22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það hefur áður verið á það bent, hversu síðborið plagg hér er á ferðinni, jafnvel svo að menn örvæntu um að það sæi dagsins ljós, hversu svo sem það kann nú að þola birtuna. Ég ætla ekki að rekja vanefndir, síendurteknar frá því í fyrra, sem orðið hafa hér, þær eru of kunnar til þess. Það var um tíma borið við endurskoðun á vegalögum. Það held ég að sé óhætt að segja að hafi verið hreinn fyrirsláttur, ekki síst í ljósi þeirrar viðurstöðu sem þar fékkst og kom að lokum sem málamiðlun frá ráðh. og hans mönnum. Það var hins vegar ekki laust við að menn væru þó með þá von, að þessi langi meðgöngutími bæri ríkulegan og fagran ávöxt í fyllingu tímans, og vildu raunar afsaka biðina með því. Og ég skal játa að ég var einn í þeirra hópi. En á engan veg hefur afkvæmið fegrast, nema síður væri, og ég er viss um að síðbúin fæðing þess vekur fáum fögnuð, þó að enn sé e. t. v. einhver von um að einhverju megi til betri vegar þoka í þessum efnum.

Það þarf ekki að ræða lengi um þýðingu þessa þáttar í þjóðlífinu og þá ekki hvað síst úti um hinar dreifðu byggðir. Um það efni allt hefur svo ítarlega umr. orðið í vetur að engu er þörf þar við að bæta. En það er ekki að ástæðulausu sem íbúar landsbyggðarinnar spyrja meira um þessa þáltill., en allar aðrar samanlagt. Samskipti manna á meðal, þjónusta hvers konar, atvinnumöguleikar, menntamál sveitanna og margt fleira veldur því, að hér er um eitt stærsta og þýðingarmesta byggðamálið að ræða, sem tekið er til umr. á Alþ., og betur er með afgreiðslunni fylgst en flestum öðrum þingmálum, svo nátengd eru þessi mál lífi og högum fólksins, svo miklum sköpum geta þau valdið á hvorn veginn sem er, til ills eða góðs.

Í vegamálum á hver ríkisstj. sitt gullnasta tækifæri til að sýna af eða á um alvöru sína í stefnumörkun og framkvæmd allri í svokölluðum byggðamálum, og það væri synd að segja að það hefði þessi ríkisstj. ekki gert rækilega. Andhverfa réttrar byggðastefnu hefur sennilega hvergi birst í skýrara ljósi, og er þá mikið sagt, því að afrekaskráin er ærin. Síminnkandi vegaframkvæmdir ár eftir ár segja sína sögu. Till. sú, sem hér var til umr. fyrir skömmu um sérstakan forgang á uppbyggingu vega í snjóahéruðum, er fyrst og fremst veikburða tilraun til þess að breiða yfir þá raunverulegu stefnu sem ríkt hefur í valdatíð þessarar ríkisstj. og hefur svo sannarlega birst í öllu öðru frekar en forgangi þessa verkefnis. Síminnkandi hluti vegafjárins í þennan þátt, í það að gera lélega vegi landsbyggðarinnar sæmilega akfæra, hefur verið einkenni og aðalsmerki undangenginna vegáætlana, á meðan stöðugt hærri hundraðshluti hefur runnið til hraðbrautanna út frá Reykjavík. Ég veit að engum er þetta í raun ljósara en stjórnarþm. landsbyggðarinnar, því að ekkert hafa þeir verið gagnrýndir eins harðlega fyrir og einmitt það að hafa samþykkt og lagt fulla blessun sína yfir hraðminnkandi hlut landsbyggðarveganna í síðustu vegáætlun. Sérkapítuli er svo það, hve framkvæmdagildið hefur rýrnað í heild, hve illa hefur verið að því staðið að tryggja a. m. k. það, að heildarframkvæmdirnar yrðu svipaðar að raungildi og áður var. Um það ber síðasta ár gleggst og órækast vitni. Og hér er um áframhald að ræða, eins og þegar hefur verið að vikið hér, enn stórkostlegra en menn áttu von á, því að upphæðin til nýbygginga er lækkuð að krónutölu og framkvæmdagildi þannig stórlækkað vegna mikilla verðlagshækkana milli ára.

