28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1708)

51. mál, skotvopn

Dómsmrh. Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Um það frv., sem hér liggur fyrir, um skotvopn, sprengiefni og skotelda, hefur verið fjallað í hv. Ed. Hefur það verið samþ. þar með þeim breyt., sem er að finna á þskj. 326.

Þetta frv. var lagt fram á síðasta Alþ. og þá í hv. Ed., en varð ekki útrætt. Allshn. Ed. hafði fjallað um það og flutt við það nokkrar brtt. Þegar frv. var svo í sumar tekið til endurskoðunar voru þær breytt., sem hv. Ed. hafði gert, teknar upp í frv. og það lagt þannig fram. En auk þess hefur, eins og ég sagði, hv. Ed. nú gert nokkrar fleiri breyt. og er þær að finna á þskj. 326. Þær breyt. voru gerðar í samráði við dómsmrn., og ég fellst á að þær séu yfirleitt til bóta. Þær breyt. ganga yfirleitt í þá átt að herða aðhaldið að þeim sem hafa með að gera notkun og meðferð skotvopna eða hafa leyfi til þess.

Ég þarf nú ekki og ætla ekki að fara mörgum orðum um þá þörf sem á því er að setja ný og fullkomin lög um þessi efni. Nú gilda um þetta mjög gömul lög, um 40 ára gömul lög sem á ýmsan hátt eru ófullkomin og svara ekki til þeirra breytinga sem orðið hafa síðan. Þessi lög hafa að nokkru leyti verið fyllt út með því að gefin hefur verið út reglugerð um þessi efni. En samt sem áður eru þau lagaákvæði og reglugerðarákvæði, sem um þessi efni fjalla, nú orðin að mörgu leyti úrelt.

Ég skal ekki, nema tilefni verði til, fara frekar út í að ræða það, hver þörf er á þessari lagasetningu, en vísa til athugasemdanna. Í þessu frv. er að finna allmörg nýmæli frá því sem er í núgildandi lögum. Ég skal aðeins fara stuttlega yfir efni frv. Þetta frv. skiptist í sjö kafla.

1. kaflinn fjallar um gildissvið frv. Þar er merking hugtakanna skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skoteldur skilgreind og afmörkuð.

Í 3. gr. frv. er ráðh. heimilað að setja reglur um önnur efni en þau, sem frv. tekur til beinlínis eftir orðanna hljóðan eða eldri skilgreiningu, ef þau hafa svipaða eiginleika og verkanir, svo sem ýmis önnur vopn en skotvopn og ýmis efni sem teljast ekki vera sprengiefni eða skoteldar, en hafa svipaða eiginleika. Aðstæður geta komið upp sem gera óhjákvæmilegt að setja reglur um þessi efni og þessa hluti, og því er talið rétt að ráðh. hafi heimild sem þessa.

Á þessum I. kafla frv. voru ekki gerðar neinar breytingar í Ed.

Í II. kafla frv. er fjallað um innflutning, útflutning, framleiðslu og verslun með nefndar vörur. Í gildandi lögum eru mjög ófullkomnar reglur um framleiðslu á þessum vörutegundum og það er út af fyrir sig eðlilegt, af því að lengst af hefur ekki verið nein framleiðsla í landinu á þessum efnum. Nú er hins vegar svo, að hér hafa verið starfandi a. m. k. tvær flugeldaverksmiðjur og er því þörf á að settar séu reglur um þá framleiðslu. Frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu frá núgildandi framkvæmd varðandi innflutning til landsins að leita þurfi leyfis fyrir hverri og einni vörusendingu. Þetta er mikilvægt til þess að tryggja að ekki séu aðrar vörur fluttar inn en þær sem leyfðar eru til sölu innanlands, og einnig veitir það stjórnvöldum tækifæri til þess að fylgjast á hverjum tíma með innflutningi. Það er gert ráð fyrir að meira eftirlit verði haft með verslunum, og það er lögð ríkari skylda á verslunareigendur en nú er að þeir afhendi ekki öðrum vörur heldur en þeim sem sanni að þeir megi kaupa þær.

