28.02.1977
Efri deild: 46. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og nál. hv. fjh.- og viðskn. ber með sér, var ég fjarverandi þegar þetta mál var afgreitt í nefnd. Ég vil því nota tækifærið til að lýsa með örfáum orðum afstöðu minni til þess.

Ég held að það sé nú orðið nokkuð almenn skoðun manna, eins góð og sú fyrirætlan á sínum tíma var að leggja eitt söluskattsstig á og nota það fé, sem þannig fékkst inn, til þess að létta kostnaðarbyrði þeirra sem þurftu að hita upp íbúðir sínar með olíu, sem er náttúrlega miklu miklu meiri kostnaður en t. d. við að hita upp með jarðhita eða rafmagni, að eins og nú er komið hafi það markmið fjarlægst allmikið.

Ég er þeirrar skoðunar að upphaflega, þegar þessar ráðstafanir voru framkvæmdar, hafi verið valin óhagstæðasta leiðin, sem völ var á, með því að miða greiðslur til heimilanna við það hve margir voru í hverju heimill.

Ég benti á það í fyrra, þegar þessi mál voru til afgreiðslu í Alþ., að ég hefði talið eðlilegra að meginhluti þeirrar upphæðar, sem ætluð er til niðurgreiðslu í tilfellum eins og þessum, þ. e. a. s. þegar hitagjafinn er olía, yrði ákveðinn á heimili, hvort heldur það væri fjölmennt eða fámennt. Færði ég þá þau rök fyrir máli mínu, að það kostar jafnmikið að hita t. a. m. upp íbúð þar sem hjónin eru eftir og börnin farin í skóla til framhaldsnáms.

Ég minnist á þetta nú vegna þess að ég sé í lok 1. gr. að viðskrn. á að ákveða fjárhæð styrks til einstaklinga og rafveitna með hliðsjón af fjárveitingu hverju sinni. Ég vil að þetta sjónarmið komi fram við umr. málsins og afgreiðslu hér í deildinni. Mér þætti ekki óeðlilegt, þegar sú reglugerð, sem væntanlega verður gefin út af viðskrn., verður samin, að þá verði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem felast í þeim athugasemdum sem ég hef verið að gera hér grein fyrir.

Ég vil ekki setja fætur fyrir samþykkt þessa frv., þó svo að ég sé að sumu leyti þeirrar skoðunar, eins og málum er háttað nú um ráðstöfun á þessu fé sem innheimt er af þegnunum, að mér er til efs hvort það eru ekki þó nokkuð mörg tilfelli sem þar er um að ræða að þegnarnir greiða mun meira gjald með því söluskattsstigi, sem þarna er álagt, heldur en sá styrkur nemur, sem þeir fá til baka til að standa straum af kostnaði vegna kyndingar íbúða sinna. En eins og ég sagði, ég vil ekki bregða fæti fyrir samþykkt frv. aðeins þótti mér ástæða til þess að vekja athygli á því sjónarmiði sem ég hef nú gert grein fyrir.