Það mun staðreynd, eins og hér hefur þegar komið fram, að vegna þessarar stefnu muni framkvæmdir í vegagerð, þ. e. nýbyggingum, minnka um yfir 25%a minnst, og þó segir það ekki alla sögu, ef til einnar stórframkvæmdar á að verja um 1/4 eða 1/5 af öllu framkvæmdafénu, eins og raddir hafa heyrst um, enda munu vegagerðarmenn sammála um það, að verði hér engin leiðrétting á gerð til verulegrar hækkunar, þá sé augljóst að segja verði upp verkstjórum, sem hafa verið að sumarlagi, vegna algers verkefnaleysis og þar með fækka vinnuhópum í vegagerð í sumar með þeim alvarlegu afleiðingum sem það mun hafa mjög víða, einkum fyrir skólafólk, sem oft hefur þarna fengið kærkomna sumarvinnu. Enn skal því ekki trúað að eftir síðasta ár mikils samdráttar í nýbyggingum sé nú ætlunin að rýra framkvæmdir en allt að þriðjungi jafnvel, ef allt er reiknað þar inn í, ofan á þá raunverulegu miklu rýrnun sem sannarlega varð á síðasta ári. Enn skal ekki fullyrt um það heldur, hve hart það kemur við landsbyggðarvegina, hvort ótti okkar, sem í vegalaganefnd vorum frá landsbyggðinni úr stjórnarandstöðunni, hefur verið á rökum reistur og málamiðlunin, sem þar varð ofan á, hefur aðeins verið til þess að ryðja þeirri stefnu til rúms bakdyramegin, sem opinskátt var talað fyrir í upphafi og ég vík e. t. v. að síðar.

Þegar litið er á tölur og uppsetningu þessa plaggs, þá vakna a. m. k. upp ýmsar spurningar og ákveðnar grunsemdir sem engin leið er að segja fyrir um fyrr en í starfinu í fjvn. að uppskiptingu þessa fjármagns til einstakra verkþátta. Þessi vegáætlun er sú fyrsta eftir endurskoðun vegalaganna sem hefur verið oftlega vikið að fyrr í þessum umr. Ég átti þátt í henni. Þó að um margt væri ég ósáttur um þá niðurstöðu sem þar fékkst, þá var hér í mörgu um málamiðlun að ræða og besti viðunandi kosturinn þó. Ég sætti mig alveg sérstaklega betur við þessa málamiðlun af þeirri einföldu ástæðu, að þær hugmyndir og sú gerbreyting, sem uppi voru á tímabili í vegalaganefnd, voru ótvírætt neikvæðari og óhagstæðari landsbyggðinni í alla staði, að ég taldi að þar sem lengst var gengið, ef þar hefur verið alvara á bak við, væri blátt áfram verið að festa hraðbrautarstefnuna í sessi sem einu stefnuna er fara bæri eftir í vegamálum næstu ára. Hins vegar kemur ýmislegt nú nokkuð á óvart miðað við umr. í n. og yfirlýsingar þar. Ég hef heyrt að því vikið, bæði í umr. hér um þessar breytingar á vegalögunum og eins núna við þessar umr., að menn virðast ekki hafa lesið 1. gr. frv. nægilega vel varðandi landshlutaáætlanirnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sé veitt fé til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í till. til þál. um vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma vegáætlunarinnar á sama hátt og að framan getur“

Það er að vísu rétt, að álit sumra er að með þessu séu áætlanir sem þessar felldar niður með öllu. Hér tel ég að sé um algerlega ranga túlkun að ræða, ef því er haldið fram. Ég tel að landshlutaáætlanirnar séu einmitt staðfestar með þessu, lögin séu að staðfesta réttmæti þessara landshlutaáætlana, að þær eigi rétt á sér, þær fari aðeins inn í vegáætlunina, þær fari inn í þennan heildarramma. Túlkunin fer auðvitað líka eftir ákvörðun stjórnvalda hverju sinni, hvað stjórnvöld vilja gera í sérstakri uppbyggingu í landshlutaáætlunum eða til einhverra annarra stórframkvæmda. Hér er auðvitað spurning um það, hvort stjórnvöld hafa með þessu tekið ákvörðun um að engar landshlutaáætlanir skuli vera í gildi á næstu tveimur árum. Ég vil ekki trúa því. Ég vil alveg sérstaklega ekki trúa því varðandi Austurlandsáætlunina sem nú er felld beint inn í stofnbrautaflokkinn, óskilgreind með öllu og að því er virðist með túlkun á einmitt þessu ákvæði, sem ég var að lesa hér áðan, gagnstætt því sem ég hef talið að ætti að gera. Hið sama á að vísu við um aðrar áætlanir, svo sem Norðurlandsáætlun. En þó er Austurlandsáætlunin sérstök að því leyti, að þar er um bindandi verkefni að ræða sem um var gert ótvírætt skriflegt samkomulag milli stjórnvalda og þm. Austurlands um fjárhæðir og þá miðað að sjálfsögðu við þágildandi verðlag, en til þess að ljúka við tiltekin verkefni, vera fullnægjandi til þess. Þó að þar hafi mjög sigið á ógæfuhlið með efndir, þá held ég að það hafi engum dottið í hug, og allra síst skal ég trúa því á hæstv. samgrh., að honum hafi dottið í hug að rifta þessu bindandi samkomulagi. Og vonandi dettur engum það í hug enn og ekki heldur að rýra eigi hlut Austurlands vegna þessa átaks sem verða átti til þess að bæta nokkuð úr hörmulegu ásigkomulagi austfirskra vega.

