28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

51. mál, skotvopn

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég skal játa það, að hv. þm. Pétur Sigurðsson veit eflaust meira um skotfæri heldur en ég. Og ég er sannfærður um að hann er ekki einn af þeim sem láta vaða í hugsunarleysi svo og svo mörg skot á fuglahópa. Hins vegar er ég líka sannfærður um það, að þeir eru æðimargir sem þetta gera, jafnvel þó að skotið kosti eitthvað á annað hundrað kr.

Tæknilega er útilokað, segir hann, að breyta þeim byssum af þessu tagi sem fyrir eru í landinu. Ef það er tæknilega útilokað, en sett verða lög sem banna slíkar byssur, þá sýnist mér liggja í augum uppi að það verði látið fylgja þeim lögum að þeir, sem eiga slíkar byssur, skili þeim, en fái þær þá bættar og geti þá keypt sér þær byssur sem samrýmast gildandi lögum.

Ég er sannfærður um, að þó að ekki sé kannske hægt að skjóta af þessum byssum eins og hríðskotabyssum, þá eru þær mjög hættuleg vopn í höndum viðvaninga, hættuleg fuglum, særa fugla í stórum stíl, og þeim mun meira sem meiri skussar halda á þeim. Það breytir ekki miklu hvort hægt væri að skjóta öllum skotunum í einu með því að taka einu sinni í gikkinn eða tekið er í gikkinn fimm eða sex sinnum. Þetta breytir afskaplega litlu.

Ég vil að lokum gera ofurlitla aths. við stærðfræði hv. þm. Péturs Sigurðssonar. Högl úr tvíhleyptum byssum, segir hann, eru alveg eins skaðsamleg fuglum eins og högl úr fimm skota byssum. M. ö. o.: það skaðar fuglahópinn ekkert meira, þó að skotið sé 5 skotum, heldur en þó skotin séu tvö. Það liggur í augum uppi að af tveimur skotum verður tvisvar sinnum meiri skaði en einu og af fimm skotum fimm sinnum meiri skaði heldur en af einu. Þetta er einfaldur reikningur.