22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram er þessi vegáætlun, sem hér er lögð fram, siðbúin eins og var um vegáætlun fyrir s. l. ár. Það virðist nú vera orðinn háttur þessarar hæstv. ríkisstj. að flýta sér ekki allt of mikið að leggja fram till. sínar í mikilsverðum málum, og ef heldur fram sem horfir verður vafasamt að henni endist árið til þess að leggja fram þær till., sem hún á að framkvæma, á því ári sem till. eru miðaðar við. Auðvitað hefur þetta valdið miklum vandkvæðum fyrir þá sem eiga að undirbúa framkvæmdir varðandi vegagerð. Starfsmenn Vegagerðar ríkisins hafa raunar til þessa lítið sem ekkert vitað eftir hverju fara eigi. Það getur að sjálfsögðu orðið til tafar við undirbúning framkvæmda og framkvæmdir á þessu sumri og verður örugglega til mikilla erfiðleika.

Það má vera að afsökun fyrir því, hve þessi vegáætlun er síðbúin, sé sú, að gerðar voru á þessu þingi breytingar á vegalögum sem vegáætlun verður að sjálfsögðu að taka mið af. Þó er rétt að benda á að sú afsökun á ekki stoð í raunveraleikanum, vegna þess að fulltrúar allra stjórnmálaflokka voru í þeirri n. sem vann að till. um breyt. á vegalögum. Þessir nm. gáfu sér mjög góðan tíma við samningu frv. sem afgreitt var á þinginu í vetur, höfðu m. a. samið við þingflokka sína svo og einstaka þingmannahópa um þær breytingar sem gerðar voru. Mátti því ætla að breytingar þessar gengju greiðlega fyrir sig hér í þinginu, enda varð raunin sú. Þess vegna var ekkert því til fyrirstöðu að hægt væri að vinna að vegáætlun þegar að endurskoðun vegalaga lokinni, sem var á s. l. hausti, og jafnvel að vinna að vegáætlun jafnhliða því að n. vann sitt starf, enda áttu vegamálastjóri og fulltrúar Vegagerðar ríkisins sæti í þessari nefnd.

Breytingin, sem gerð var á vegalögum í vetur, mun ekki hafa valdið því hversu vegáætlunin er seint fram komin. Ástæðan fyrir drættinum mun hafa verið sú, að ríkisstj. horfði fram á óleystan fjárhagsvanda í vegamálum, hvernig fjármagna ætti vegaframkvæmdir í ár og á næstu árum. Og í þessari vegáætlun er sá vandi ekki leystur. Hæstv. ríkisstj. hefur gefist upp við að leysa þennan vanda eins og flest önnur vandamál sem að henni hafa steðjað. Í sumum tilvikum er jafnvel um að ræða lægri fjárhæðir til framkvæmda í vegamálum samkv. till að þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir til vegaframkvæmda á yfirstandandi ári, heldur en unnið var eftir á s. l. ári, þrátt fyrir a. m. k. 25% hækkun framkvæmdarkostnaðar milli ára. Því er um að ræða að hér er um beinan niðurskurð, beinan samdrátt að ræða, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að.

