22.02.1977
Sameinað þing: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að taka undir orð síðasta ræðumanns um ráðstöfun á happdrættispeningunum, sem ég held að orki ekki tvímælis að hafi átt að koma til uppbótar annarri fjármögnun, en ekki sem einn liður í dæminu.

Ég get ekki tekið undir þá gagnrýni sem hér hefur verið hreyft á Vegagerðina og ráðh. fyrir það að vegáætlun sé seint fram komin. Ég hygg að hún sé á réttum tíma núna. Það hefði ekkert gert til þó hún hefði komið mánuði fyrr, en fyrr gat það náttúrlega ekki orðið vegna þess að vegalögin höfðu ekki hlotið afgreiðslu fyrr en um jól og þar af leiðandi var ekki hægt að leggja fram vegáætlun sem hafði ekki stoð í lögunum.

Alþ. ætti að geta haft tíma til þess að fjalla um þessa vegáætlun og fjalla um af skynsamlegu viti á næstu vikum, og þá gæti hún orðið til happa og farsældar á komandi árum.

Hin nýju vegalög, sem sett voru í vetur, hefðu e. t. v. getað orðið enn þá betri en þau urðu. Ég skal ekki fjölyrða um það. En ég held að það hafi verið ávinningur að þeim og þess vegna hafi það verið vel ráðið að bíða með vegáætlun eftir því að þau væru sett. Það eru í þeim lögum ýmis ákvæði sem horfa mjög til bóta, t. d. um skiptingu vega í flokka og kannske ekki síst um aukið fjármagn til sýsluvegasjóða sem sannarlega var langt of lítið. Hinu er ekki að neita, að vald alþm. sem slíkra er minna eftir nýju lögunum heldur en það var eftir, gömlu lögunum.

Við erum svo heppnir að hafa ágæta stofnun sem fjallar um þessi mál, Vegagerðina: Hún er ævinlega tekin sem fyrirmynd annarra ríkisstofnana hér í Alþ., þegar menn eru að ræða um þær, og þessi stofnun hefur á að skipa hæfum mönnum. Þeir hafa leitað samstarfs við alþm. og ég veit að þeir munu gera það áfram. En ég gæti hugsað mér samt sem áður að vald þm. mætti vera meira og enn þá betur tryggt. Ákvörðunarvald Vegagerðarinnar er að sjálfsögðu mjög mikið, því að þessir nýbyggingarþættir, sem þm. hafa hönd í bagga með að skipta, eru náttúrlega ekki mjög veigamikill hluti af heildarsummunni. Vegagerðin hefur með að gera t. d. skiptingu á viðhaldsfénu sem er rúmir 2 milljarðar á þessu ári.

Hvað varðar þá gagnrýni, sem komið hefur fram um það, að þessi vegáætlun sé of lág og of lítið sé til einstakra verka, þá get ég ósköp vel skilið hana. Að sjálfsögðu er það þó nokkurt átak að útvega þó þessa peninga, og það ber ekki að vanþakka. En ég get tekið undir með þeim mönnum, sem hér hafa talað, um það að ég gæti hugsað mér að þessi áætlun hefði verið rýmri. Svona áætlun veitir stórvirkjum ekki nægilegt svigrúm til þess að þau fái að njóta sín. Það eru miklar fjárhæðir í þessari vegáætlun og væntanlega gengur vel að eyða þeim því að verkin, sem framkvæma á, eru dýr. Verkin eru dýr og verkin eru íborin, e. t. v. stundum um of íborin. Ég minni á að ég þekki dæmi þess að í örfámennum byggðarlögum er fyrirhugað að leggja veg sem er 61/2 m á breidd, en til samanburðar má geta þess, að skotar munu hafa tekið upp hjá sér nýja reglu fyrir skömmu um að leggja ekki bundið slitlag á vegi ef þeir eru mjórri en 2.07 m. Við erum að hanna vegi yfir Laxárdalsheiði í Skagafirði, í byggðarlag þar sem ekki búa nema tæpir 80 menn, en þarfan og góðan veg sem endilega verður að koma, en ætlum að hafa hann 61/2 m á breidd og það er náttúrlega ofrausn.

Ég vil nota þetta tækifæri — og það er aðalerindið í þennan ræðustól strax við 1. umr. málsins að leggja á það áherslu að ég held að vegurinn milli Blönduóss og Skagastrandar hljóti að teljast í stofnbrautaflokki. Hann er ekki hér á blaðinu. Ég hygg að hann muni hafa fallið e. t. v. af vangá, af stofnbrautalistanum, en þar á hann alveg tvímælalaust heima, vegna þess, sem segir í 2. gr. nýsettra vegalaga, þ. e. a. s. klausunnar um stofnbrautirnar: „Víkja má frá reglunni um íbúafjölda ef um er að ræða tengingu kaupstaða eða kauptúna sem mynda samræmda heild frá atvinnulegu eða félagslegu sjónarmiði.“ Ég hygg, að Skagaströnd og Blönduós myndi samræmda heild frá atvinnulegu og félagslegu sjónarmiði. Þess vegna beini ég því til fjvn. og þeirra, sem koma til með að fjalla um þetta frv., að athuga það mjög rækilega hvort Skagaströnd eigi ekki heima í þessum flokki, hvort þeir hafi ekki sama skilning og ég á þessu atriði. Það má rekja mörg rök fyrir því, að þarna sé um að ræða samræmda heild frá atvinnulegu og félagslegu sjónarmiði hjá þessum tveimur þorpum.

