28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

169. mál, umferðarlög

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við flytjum á þskj. 332, hv. þm. Oddur Ólafsson, Jón Árm. Héðinsson, Ingi Tryggvason og ég, eftirfarandi frv. um breyt. á umferðarlögum nr. 40 frá 1968:

„1. gr. Aftan við 59. gr. 1. komi ný málsgr., svo hljóðandi:

Skylt er ökumanni og farþega bifhjóls að nota hlífðarhjálm við akstur.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í stystu grg., sem ég hef átt aðild að að semja, segir:

„Höfuðmeiðsli, er leiða til örkumla eða bana, eru uggvænlega tíð í bifhjólaslysum. Löggæslumenn og læknar eru samdóma um að bifhjólamönnum sé mikil vörn í hlífðarhjálmum — og nefna dæmi þess. Notkun hjálma þessara hefur færst í vöxt síðari árin, en æskilegt er talið að kveðið verði á um hana í lögum.“

Það er að segja af tilorðningu þessa frv., að fyrir skemmstu kom heim til mín ungur maður á tveimur hækjum þeirra erinda að ræða það við mig hvort ekki mundi vera hægt að fá það sett í lög að ekki megi aka mótorhjóli án öryggishjálms og gilti það jafnt um farþega sem ökumann. Þessi ungi maður hafði lent í árekstri á bifhjóli sínu á Skúlagötu í nóvember í haust. Sjálfur var hann með hlífðarhjálm og hélt því lífi, hlaut aðeins nokkur slæm beinbrot, eins og hann orðaði það og göngulag hans og limaburður allur bar ótvírætt vott um, en er nú á batavegi. Systir hans, sem var farþegi á mótorhjólinu, var ekki með hlífðarhjálm. Hún hlaut höfuðmeiðsli sem leiddu hana til bana loks nú í byrjum febrúar. Ég hét því að taka þetta mál til athugunar og fá til liðs við mig góða menn að gera það sem rétt teldist í málinu.

Ég ræddi síðan þetta sérstaka vandamál við menn úr umferðarlögreglunni, þ. á m. Óskar Ólason yfirlögregluþjón, sem tjáði mér að það væri samdóma álit lögreglumanna að nauðsynlegt væri að kveða á um það í lögum að notkun hlífðarhjálma væri skylda við akstur á mótorhjólum. Enda þótt það yrði nú æ tíðara að eigendur mótorhjóla notuðu þessa hjálma, væri það ekki algilt og eins væri hitt tiltakanlegt, að farþegarnir á mótorhjólunum væru allt of oft hlífðarhjálmalausir. Ég ræddi þetta líka við lækna sem sinna slysavöktum á sjúkrahúsunum, fékk þar samsvarandi upplýsingar. T. d. tjáði mér Haukur Kristjánsson yfirlæknir á slysavarðstofu Borgarspítalans að ótrúlega margir unglingar hlytu höfuðáverka á bifhjólunum sem líkur væru til að þeir hefðu ekki hlotið ef þeir hefðu haft hlífðarhjálma, allt of margir þeirra hlytu örkuml af þessum völdum og enn aðrir dauða.

Nú er skemmst af því að segja, að eftir að ég hafði aflað mér þessara upplýsinga rann það upp fyrir mér, að fyrir Nd. lá frv. um breyt. á umferðarlögum, flutt af frú Sigurlaugu Bjarnadóttur og Ellert B. Schram, þar sem kveðið er á um notkun hlífðarhjálma. Aftur á móti kom í ljós að í frv. þessu eru ráðgerðar fleiri — vafalítið nytsamlegar, en umdeildar breytingar á umferðarlöggjöfinni. Frv. þetta, sem lagt var fram á þingi í fyrra, fékk ekki afgreiðslu, m. a. vegna deilu um ákvæðin um skyldu til að nota bílbelti. Og enn er deilt um þetta frv. í Nd. Ég ræddi málið við frú Sigurlaugu Bjarnadóttur, þ. e. a. s. um það atriði sem að öryggishjálmunum lýtur eða hlífðarhjálmunum, og hún tjáði mér glaðlega að hún væri því meira en samþykk að þetta atriði yrði flutt sérstaklega í lagafrv. í Ed. og sagði sem svo — af drengskap í líkingu við Bergþóru forðum — að fyrir sér vekti það eitt að þetta mál kæmist fram í hversu mörgum hlutum sem það yrði.

Af viðræðum mínum við umferðarlögregluþjóna komst ég að því, að það eru fleiri atriði varðandi bifhjólaaksturinn sem lögreglumenn telja að færa þyrfti í lög, svo sem óleyfilegt sé að breyta aflvél bifhjólanna þannig að þau nái meiri hraða en leyfilegur er samkv. lögum. Þótt þess háttar hömlum hafi verið komið á aflvélar mótorhjólanna, þá freistast ungt fólk til þess að fjarlægja þá til þess að ná meiri hraða. Þetta telja löggæslumenn ákaflega óæskilegt.

Önnur er sú árátta ungra manna, sem aka mótorhjólum, að koma því til leiðar með lítils háttar breytingu að hærra heyrist í þeim heldur en góðborgurunum þykir notalegt, sérstaklega snemma morguns. Með þessum hætti er m. a. hægt að auka afl vélarinnar. Einnig þetta telja löggæslumenn mjög óæskilegt og vildu gjarnan að kveðið yrði á um það í lögum að slíkt væri óleyfilegt.

En svo ég vitni í Óskar Ólason yfirlögregluþjón, þá sagði hann að þetta væru önnur atriði sem ekki ætti að blanda saman við ákvæðin um notkun hlífðarhjálmanna. Bráðnauðsynlegt væri að fá það leitt í lög tafarlaust, að ökumönnum og farþegum á bifhjólum væri skylt að nota hlífðarhjálma, því með hverjum mánuði sem líði ykist hættan á því að enn fleiri hlytu af því bana eða örkuml að aka án þess að nota slíka hjálma.

Það er sem sagt skoðun löggæslumanna og lækna, sem búa um meiðsli af völdum bifhjólaslysa, að það sé nauðsynlegt að færa það í lög, binda það í lögum, að ökumenn bifhjóla og farþegar þeirra noti hlífðarhjálma. Ég fæ ekki betur séð en að viðurlög í umferðarlögunum eigi að nægja til aðhalds í þessu efni eins og um önnur efni umferðarlaga.

Ég óska þess að frv. verði að umr. lokinni vísað til samgn.