Eins og áður var sagt, er hér um að ræða fyrstu vegáætlun sem gerð er eftir gildistöku nýrra vegalaga sem höfðu m. a. í för með sér nýja flokkun ljóðvega. Þessi breyting, sem fullt samkomulag var um t vegalaganefnd og afgreidd var hér á þinginu í vetur, var óhjákvæmileg og réttmæt, m. a. til þess að leystur yrði vandi ýmissa vegkafla milli kjördæma sem sniðgengnir höfðu verið í framkvæmd samkv. fyrri flokkun vegalaga. En þótt ýmislegt mælti með því að sú ákveðna breyting væri gerð á vegalögunum sem gerð var, og full samstaða ríkti um það í þeirri n. sem þá endurskoðun vann, ber þó ýmislegt að athuga og varast í sambandi við framkvæmd mála. Með gerð vegáætlunar nú er lagt fordæmi að gerð slíkra áætlana til framtíðar samkv. hinum nýju vegalögum, og er mikið undir því komið að vel sé að því verki staðið, þannig að tilgangur hinna nýju laga spillist ekki í framkvæmdinni. Í því sambandi vil ég sérstaklega minnast á samgöngumál sem unnin eru varðandi gerð sérstakra landshluta- eða byggðaáætlana. Eins og vegalögin eru nú eftir breytinguna frá í vetur falla framkvæmdir og röðun verkefna, sem unnin eru samkv. þessum sérstöku landshlutaáætlunum og oft er útvegað fé til með sérstökum fjáröflunum, innan ramma vegáætlunar, þannig að fjvn. og Alþ. eiga að fjalla um þessar sérstöku framkvæmdir jafnhliða öðrum við gerð vegáætlunar svo að allar framkvæmdir í vegamálum séu innan eins og sama ramma, en ekki unnar sitt af hvorum aðila. Um þetta var full samstaða í vegalaganefnd og hér á þingi. Hins vegar tel ég ástæðu til þess að geta þess hér og nú, einkum og sér í lagi með tilliti til framkvæmda á lögum við gerð vegáætlunar, að einnig var um það full samstaða í vegalaganefnd milli allra nm., þm., vegamálastjóra og formanns n., sem var ráðuneytisstjórinn í samgrn., hvernig bæri að túlka þetta ákvæði, hvernig standa ætti að framkvæmdum í málunum. Sú túlkun var m. a. á þá lund, að væri aflað fjár með sérstökum hætti til slíkra áætlunarverkefna ætti að koma fram í vegáætlun og við afgreiðslu hennar hvert það fé væri og í hvaða skyni þess væri aflað, og hliðsjón yrði svo af því höfð, bæði hvað varðar framkvæmdir í vegamálum í viðkomandi landshlutum og við gerð vegáætlunar eða við vegaframkvæmdir í landinu í heild.