Þegar um þetta var rætt í vegalaganefndinni, þá fór víðs fjarri að þessi löngu gerða og ákveðna áætlun kæmi inn í þessa heildarmynd samkv. lagabreytingunni, enda kemur hún að mínu viti ekki þessari lagabreytingu á nokkurn hátt við. Hún er miklu fremur staðfest í lögunum heldur en að henni sé kippt þar í burtu. Sá var minn skilningur a. m. k., að þessi áætlun hlyti í einu og öllu að standa áfram, og ég hlýt að lýsa furðu minni á því, ef þessi áætlun á ekki að halda sér sem sjálfstæður þáttur í vegáætlun. Ég hlýt auðvitað að tryggja það eftir getu minni í fjvn. að hún verði þar sér á parti og á engan hátt okkur til refsingar og frádráttar við úthlutun vegafjár að öðru leyti. En ég hef ekki viljað trúa því og endurtek það hér, að þessi 7 ára gamla áætlun, margstaðfest hér í vegáætlunum á Alþ. og með bindandi samkomulagi stjórnvalda og þm., verði nú að engu gerð. Lok hennar nú í ár og helst þegar á næsta ári hlutu að hafa forgang miðað við það að henni átti að vera fulllokið 1975. Á þetta verður a. m. k. að reyna, og ég hlýt nú við 1. umr. að fara ákveðið fram á yfirlýsingu hæstv. samgrh. um það, að Austurlandsáætlun haldi sínu fulla gildi í vegáætlun nú og framvegis, þar til öllum umsömdum verkþáttum er lokið, einnig skýlausa yfirlýsingu um það, að lúkning þessara verkefna, sem stjórnvöld sömdu um á sínum tíma, skerði heldur á engan hátt hlut Austurlands annars í vegafé. Ef hér á að fara aðrar leiðir, þá tel ég allar yfirlýsingar áður í vegalaganefndinni markleysu eina, og á það vil ég ekki trúa.

Þegar hraðbrautirnar og gömlu þjóðbrautirnar voru felldar í einn flokk, þá taldi ég það jákvætt að því leyti, að í þá stóru upphæð, sem til stofnvega rynni, gætum við austfirðingar sótt stærri hlut en við höfðum áður gert sakir þess að við höfum verið utan við hraðbrautadæmið, ekki verið á blaði sem sagt í úthlutun yfir 50% vegafjárins, eins og var í síðustu vegáætlun. Nú reynir hér á í fyrsta sinn. Nú reynir á áhrif tillögumannanna um uppbyggingu vega í snjóþungum héruðum gagnvart þeim hluta þeirra, sem til stofnvega teljast, og yfirlýsta stefnu ráðh., að ég best vissi, að með breytingum á vegalögunum væri m. a. og kannske alveg sérstaklega verið að vinna að því að samgöngur milli landshluta yrðu sem bestar og greiðastar, með alhliða áherslu á hinn svokallaða hringveg, að gera hann fyrst allan vel ökufæran. Nú kemur það og í ljós hvernig framkvæma eigi skiptingu vegafjárins til hinna raunveralegu hraðbrauta, hvort uggur manna, sem hér hefur komið í ljós, bæði í þessum umr. og alveg sérstaklega í umr. um vegalögin, um það hvort orðin í 13. gr. vegalaganna núverandi, að stefnt skuli að bundnu slitlagi miðað við ákveðinn umferðarþunga, hvort þau eigi að hafa forgangsþýðingu innan stofnvegakerfisins, eins og vitanlega kom upp uggur hjá okkur í vegalaganefndinni, eða eins og ég skildi nánustu embættismenn ráðh. í vegalaganefnd, að hér væri einungis komin skilgreining í stað gömlu hraðbrautanna um að hér skyldi að stefnt, svo sem sjálfsagt er að vissu marki, ég tek undir það, en án þess, og á það legg ég skýra áherslu, án þess að þar væri um forgangsverkefni að ræða innan þessa flokks, stofnvegaflokksins. Á þetta verður nú að reyna, og öðru vil ég ekki trúa að óreyndu en okkur hafi þarna verið sagður allur sannleikurinn og þessi túlkun fái staðfestingu í skiptingu vegafjárins. Ég skora a. m. k. á hæstv. samgrh. að sjá svo til, því að að öðrum kosti hefur hér verið um allgrófa mistúlkun að ræða innan þessarar n. Ég vissi hins vegar mætavel um meirihlutafylgi hér á þingi við þessa grein og þó hún hefði verið enn ákveðnari, jafnvel meirihlutafylgi við það að setja þetta verkefni sem forgangsverkefni, því að fyrir því hefur verið mikill áhugi. Því var á þessa grein sæst með þeirri skýru túlkun sem ég tel að verið hafi.