Hv. allshn. Ed. gerði nokkrar breytingar á þessum kafla frv., þ. e. a. s. 5. gr., 6. gr., 10. gr. og 11. gr. Það eru ekki stórvægilegar breytingar, en ganga, eins og áðan var tekið fram, almennt í þá átt að herða heldur aðhald og eftirlit í þessum efnum.

III. kafli frv. fjallar eingöngu um skotvopn og skotfæri. Þar er kveðið á um hverjir geti fengið leyfi til þess að kaupa skotvopn og skotfæri. Nokkru ítarlegri ákvæði eru um þetta heldur en í gildandi lögum. Að vísu eru þar allströng ákvæði um hverjir eigi að geta fengið leyfi til þess að eiga skotvopn, en það má vera að það hafi ekki tekist að fylgja þeim lögum eftir í framkvæmd svo sem skyldi. En samkvæmt núgildandi lögum er það aðalreglan, að þeim einum sé veitt heimild til þess að hafa í vörslum sínum skotvopn sem sýni skilríki fyrir því að þeim sé það gagnlegt eða nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Svipað ákvæði er í frv., en auk þess eru tilgreind ákveðin skilyrði sem leyfishafi verður að fullnægja, svo sem ákveðinn lágmarksaldur og varðandi þekkingu á hættueiginleikum þessa tækis, auk þess sem það er almennt gert að skilyrði að menn hafi ekki gerst brotlegir við almenn hegningarlög, áfengislög eða lög er varða meðferð skotvopna, nema brot sé mjög smávægilegt.

Það er nýmæli í þessu frv. að gert er ráð fyrir því að skotvopnaleyfi sé ekki gefið út til lengri tíma í senn en 10 ára. Þetta ætti að auðvelda lögregluyfirvöldum að hafa eftirlit með skráningu skotvopna, og það auðveldar þeim að fylgjast með því að leyfishafar fullnægi nauðsynlegum skilyrðum á hverjum tíma. Það eru að sjálfsögðu mörg önnur nýmæli í þessum kafla frv., sem miða að því að koma í veg fyrir misnotkun skotvopna. Öll þessi ákvæði setja ákveðnar hömlur við sölu skotvopna án þess þó að koma í veg fyrir eðlilega og nauðsynlega notkun þeirra. Benda má á í þessu sambandi að víða um lönd hafa einmitt nú verið sett eða hert ákvæði um sölu og meðferð skotvopna. Er ástæðunnar fyrir því eflaust að leita í þeim vaxandi ofbeldishvötum og hryðjuverkum sem vart hefur orðið á allra síðustu tímum.

Auðvitað eru skotvopn alltaf hættuleg tæki og þau má misnota. Þau eru samt sem áður nauðsynleg og verður þess vegna að reyna að haga reglum um þau þannig að reynt sé, eftir því sem hægt er, að koma í veg fyrir misnotkun í sambandi við þau, en það verður þó auðvitað seint gert algjörlega með lagaákvæðum.

IV. kafli frv. fjallar um meðferð sprengiefnis, hverjir megi kaupa það, hverjir megi nota það, um geymslu sprengiefnis og meðferð. Til þessa hefur algjörlega skort reglur um þetta efni. Að vísu má segja að ófullkomnar reglur séu til um það, hvar og hvernig megi geyma sprengiefni, en mjög fábrotnar reglur eru í gildi um flutning á því og meðferð þess. En þar sem nú er orðið allmikið um notkun slíkra efna er nauðsynlegt að sett séu ákvæði um það. Auk þess sem þarna er ákvæði að finna í frv., er gert ráð fyrir því að ítarlegri ákvæði séu sett í reglugerð og er það talið æskilegra þar sem hér er um mjög tæknileg atriði að tefla.