Eins og áætlun er nú úr garði gerð, sakna ég þess að fram komi í henni hvert tillit hefur verið tekið til vegaframkvæmda samkv. sérstökum landshlutaáætlunum, og þó enn frekar sakna ég þess að ekki er tekið fram í áætluninni sérstaklega hvert er það fé sem sérstaklega er aflað með fjáröflunum í ákveðnu augnamiði. Í fyrri vegáætlun kom þetta fram með tvennum hætti: Í fyrsta lagi teknamegin í yfirliti yfir sérstakar fjáraflanir til vegamála, sem skipt var annars vegar í almennar lánsfjáraflanir og hins vegar í sérstakar lánsfjáraflanir, þ. e. a. s. lánsfjáraflanir með sérstökum hætti til sérstakra verkefna. Hins vegar kom þetta fram í útgjaldahlið vegáætlunar í liðnum til nýrra þjóðvega, þar sem fram kom hvernig fé væri varið til einstakra og sérstakra áætlunarverkefna, svo sem eins og á vegáætlun fyrir s. l. ár til Austurlandsáætlunar, til Norðurlandsáætlunar, til Djúpvegar og til Norður- og Austurvegar. Samkv. núv. fyrirkomulagi samkv. nýsamþykktum lögum á ekki lengur að taka fram slíkar skiptingar sérstaklega gjaldamegin, þar sem ekki er lengur um að ræða sérverkefni utan ramma almennrar vegáætlunar, eins og áður var. En mér finnst nauðsynlegt og sjálfsagt að taka fram teknamegin í áætluninni ef um er að ræða sérstakar fjáraflanir til ákveðinna vegaframkvæmda og þá ekki hvað síst ei' um er að ræða fjáraflanir sem ákveðnar eru með sérstökum lögum. Þannig sakna ég þess, að ekki skuli getið í yfirlitinu teknamegin, þar sem fjallað er um sérstaka fjáröflun að andvirði 1600 millj. kr., hversu mikill hluti þessarar sérstöku fjáröflunar er fenginn með sölu happdrættisskuldabréfa samkv. lögum um Norður- og Austurveg og hve mikill hluti með öðrum hætti, þeim hætti sem áður var nefndur almenn lánsfjáröflun. Hæstv. ráðh. hefur nú greint frá því, að af þessum 1600 millj. kr., sem afla á með sérstakri lánsfjáröflun, séu um 1000 millj, kr. sem eigi að koma með sölu skuldabréfa í anda laga um Norður- og Austurveg, en þetta verður að sjálfsögðu að koma fram teknamegin í áætluninni sjálfri. Vil ég beina því til fjvn. að hún breyti þessari till. í þá veru, þannig að annars vegar komi í sérstökum fjáröflunum almenn lánsfjáröflun og svo í sérstökum lið fjáröflun til Norður- og Austurvegar samkv. sérstökum lögum þar um.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni að af þessum 1600 millj. kr. eigi að afla 1000 millj. með sölu happdrættisskuldabréfa samkv. lögum um Norður- og Austurveg. Ég vil í því sambandi vekja athygli hv. þm. á því, að þarna er um að ræða að tvöfalda á einu ári þá fjáröflun sem ráð var fyrir gert að verja til framkvæmda við Norður- og Austurveg. Ráð var fyrir því gert í lögum um Norður- og Austurveg að um það bil 500 millj. kr. færu árlega samkv. þeim lögum til framkvæmdanna við þennan veg. Það fer ekki hjá því í þessu sambandi, að sú grunsemd læðist að manni, enda hefur hæstv. ráðh. staðfest það, að það sé með ráðum gert, að þessu sé svona hagað, og ástæðan sé m. a. sú, að með því að tvöfalda sölu happdrættisskuldabréfanna samkv. lögum um Norður- og Austurveg frá því, sem ráðgert var, sé verið að afla fjár til brúargerðarinnar yfir Borgarfjörð, því að svo undarlega vill til að það fé, sem þarf til þess að kosta ráðgerðar framkvæmdir við Borgarfjarðarbrúna á þessu ári, er því sem næst sú hin sama fjárhæð og áætluð sala happdrættisskuldabréfanna vegna Norður- og Austurvegar er látin hækka um. Sé þetta svo, eins og hæstv. ráðh. hefur raunar þegar upplýst, þá tel ég nauðsynlegt í fyrsta lagi að taka slíkt fram í vegáætlun, svo það sé ljóst, og í öðru lagi vil ég að hæstv. ráðh. gefi um það yfirlýsingu hér á Alþingi, hvort það sé ætlan hans að tekjurnar af sölu happdrættisskuldabréfanna vegna Norður- og Austurvegar verði látnar til þess að kosta framkvæmdir við Borgarfjarðarbrúna eða hvort ráð sé fyrir því gert að veita af tekjum vegna sölu happdrættisskuldabréfanna bráðabirgðalán til Borgarfjarðarbrúarinnar sem síðan yrði endurgreitt aftur til framkvæmda við Norður- og Austurveg. Ég efast mjög um að það sé heimilt að taka tekjurnar samkv. sölu þessara happdrættisskuldabréfa til þess að kosta brúargerðina yfir Borgarfjörð. A. m. k. veit ég ekki betur en þeir þm., sem beittu sér fyrir flutningi frv. um Norður- og Austurveg, standi í þeirri trú að þetta sé ekki unnt að gera og ef það verður tekið af þessu fjármagni til brúargerðarinnar yfir Borgarfjörð, þá geti þar aðeins verið um að ræða lán sem ætti að koma til endurgreiðslu síðar. Um þetta held ég að ég verði að biðja hæstv. ráðh. að upplýsa okkur hér, svo að það fari ekki á milli mála.

Í þessu sambandi og í beinu framhaldi af því, sem ég hef hér sagt, vil ég vekja athygli á að allar slíkar sérstakar fjáraflanir til einstakra verkefna, sem fengnar eru t. d. með sölu happdrættisskuldabréfa þar sem kaupendur eru látnir standa í þeirri trú að með því að kaupa slík bréf séu þeir að flýta fyrir ákveðinni vegagerð umfram það sem ella yrði, eiga auðvitað að miðast við það að þessi ákveðnu verk séu unnin eins og til stendur, og slík fjáröflun á að koma til viðbótar við aðrar tekjur Vegasjóðs, en ber ekki að skoðast sem almennar tekjur sem Vegasjóður fær í stað annarra ráðstafana sem gera ætti. Þannig er hins vegar ekki haldið á málum í þessari vegáætlun. Þessar sérstöku lánsfjáraflanir hafa í æ ríkara mæli verið skoðaðar sem almennt vegafé er komið gæti í staðinn fyrir ráðstafanir til þess að tryggja Vegasjóði almennt auknar tekjur. Út í þetta er enn frekar farið að þessu sinni, eins og sjá má af því, að tekjur Vegasjóðs árið 1977 mundu ekki nema meira en 4650 millj. kr. af almennri fjáröflun, þ. e. a. s. ef undan væri skilin sérstök lánsfjáröflun sem ætti að vera viðbótarfjáröflun með sölu happdrættisskuldabréfanna samkv. lögum um Norður og Austurveg. Þannig hafa almennar tekjur Vegasjóðs að mestu staðið í stað milli ára. Hin óverulega hækkun, sem nú er, er öll til komin fyrir tilstilli sérstakra viðbótarfjáraflana til sérstakra verkefna sem auðvitað áttu að vera viðbótarframkvæmdafé umfram almennt framkvæmdafé.

