24.02.1977
Sameinað þing: 56. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

162. mál, vegáætlun 1977-1980

Jón Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég taldi nauðsynlegt út af ræðu hv. þm. Ingvars Gíslasonar að taka það sérstaklega fram að ég tala alls ekki hér fyrir hönd fjvn. Það er alger misskilningur. Ég talaði hér bara sem einn af þm. Alþ., en ekki neitt í umboði hennar þó að ég sé formaður n. Ég var að túlka skoðanir mínar, en ekki n., sem hefur ekki fengið málið einu sinni til umsagnar. Alþ. er ekki búið að vísa málinn þangað, svo að það gat ekki verið fyrir hendi. Hitt er annað mál, að ég lýsti þeirri skoðun minni í sambandi við þetta mál, að Alþ. væri búið að taka afstöðu til þess hve miklu fjármagni ætti að verja bæði í sambandi við lánsfjáráætlunina og afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Þar með taldi ég að væri markað það fjármagn sem um væri að ræða, og ef hefði átt að gera eitthvað meira, þá hefði verið eðlilegt að taka afstöðu til þess við þá afgreiðslu.

Ég vil að lokum segja það, að ég hygg að öllum hv. alþm. sé það ljóst, að fram undan eru erfiðir samningar í launamálum — og halda hv. þm. virkilega að það muni auðvelda þá samninga að fara að leggja á nýja skatta? Nýir skattar, í hvaða formi sem er, munu skapa erfiðleika við að ná ég koma á nauðsynlegum launasamningum í þessu landi. Þess vegna er það skoðun mín, að það verði ekki gengið það spor, hvorki í sambandi við umferðarskatta eða annað, að þeir verði hækkaðir núna. Ég held að öllum þyki skattarnir nógu háir, og ég hef ekki heyrt þann straum fara hér í þingsölunum að menn séu tilbúnir til að fara að leggja á nýjan eða hækkandi bensinskatt, eins og virtist koma fram í ræðu hv. þm.

Ég held svo að ég sjái ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.