ekki því, að þörf fyrir verulegt átak í vegagerð er þjóðarnauðsyn.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr, verði till. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.