24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þetta mál mikið og ætlaði mér satt að segja ekki að taka til máls. En það, sem kom mér til að gera aths., var ræða hv. síðasta ræðumanns, formanns fjvn., og ekki síst síðustu orðin sem hann viðhafði hér, ef ég hef skilið þau rétt.

Eins og augljóst er, mun þetta mál ganga til fjvn., og ég gat ekki betur skilið af síðustu orðum hv. formanns fjvn. heldur en að ekki yrði nú lengra gengið í fjárveitingum til vega, við værum búnir að ákveða nánast það, sem í vegina ætti að fara, og þá væri ekki um það að gera að neinar breytingar gætu orðið á því. Þetta kemur mér satt að segja dálítið á óvart og snertir mig nokkuð harkalega, ef þetta er rétt skilið hjá mér, að það sé meiningin að fjvn. ætli sér ekki að hyggja að neinni fjárútvegun í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Ég vil benda á það og leggja á það ríka áherslu, að þó að hæstv. ráðh. hafi lagt þetta mál hér fyrir, þá er málið nú í höndum þingsins, og ég tel að þessi vegáætlun þurfi af ýmsum ástæðum að taka breytingum. Það verður að finna einhverja leið til þess að samkomulag verði hér í þinginu um aukið fjármagn til vegamála á þessu ári og á næstu árum. Þess vegna hlýt ég að gera aths. við það sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl. að þessu leyti, fyrir utan ýmsar aðrar aths. sem vel mætti hugsa sér að gera, eins og t. d. um hugleiðingar hans og kannske fleiri í sambandi við þær sérstöku landshlutaáætlanir sem í gangi hafa verið. Ég skal játa að það er kannske óæskilegt að vera með slíkar sérstakar framkvæmdaáætlanir utan við vegáætlun, ef svo má segja. Hins vegar er það staðreynd, að þessar áætlanir komu til af mjög brýnni þörf, og það er fjarri því, eins og kom nú fram, held ég, hjá hv. síðasta ræðumanni, að unnt sé að líta svo á, að þarna sé verið að skapa forréttindi fyrir tiltekin kjördæmi fram yfir önnur. Ég vil ekki líta svo á varðandi t. d. Vestfirði, sem fyrst munu hafa notið góðs af sérstakri vegáætlun. Ég veit ekki til þess að þeir hafi notið neinna sérstakra forréttinda í vegamálum. Mér er líka ókunnugt um að Austurland hafi notið einhverra sérstakra forréttinda í vegamálum. Þaðan af síður held ég að Norðurland hafi notið slíkra forréttinda. Ég held því að við ættum ekki að spila á þessum nótum og ég held líka að við þurfum að ræða það í fullri alvöru, hver verði endalok hinna sérstöku framkvæmdaáætlana í vegamálum. Það mál getur tæpast verið alveg úr sögunni.

En á þetta vil ég benda: Ég hef sjálfur starfað í fjvn. og unnið þar að vegáætlunum, og mig langar til að minna á það, að yfirleitt, þegar best hefur tekist við afgreiðslu vegáætlana, þegar best hefur tekist við afgreiðslu vegáætlana, þá hefur vegáætlunin verið þá hefur vegáætlunin verið lengi fyrir þinginu. Hún hefur verið rædd gaumgæfilega, það hefur tekið allt upp í 4 kannske 5 vikur að vinna að vegáætluninni og þm. hafa lagt sig fram um það, menn úr öllum flokkum, og málið hefur ekki verið afgreitt á neinu færibandi. Ég vona að sá háttur verði á neinu færibandi. Ég vona að sá háttur verði á hafður enn í fjvn., að þetta mál verði gaumgæfilega athugað og það sé engin fyrir fram ákveðin upphæð sem eigi að fara í þetta, heldur fáum við tækifæri til þess að koma með okkar till. bæði einstakir þm., þó að við gerum það ekki hér við umr., ellegar þingflokkar og aðrir sem áhuga hafa á því að koma vegamálunum áfram. Til þess eru ýmsar leiðir. Ég bendi m. a. á að það er hugsanlegt að hækka þá venjulegu, mörkuðu tekjustofna sem fyrir hendi eru, og ég gæti best trúað því að það væri talsverður hljómgrunnur fyrir því í þinginu. Það ræð ég af viðtölum við þm. Ég vona sem sagt að þetta mál verði tekið föstum tökum, m. a. með það fyrir augum að aflað verði aukins fjármagns til vegamála, e. t. v. með því, og ég er því hlynntur, að hækkuð verði þau gjöld sem nú renna til vegamálanna. En að gefa þá yfirlýsingu hér fyrir hönd fjvn., ef ég hef skilið þetta rétt, að það sé naumast hægt að ganga lengra í fjárútvegunum fyrir vegamálin, það tek ég ekki sem góða og gilda vöru.