Tekjumál Vegasjóðs eru því komin í ógöngur, því að fastar tekjur hans ásamt ríkisframlaginu, eins og það er fram sett í vegáætlun, minnka í rauninni um það bil um 1/3 frá því í fyrra. M. ö. o.: ef ekkert annað kæmi til, engin sérstök fjáröflun með sölu happdrættisskuldabréfa, mundu almennar tekjur Vegasjóðs tákna samdrátt í vegaframkvæmdum milli ára um a. m. k. 1/3 hluta. Hinar sérstöku viðbótartekjur, sem aflað er með sölu happdrættisskuldabréfa, gegna því ekki lengur því hlutverki að vera viðbótarframkvæmdafé, heldur er hér aðeins um að ræða tilraun til þess að halda í horfinu um almennar tekjur Vegasjóðs og dugir það þó hvergi nærri til að svo geti orðið.

Ef skoðaðir eru enn betur hinir einstöku framkvæmdaliðir í skiptingu útgjalda í þeirri vegáætlun, sem hér er til umr., kemur þetta enn betur í ljós, en af því verður ekki annað séð en hin sérstaka lánsfjáröflun til nýbyggingar vega á árinu, þ. e. a. s. þessar 1000 millj. kr. sem afla á með sölu happdrættisskuldabréfa, fari einmitt ekki til þeirra framkvæmda sem til er ætlast, heldur til greiðslu óhjákvæmilegs kostnaðarauka, til að greiða verðbólgukostnað við stjórn og undirbúning og viðhald þjóðvega. Þannig hækkar skrifstofu- og stjórnunarkostnaður um 130 millj. kr. frá fyrra ári, viðhaldskostnaður um 683 millj. kr. frá fyrra ári, eða samtals um 813 millj. kr. á ári, á sama tíma og framkvæmdakostnaður er lækkaður samkv. till. þessari um 14 millj. kr. á ári þrátt fyrir öflun hins sérstaka lánsfjár samkv. lögum um Norður- og Austurveg. Sú sérstaka fjáröflun er því ekki til að auka framkvæmdir við Norður- og Austurveg, ekki einu sinni til þess að auka almennt framkvæmdafé í vegamálum á Íslandi, heldur til þess eins að standa undir verðbólgukostnaði, og eru menn þá komnir talsvert langan veg frá tilgangi hinna sérstöku laga um sölu happdrættisskuldabréfa til frekari framkvæmda við Norður- og Austurveg.

Þessi samdráttur, sem orðið hefur í valdatíð núv. hæstv, ríkisstj., kemur glöggt fram, ef litið er á nokkrar samanburðartölur um framkvæmdafé. Ég hef leitað upplýsinga frá Þjóðhagsstofnuninni um hvernig reikna beri framkvæmdakostnað við vegagerð til þess að fá samanburð milli ára í jafnvirðiskrónum. Eins og raunar, kemur fram í grg. með þessari till. ætti að margfalda framkvæmdafé, þ. e. a. s. fé til nýrrar vegagerðar, frá árinu í fyrra með 1.25 til þess að fá út þá upphæð sem veita þyrfti til þeirra mála í ár, miðað við að framkvæmdastigi væri haldið óbreyttu. Ef þetta er gert kemur í ljós, að til að halda óbreyttri framkvæmdagetu við gerð nýrra þjóðvega á árinu 1977 miðað við árið 1976 þyrfti að verja til nýrra þjóðvega 2843 millj. kr. Samkv. vegáætlun er hins vegar gert ráð fyrir lækkun frá áætluninni frá í fyrra þannig að framlög til nýrra þjóðvega verða aðeins 2260 millj. kr. Vantar því hvorki meira né minna en um 600 millj. kr. upp á að framkvæmdastig frá árinu í fyrra sé óbreytt miðað við árið í ár. Þetta vantar upp á hið almenna framkvæmdafé til nýbyggingar þjóðvega, þrátt fyrir það að nú eigi að taka tvöfaldan ráðgerðan skatt af sölu happdrættisskuldabréfanna vegna Norður- og Austurvegar.