Sama er að segja um núverandi þjóðbrautaflokk. Því var margyfirlýst, að síst af öllu skyldi stofnvegaflokkurinn hafa forgang þar fram yfir og enn síður að þar yrði um einhverja annars flokks vegi að ræða sem meira og minna yrðu vanræktir. Mér sýnist enda fljótt á litið að hér sé við staðið á viðunandi hátt miðað við skiptinguna milli stofnvega og þjóðvega. En þá verður auðvitað að líta á það, hve hörmuleg útkoman er í heildina tekið, og þá er varla hægt að segja að um jákvæða niðurstöðu sé að ræða, þó að óneitanlega hafi hæstv. ráðh. staðið hér við hvað hlutfallstölu snertir.

Um Norður- og Austurveginn hefur verið þegar rætt það mikið, lögin um hann og ótvíræða skyldu þar um, að ég tel að óþarft sé að ræða það frekar. Lagasetningin þar um, fjáröflunin og skiptingin er svo ótvíræð í lögum að þar þarf engu við að bæta. Þar hafa menn það svart á hvítu, og eftir því á vitanlega að fara í einu og öllu eins og eftir öðrum lögum sem við a. m. k hér á þingi eigum að reyna að halda, úr því að við ætlum fólkinu úti í þjóðfélaginu að gera það.

Sá eini ljósi punktur — og er þó kannske ekki mikill geislabaugur þar yfir — sem er í þessari vegáætlun er þó það sem varðar viðhaldsfé, enda löngu viðurkennt að það hefur verið svo harklega vanrækt og vanáætlað til þess, að sums staðar sjást þess tæpast merki, t. d. úti um sveitir í mínu kjördæmi, að um veg hafi verið að ræða, nema þá sem fornminjar. Um þetta eru ýmis alvarleg dæmi, svo að hvergi var hér vanþörf að bæta að nokkru úr, þó hins vegar beri að gæta að því, að framkvæmdagildi þessa þáttar muni í raun hækka allt of lítið, kannske ekki neitt, fyrir sæmilega krónuhækkun. Því veldur fyrst og fremst geysileg vanáætlun síðustu ára og einnig það, að mikil hækkun hefur orðið á þessum lið milli ára.

Við þessa 1. umr. vil ég ekki gera stöðu Vegasjóðs almennt að umræðuefni. Það hefur verið gert af þeim fulltrúa Alþb. í fjvn. sem þar á kann gleggri og betri skil í hvívetna og hefur gert það rækilega hér. Þó skal hvergi úr því dregið, heldur þvert á móti lögð á það áhersla að við alþb.-menn höfum áður við afgreiðslu vegáætlunar í stjórnarandstöðu lýst yfir fullum vilja okkar til þess að leita leiða til aukinnar tekjuöflunar fyrir Vegasjóð, vitandi þá gífurlegu þýðingu sem vegamálin hafa fyrir okkur Það hefur að vísu af okkar hálfu, a. m. k. af minni hálfu, verið því skilyrði háð, að auknu fé yrði varið til vegagerðar þar sem þörfin væri mest, þar sem vegirnir eru lélegastir eða um hreinar vegleysur er að ræða. En niðurskurðar og samdráttarástin hjá ríkisstj. hefur verið meiri en svo, að á þessi tilboð hafi verið hlustað. E. t. v. hafa skilyrðin líka staðið í þessum ágætu hraðbrautaherrum og brúarmeisturum. Allt þetta verður nú að reyna og þá alveg sér í lagi á hvern veg megi gera kleift að halda a. m. k. raungildinu frá í fyrra, þegar þó var þar um 20% lækkun að ræða. Til meira er ekki hægt að ætlast af núv. stjórnvöldum. Væri þó sannarlega gaman að rifja nú upp enn frekar en hv. þm. Geir Gunnarsson gerði, rifja upp frá dögum vinstri stjórnarinnar orð margra sjálfstæðismanna, stór og þung, um lélegan hlut veganna, um allt of lítið fjármagn, þrátt fyrir hvort tveggja þá: mikla hækkun í krónutölu og verulega raungildishækkun. eins og hér hefur þegar verið rakið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum nú. Hér mætti vissulega margt fleira um segja. En það verður umfjöllunin í n. og beinar ákvarðanir stjórnvalda í framhaldi af því og til hliðar það sem auðvitað ráða því, hvernig þessi mál skipast svo á endanum og endanleg afgreiðsla málsins verður.