28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

169. mál, umferðarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það hafa orðið mörgum vonbrigði, sem að heilbrigðismálum vinna, að þrátt fyrir það að tekist hafi að útrýma skæðum sjúkdómum og sjúkdómum sem höfðu verið e. t. v. aðalskaðvaldar þjóðarinnar um langan tíma, þrátt fyrir það að tekist hafi að snúa blaðinu við í þeim efnum að smitsjúkdómar yrðu ekki lengur stórvandamál, þá hefur ekki tekist að fækka svo að nokkru nemi þeim sem vegna sjúkdóma eða slysa verða öryrkjar um lengri eða skemmri tíma. Þetta er vegna þess að ýmsar þjóðfélagsbreytingar hafa orðið til þess að aðrar sjúkdómsorsakir hafa komið meira í sviðsljósið og orðið meira áberandi þegar þeim sjúkdómum lauk sem áður höfðu verið hvað mestir skaðvaldar. Því er ekki að neita að umferðarhraðinn er allstórvirkur í þessu efni og veldur fjölda manns í þessu landi mikilli örorku og mörgum nýjum tilfellum á hverju ári. Þrátt fyrir mikla viðleitni til þess að ráða bót á þessu verður tiltölulega lítið ágengt. Eitt er þó víst, að bifhjólin eru undir þá sömu sök seld og opnu bílarnir voru áður, að ef árekstur verður eða ef illa fer um stjórnina, þá eru slys af þeirra völdum oft mjög alvarleg og leiða til mikils áverka og varanlegs skaða. Það er vegna þess arna sem þetta frv. er flutt, til þess að lögreglan, ef hún sér mann með óvarið höfuð á bifhjóli, geti gripið í taumana og hjálpað til með að veita það mikla öryggi sem hjálmarnir eru. Ég held að öllum jafnaði séu þeir, sem bifhjólum aka, með höfuðhlífar. En þrátt fyrir það eru þó allt of margir sem vanrækja þetta sjálfsagða öryggisatriði, og því held ég að það sé mikil nauðsyn að fá þetta frv. samþ.