Ég hef gert það nokkrum sinnum áður að miða við ástandið eins og það var árið 1972, fjárveitingar og ráðstafanir sem gerðar voru af ríkisstj. sem a. m. k. forustuflokkur núv. hæstv. ríkisstj. taldi einhverja verstu ríkisstj. sem setið hefur að völdum á Íslandi, og skal ég ekki draga það í efa þó að fljótt hafi það met verið slegið. Samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar þyrfti að margfalda framlög til nýbyggingar vega árið 1972 með 5 til þess að fá út samanburð á framkvæmdastigi nú og þá. Framlög þá, á verðlagi ársins 1972, til nýrra þjóðvega námu 1119 millj. kr. eða á verðlagi yfirstandandi árs ígildi 5595 millj. kr. Samkv. þessari þáltill. á hins vegar aðeins að verja 2260 millj. kr. til nýrra þjóðvega. Til þess að halda framkvæmdastigi ársins 1972 óbreyttu vantar því hvorki meira né minna en 3335 millj. kr. upp á að sama framkvæmdastig haldist árið 1977 og var árið 1972. Svo mikið hafa þessi mál dregist aftur úr á ekki lengri tíma en liðinn er. Framkvæmdagetan nú er langt innan við helming framkvæmdagetunnar í vegamálum eins og hún var fyrir 5 árum.

Þá vil ég enn fremur benda á að á bls. 19 í yfirliti um fjáröflun til vegamála kemur m. a. fram spá um innflutning bifreiða á árunum 1977–1980. Þar kemur m. a. fram að á árinu 1977 verði aðeins fluttar 4400 nýjar bifreiðar til landsins og hækki sú tala upp í 6100 bifreiðar árið 1980. Þó kemur fram í aths. að miðað við bifreiðaeign landsmanna þyrfti að flytja árlega inn a. m. k. 8000 bifreiðar til þess að standa undir eðlilegri endurnýjun. Það þyrfti sem sé til þess að standa undir eðlilegri endurnýjun bifreiðaflota landsmanna að flytja inn tvöfalt fleiri bifreiðar á ári heldur en spá sú gerir ráð fyrir sem lögð er til grundvallar við tekjuáætlun Vegasjóðs.

Nú segir það sig að sjálfsögðu sjálft og þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hversu dýrt það er til lengdar fyrir þjóðarbúið að geta ekki haldið eðlilegri endurnýjun bifreiðaflotans. Hvert heimili og hver einstaklingur, sem á bifreið, getur ekki varið nema hluta tekna sinna til rekstrar í bifreiðinni. Það má e. t. v. segja að það skipti ekki meginmáli hvernig bifreiðaeigandi ráðstafar þeim hluta tekna sinna sem hann getur varið til þessara mála. En eftir því sem bifreiðaflotinn eldist og gengur meira úr sér, eftir því fer stærri hluti af þessu fé, sem bifreiðaeigendur hafa til ráðstöfunar, til þess eins að greiða viðgerðarkostnað, kaupa varahluti og annað slíkt sem til þarf til þess að halda gömlu bílunum við, en sífellt minni hluti af þessum tekjum, sem til ráðstöfunar eru, fer þá t. d. eða getur farið til kaupa á bensíni sem bæði ríkissjóður og Vegasjóður hafa tekjur af. Þegar verð á bifreiðum er farið að nálgast tveggja ára meðaltekjur venjulegs kvænts verkamanns, þá er orðið um nokkuð breitt bil að ræða. Ég vil benda á það, að þegar orkukreppan skall yfir í Bandaríkjunum, þá dró mjög úr sölu á nýjum bifreiðum. Bílaframleiðendur í Bandaríkjunum hugsuðu þá með sér hvað þeir ættu að gera til þess að reyna að halda tekjum af bifreiðaframleiðslu lítið breyttum, jafnvel þótt dregið hefði úr sölu nýrra bifreiða. Sú ákvörðun, sem þeir tóku, var að lækka talsvert mikið verð nýrra bifreiða til þess að ýta undir sölu þeirra, en hækka á móti verðið á varahlutum og annarri þjónustu sem veitt var. Út úr þessu dæmi töldu þeir sig fá nokkuð hagstæðari útkomu en með því að halda bifreiðaverðinu óbreyttu og varahlutaverðinu óbreyttu. Ég held að hér sé um mál að ræða sem ætti mjög grandgæfilega að skoða hér á Íslandi, hvort það sé ekki bæði þjóðhagslega hagkvæmara fyrir tekjuöflun Vegasjóðs og hagkvæmara fyrir einstaklingana í landinu að lækka verð á nýjum bifreiðum mjög verulega og ýta þannig undir eðlilega endurnýjun á bifreiðaflotanum, en hækka í staðinn t. d. verð á bensíni með það að marki að reyna að útvega ríkissjóði frekari tekjur þeim megin frá í staðinn fyrir þær tekjur sem ríkissjóður mundi e. t. v. tapa með því að lækka verðið á bifreiðum til landsmanna. Þessi hugmynd hefur áður komið fram hér í þingsölum frá hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni. Þá voru höfð af hálfu formælanda ríkisstj. ýmis fögur orð um þessar hugmyndir. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið kannað neitt nánar. En ég vil gjarnan grennslast eftir því hjá hæstv. samgrh. hvert viðhorf hans sé til slíkra hugmynda, hvort það hafi verið kannað að hans tilhlutan hver áhrif slík breyting mundi hafa á tekjur ríkissjóðs og á tekjur Vegasjóðs.

