28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs hér utan dagskrár, er viðtal sem birtist í Morgunblaðinu í gær við Björn Jónsson skólastjóra í Hagaskóla hér í Reykjavík, en það er varðandi hið nýja fyrirkomulag á einkunnagjöf við grunnskólapróf. Þar er vikið að máli sem að mínu mati er svo alvarlegt og viðkvæmt, að ég tel óhjákvæmilegt að gera það að umtalsefni hér á hinu háa Alþ. Viðtalið staðfestir raunar þær áhyggjur sem ég hef haft allt frá því að ég heyrði fyrst af hinu nýja fyrirkomulagi.

Efni málsins er það, að samkv. ákvörðun prófanefndar menntmrn. hefur verið tekið upp nýtt fyrirkomulag í einkunnagjöf við grunnskólapróf. Í stað gamla kerfisins, sem við öll könnumst við, er einkunnagjöfin nú samræmd í bókstöfum, bekkjardeild er skipt í 5 hópa, stærð hvers hóps er ákveðin fyrir fram, fundin er normalkúrfa, og nú er það tölva, en ekki kennari, sem ákveður námsárangur hvers nemanda. Um þetta segir nefndur skólastjóri í viðtalinu í Morgunblaðinu, með leyfi forseta, —- ég gríp niður í viðtalið:

„Þá kemur meðaltalsútreikningurinn á einkunnum út á mjög vafasaman hátt. Ef nemendahópurinn er jafn í árangri getur þetta verið neikvætt fyrir marga, og ég hygg að margir nemendur, sem hafa talið vel ganga hjá sér í þessum síðustu prófum, eigi eftir að sjá allt annað og verra þegar tölvan hefur skilað útreikningi. Þegar jöfnuðurinn er mikill í prófum getur munað svo litlu til þess að tölvan reikni einum nemanda allt að 2–3 stigum lægra af 10 mögulegum en öðrum nemanda sem e. t. v. hefur aðeins skilað örlítið betri árangri en skólafélagi hans.“ Og síðan segir skólastjórinn: „Hitt er svo, að þessi fjárans einkunnagjöf er alger vitleysa og það er enginn sem treystir sér til þess að mæla þessu bót, ekki einu sinni þeir sem standa fyrir þessu. Þetta er fáránlegt. Þjóðin er ofurseld skólakerfinu og því á svo gallað fyrirkomulag sem raun ber vitni ekki að vera í gildi.“ Hann dregur það síðan í efa að prófanefndin tali sömu tungu og þjóðin.

Enn fremur er kvartað undan því af skólum og nemendum að ýmsum skólum og hópum nemenda sé mismunað, en ég leiði það hjá mér, enda skiptir það ekki meginmáli þegar ég geri þetta að umtalsefni hér utan dagskrár. En kjarni málsins er sá, að námsárangur nemenda fer nú ekki eftir eigin frammistöðu hvers nemanda, heldur er viðkomandi nemandi dæmdur með hliðsjón af hvernig bekkjardeildinni í heild sinni gengur.

Hinn 8. maí 1974 samþykkti Alþ. lög um grunnskóla. Flestum eru enn í fersku minni þær miklu umr. sem fram fóru um þessa lagasetningu. Þar sýndist sitt hverjum. Ánægjulegt var þó að finna þann einlæga áhuga og þá alúð sem þm. sýndu þegar grunnskólafrv. var hér til afgreiðslu. Sá áhugi var spegilmynd af viðhorfum þjóðarinnar sem lætur sér tvímælalaust annt um skólamál og skilur þýðingu skyldunámsins og skólauppeldisins. Grunnskólalögin eru 88 gr. Þar er víða komið við, lögbundin hin smæstu atriði: um stjórn grunnskóla, húsnæði, starfstíma, námsefni, kennsluskipan o. s. frv., og þar er ákvæði um námsmat og próf þar sem segir m. a., að hverjum kennara og skóla beri að fylgjast vandlega með því, hvernig nemendum gengur að ná þeim markmiðum í námi sem skólinn setur þeim. Yfirleitt bera ákvæði laganna það með sér, að meira tillit skuli tekið til hvers nemanda sem sjálfstæðs einstaklings en áður var gert.

Ég tel að ákvörðun um breytingu á einkunnagjöf sé ekki ómerkilegri heldur en ýmislegt það sem í frv. felst, og með hliðsjón af þessari ítarlegri löggjöf skýtur það sannarlega skökku við, að prófanefnd rn. hafi það mikið svigrúm að hún geti umbylt prófafyrirkomulagi og einkunnagjöf nánast upp á eigin spýtur. Formlega séð má vera að Alþ. geti við sjálft sig sakast. En mér er til efs að fyrirkomulag það, sem nú hefur verið ákveðið, sé í samræmi við anda laganna, og vissulega starfar n. á ábyrgð menntmrh. Eftir allan þann sparðatíning sem lögin innihalda — og geri ég þó ekki lítið úr þeim ákvæðum — er það sannarlega andkannalegt að svo mikilvægur þáttur í skólastarfinu og náminu sé ákveðinn að geðþótta einnar n. í rn. Mér er til efs að hæstv. ráðh. hafi áttað sig á hvaða skref hafi verið stigið hér. Sannleikurinn er sá, að nemendur jafnt sem kennarar eiga mjög erfitt með að skilja útfærslu þessa kerfis og það ríkir mjög mikil óánægja með það hjá skólastjórum og kennurum.

Ég hef áhyggjur af þróun þessa máls og tel eðlilegt og nauðsynlegt að hreyfa því hér á Alþ., ekki aðeins til að fá upplýsingar hjá hæstv. ráðh., heldur til að árétta þá skoðun mína, að Alþ. eigi að láta álit sitt í ljós á svo þýðingarmiklu máli.

Það vakna margar spurningar: Viljum við að tölva taki við hlutverki kennaranna? Viljum við staðla alla nemendur? Á að meta námsárangur hvers og eins nemanda í samræmi við eigin frammistöðu eða með hliðsjón af getu allra hinna? Á að jafna æskuna út í einhverja meðaltalsflatneskju? Og nú má ekki lengur spyrja: hvað getur nemandinn sjálfur? heldur: hvar stendur hann og hvar lendir hann í kúrfunni?

Hið nýja fyrirkomulag, sem prófanefnd hefur haft til og ákveðið, er mikil breyting, róttæk breyting sem mun hafa varanleg áhrif í skyldunáminu hér á landi ef hún verður látin óátalin. Slíkt kerfi hefur verið reynt erlendis og af því hlotist mjög misjöfn reynsla. Um það hefur staðið styrr og stórpólitísk átök, og spurningin er sú, hvort við íslendingar göngum fúsir inn á þessa braut eða hvort við viljum byrgja brunninn í tæka tíð. Í raun og veru, svo að maður tali alveg hreint út úr pokahorninu: Ætlum við að líða þessa vitleysu? Þessari spurningu verður Alþ. að svara. Ég hef tjáð hæstv. ráðh., að ég mundi láta þessar áhyggjur mínar hér í ljós og ég vil að hann upplýsi þingið, hvernig slíkt hefur borið að, og gefi þinginu tækifæri til að taka afstöðu til þessa þýðingarmikla máls í menntamálum okkar.