Það má segja að sem betur fer hafi notkun skotelda ekki valdið verulegum vandræðum hér. Þó er það svo að á hverju ári slasast menn eitthvað meira eða minna af völdum skotelda og því er talið nauðsynlegt að settar séu um þetta fyllri reglur en nú gilda. Gert er ráð fyrir því sem meginreglu, að ekki megi setja yngri mönnum en 16 ára skotelda. Á sama hátt og um sprengiefni er þörf á setningu reglugerðar um þetta efni.

Í VI. og VII. kafla frv. er svo fjallað um heimild stjórnvalda til að svipta menn leyfi, sem hafa fengið það, um refsingar, um eignarupptöku, stjórnvaldskæru o. fl. Refsimörk eru hækkuð talsvert frá því sem nú er. Samkv. gildandi lögum varðar brot sektum allt að 10 þús. kr., en samkv. frv. getur brot varðað allt að eins árs fangelsi, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Í sumum nágrannalöndum okkar eru refsimörkin hærri, svo sem í Danmörku og Svíþjóð, en þar er gert ráð fyrir að brot á samsvarandi lögum geti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Í Noregi og Finnlandi eru hins vegar refsimörkin nokkru lægri. Ætlast er til þess að leyfissviptingu verði beitt í ríkara mæli en nú er gert. Eru allítarleg ákvæði um það í frv., hvernig fari um sölu á varningi sem leyfishafi skal skila þegar hann er sviptur leyfi, ef ekki er jafnframt fyrir hendi skilyrði til eignarupptöku. Bæði hækkun refsinga og beiting ákvæðanna um sviptingu leyfa í ríkara mæli en nú er gert ættu að leiða til meiri aðgæslu hjá þeim sem fara með og nota þessi tæki og þessi efni.

Eins og þegar er fram komið, er talin þörf á setningu reglugerðar jafnframt þessari nýju lagasetningu er kveði nánar á um ýmis atriði, svo sem um geymslu og flutning sprengiefna og um fleiri atriði.

Þarna eru einnig ákvæði um þau skotvopnaleyfi, sem gefin hafa verið út áður en lögin taka gildi, og um önnur leyfi, sem varða þessa hluti, og er gefinn frestur, eins og í frv. segir, til þess að tryggja að þeir, sem hlut eiga að máli, leyfishafarnir — byssuleyfishafar munu þeir vera kallaðir í daglegu máli — geti fullnægt settum skilyrðum. Er gefinn allrúmur frestur til endurnýjunarbeiðni.

Ég skal, herra forseti, ekki orðlengja frekar um þetta frv. Ég vil leyfa mér að vona að það fái góðar viðtökur í þessari hv. d. eins og í hv. Ed., sem hefur fallist á að nauðsyn væri að setja ný lög um þetta efni. Ég leyfi mér að vísa aftur til aths. sem fylgja þessu frv., og að sjálfsögðu er sá deildarstjóri í rn., sem mest hefur unnið að samningu þessa frv., reiðubúinn til þess að koma til viðtals við þá nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, og gefa á því nánari skýringar. En það er svo, að það er ekki eins auðvelt og fljótt mætti virðast að setja ákvæði um þessi efni, vegna þess að þarna koma til ýmiss konar tæknileg atriði sem verður að hafa hliðsjón af, og er ekki þægilegt nema fyrir þá, sem hafa einhverja sérstaka þekkingu á þessum efnum og á meðferð þessara tækja, að setja um þau reglur.

Ég vona að með setningu löggjafar sem þessarar væri stigið spor til réttrar áttar og að það verði hægt, eftir að þau öðlast gildi, að koma þessum málum í betra horf en þau eru nú. En því miður hefur nokkuð brostið á um framkvæmd í þessum efnum, eins og ég býst við að flestir hv. deildarmanna þekki nokkuð til, bæði varðandi meðferð og geymslu eða vörslu, en úr því er æskilegt og nauðsynlegt að bæta. Auðvitað er aldrei hægt að fullyrða fyrir fram hvernig til tekst um framkvæmd laganna, en auðvitað er mjög mikið komið undir því að vel takist til um framkvæmd þeirra.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.