28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

172. mál, umferðarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti: Ég tel að hér sé hreyft góðu máli og nauðsynlegu. Ég hygg að raunar hafi verið lögð of lítil áhersla á uppbyggingu almenningsvagnakerfisins hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa og mönnum hafi sést óþarflega mikið yfir þörf þeirra aðila, sem standa að þessari almenningsþjónustu, fyrir sérstakan aðbúnað. Ég er þeirrar skoðunar að framundan séu þau ár að þörfin fyrir almenningsvagna muni aukast jafnt og þétt af ýmsum ástæðum og þá fyrst þeirri, að rekstur einkabila muni af ýmsum ástæðum verða æ dýrari eftir því sem á líður. Ég geri mér grein fyrir því, sem hv. flm. þessarar till. minntist á, að nauðsynlegt getur verið að kveða sérstaklega á um það með hvaða hætti á að merkja sem greinilegast biðstöðvar almenningsvagnanna eða stansana, þar sem þeir taka fólk og eiga að njóta þessara sérstöku réttinda í umferðinni. Mætti einnig segja mér að nauðsynlegt yrði að kveða á um það í reglugerð sérstaklega, með hvaða hætti eigi að útbúa biðstöðvarnar, þannig að þessi sérstaki réttur almenningsvagnanna til að komast út í umferðina verði sem áhættuminnstur fyrir aðra vegfarendur. En það er eftir sem sagt að fjalla um málið í n. Ég mun veita því það atfylgi í n. sem ég get og þá reyna að stuðla að því að sérfróðir menn verði til kvaddir til þess að málið verði sem best úr garði gert.