Ef litið er aftur á vegáætlunina sjálfa og frá aths. og grg., sem henni fylgja, þá er mjög athyglisvert að skoða tekjur Vegasjóðs sem hlutfall af ríkistekjunum allt frá árinu 1972 til ársins 1977. Árið 1972 voru markaðar tekjur Vegasjóðs að frádregnu sérstöku ríkisframlagi og að sjálfsögðu að frádregnum sérstökum lánsfjáröflunum alls 5.43% af ríkistekjunum það ár. Sambærileg tala fyrir árið 1977, þ. e. a s. markaðar tekjur Vegasjóðs að frádregnu ríkisframlagi og sérstökum fjáröflunum, er hins vegar ekki nema 3.63% af ríkistekjum og hefur lækkað í hlutfalli af ríkistekjum um hvorki meira né minna en 2 prósentustig. Framlag ríkissjóðs til Vegasjóðs árið 1972 nam 200 millj. kr. eða 1.18% af tekjum ríkissjóðs það ár. Ríkisframlagið 1977 nemur hins vegar 779 millj. kr. eða 0.86% af ríkistekjunum það ár. Tekjur Vegasjóðs, væru þær enn óbreytt hlutfall ríkistekna eins og var á árinu 1972, ættu í ár a$ vera 4887 millj. kr. og framlag ríkissjóðs 1056 millj. kr. eða alls markaðir tekjustofnar og ríkissjóðsframlag 5943 millj. kr.

Öllu betri dæmi er ekki hægt að finna um hversu óskaplega illa og raunar ekkert hefur gengið að leysa tekjuvandræði Vegasjóðs og þá lausn hefur hæstv. ríkisstj. ekki fundið enn. Ég á ekki von á því, að fjvn. muni geta fundið þá lausn á þessum málum sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki fundið. En ég vil leggja áherslu á það, að jafnvel þótt þessi till., sem hér liggur fyrir, verði afgreidd og samþykkt með einhverjum breytingum hér á hinu háa Alþ., þá er ómögulegt að líta á það öðrum augum heldur en hér sé um hreina bráðabirgðaráðstöfun að ræða, einfaldlega vegna þess að ég held að allir þm. og þá ekki síður hæstv. ráðh. séu sammála um það, að það þarf að leita nýrra leiða til þess að afla Vegasjóði viðbótartekna umfram þá tekjustofna sem Vegasjóður hefur í dag og hafa ekki reynst honum haldbærari en svo, að hlutfall tekna Vegasjóðs af ríkistekjum hefur stöðugt farið minnkandi ár frá ári að undanförnu og vegaframkvæmdir dregist saman að sama skapi.