Ég hefði enn fremur óskað eftir eilítið öðru formi á einum lið í þessari áætlun, þ. e. a. s. annarri uppsetningu á álaginu sem lagt er á framkvæmdir. Mér finnst það mesta ómynd, og ég trúi ekki öðru en að menn gætu fellt sig við að fara öðruvísi að en gert er hér, að setja niður á blað ákveðna tölu, en ekki vera með prósentureikning við álag á einstök verk. Þetta vekur mönnum fyrst undrun, þegar þeir átta sig á þessu, og síðar gremju. Það er óóeðlilegt að vera að birta tölur um fjárveitingar til einstakra verka og klípa svo af þeim kannske allt upp í 14%, eins og mun hafa verið gert á s. l. árum. Þessa peninga þarf Vegagerðin vafalaust að fá eða, áhaldahús og sú starfsemi sem þannig er fjármögnuð. En ég hygg að það mætti allt eins taka þetta öðruvísi og stilla þessari upphæð upp við hliðina á þeim upphæðum sem hér eru settar til stjórnunar og undirbúnings, þ. e. a. s., svo að ég nefni tölurnar í ár; skrifstofukostnaður hjá Vegagerðinni 133 millj., til verkfræðilegs undirbúnings 182 millj., í umferðartalningu og vegaeftirlit 26 millj., í eftirlaunagreiðslur 20 millj. Þetta eru samtals 361 millj. Þá eru til áhaldahúsanna og til véla- og verkfærakaupa 80 millj. Ég hygg að það væri allt eins hægt að setja þetta upp á annan hátt og það væri allra hluta vegna heppilegra. Ég beini því til fjvn. að reyna að koma þessu í annað form. Ég hygg að það sé ekki ætlunin að klípa svo mörg prósent af núna sem gert var í fyrra, en allt um það á að vera hægt að gera áætlun um þessa tölu eins og aðrar og prenta hana hér á sínum stað í áætluninni. Og þá veit líka Vegagerðin enn gleggra hvaða fjármagni er úr að spila.

Síðasti ræðumaður fjallaði eingöngu um eitt tiltekið verkefni á hringveginum eða um Norður- og Austurveg. Ég vil prjóna ofurlítið við það. Mér finnst þessi fjárveiting til þjóðvegaflokksins, 400 millj. í ár, of naumt skömmtuð. Að vísu er þetta í prósentutölum leiðrétting. En allt um það, þá er það ekki mikið sem kemur í hvern veg, í hverja einstaka framkvæmd, þó við ekki tökum nema það albrýnasta, ef á að skipta þessum 400 millj. í alla þá staði og síðan að klípa af þeim álag. Ég nefni að þetta er aðeins 4 millj. hærra í ár til nýbygginga þjóðbrauta heldur en er ætlað til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum og svo breytist það hlutfall enn á næstu árum, þar sem vegir í kaupstöðum og kauptúnum fara langt upp fyrir þjóðvegina. Mér finnst þessi flokkur, nýbygging á þjóðvegunum, vera sá sem er nú naumast ætlað til.

Hér hafa orðið í vetur geysilega langar umr. og miklar og stórfróðlegar um varanlegt slitlag á þjóðvegum og ég hef ekki verið barnanna bestur með að lengja þær. Þess vegna er leiðinlegt að þurfa að viðurkenna það eftir allar þessar snjöllu ræður, að við höfum raunverulega ekki verið að tala um varanlegt slitlag, því að þetta slitlag, sem við vorum að tala um, er ekki eins varanlegt og við vildum vera láta í okkar ræðuhöldum. Ég minni á það, að hér eru ætlaðar töluverðar upphæðir til viðhalds á vegum með bundnu slitlagi, 140 millj. í ár og 182 millj. á hverju ári þar á eftir. Ég vitna til bls. 23 í þessari vegáætlun, en þar segir að kostnaður við viðhald á olíumalarvegum við áðurnefndan umferðarflokk, þ. e. a. s. með 750–1000 bíla umferð á dag, er um 76% af kostnaði við samsvarandi malarveg. Það er meira en lítið. Þeir eru ekki aldeilis afgreiddir í eitt skipti fyrir öll olíumalarvegirnir þó að á þá komi olíumöl, ef til þeirra þarf að verja svo miklu fjármagni. Það mun vera óhjákvæmilegt að gera það, því að vondur olíumalarvegur er enn þá verri en vondur malarvegur.

Ég ætla svo að geyma mér umr. til seinni umr. um önnur atriði. Ég vildi þó láta þetta koma fram hér við 1. umr. málsins. Ég vil þakka fyrir það, sem vel er gert í þessari áætlun, og heita á þá, sem fá hana nú til umfjöllunar, að gera nú enn þá betur og klípa af henni þá litlu agnúa sem ég hef bent á. Og ég vona að þeir, sem hér hafa ákafast talað um nauðsyn þess að verja meira fé til Vegagerðarinnar, finni góðar og léttbærar leiðir til þess að geta hækkað þetta framkvæmdafé.