28.02.1977
Neðri deild: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil nú strax taka það fram í beinu framhaldi af síðustu orðum hv. fyrirspyrjanda, að ég mun ekki leggja gerð prófa fyrir Alþingi á meðan ég er ráðh. Ég álít að það heyri ekki undir löggjafarmál samkv. lögum þar um. Mér fannst eðlilegt að verða við því að taka þátt í að svara fsp. hv. þm. utan dagskrár, enda þótt ég sé satt að segja í nokkrum vafa um að málið sé á því stigi núna að það sé í sjálfu sér eðlilegt eða gagnlegt að taka það fyrir hér á Alþ. utan dagskrár.

Það hefur þegar orðið umr. um þetta mál í fjölmiðlum og það er kannske spurningin fyrst og fremst, hvort ástæða sé til þess að taka þetta hér inn á Alþ. til umr. eður ei, hvort yfirvofandi er eða þegar orðin einhver tregða á upplýsingum um það sem er að gerast í þessu máli. Það, sem hefur komið fram í fjölmiðlum til þessa, er í örstuttu máli það, að útvarpið greindi frá óánægju sem hefði komið í ljós, daginn eftir kom það viðtal í Morgunblaðinu sem hv. þm. greindi frá. Samdægurs var tekinn útdráttur úr því í fjölmiðlum, og samdægurs og útvarpið birti þennan útdrátt kom grg. frá menntmrn. í fréttatíma útvarpsins þá um kvöldið, þar sem rakin voru nokkur þau atriði, sem í viðtalinu eru nefnd, og jafnframt því lýst yfir, að nánari grg. frá rn. yrði tekin saman og birt innan tíðar. Mér sýnist því engar horfur á að þarna sé nein tregða á upplýsingum fram undan og þess vegna hefði ekki verið nein sérstök ástæða til þess að taka þetta til meðferðar hér utan dagskrár. En það er hins vegar mat hv. þm. Því síður er ástæða til þessa, að ég fékk að vita af þessu í morgun eitthvað um kl. 10.30, var þá að fara á fund sem ég hafði verið boðaður á með fleirum um kl. 11 og annan fund kl. 12 svo að enginn tími vannst til þess að taka saman neitt nýrra í málinu heldur en það sem fram hafði komið í útvarpi og víðar og allir í sjálfu sér hafa aðgang að, því það er mjög auðvelt að fá handrit af fréttum hjá Ríkisútvarpinu.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að með grunnskólalögunum og jafnvel án grunnskólalaganna, jafnvel án þess að nokkur ný löggjöf hefði verið sett, þá hlutu menn að hefjast handa um nokkra breytingu á námsskipan og þar með prófaskipan frá því sem verið hafði um nokkuð langa hríð. Ég held að nálega allir, a. m. k. þeir sem í menntmrn. starfa, hafi verið sammála um að þetta var nauðsynlegt. Það rak svo vitanlega á eftir að sett var ný löggjöf þar sem beinlínis var gert ráð fyrir því að slík nýskipan bæði á námsefni og námsmati ætti sér stað.

Ég vil leggja áherslu á í framhaldi af þessum orðum, að fram hefur farið að mínum dómi mjög ítarleg kynning á því sem í bígerð var. Það hefur ekki komið skyndilega. Ég minni á það að í Fréttabréfi frá 15. nóv. s. l., Fréttabréfi menntmrn., sem m. a. öllum hv. alþm. er sent og fjölmörgum mönnum í skólakerfinu, fjölmiðlum og fleiri aðilum, þar er mjög ítarleg grg. um breytingarnar á námsmatinu. Síðar er enn nánari grein gerð fyrir einstökum smærri atriðum í fleiri bréfum til skólastjóra og kennara frá 9. og 10. des., en það er náttúrlega ekki von að hv. þm. hafi fengið þau í hendur. En í nefndu Fréttabréfi er mjög ítarlega um þetta fjallað. Ég vil einnig minna á það, að löngu áður en þessar upplýsingar voru gefnar hafði þetta verið rætt eða kynnt á líkan hátt í Fréttabréfi rn. frá því að mig minnir haustið 1975, það var í 9. Fréttabréfinu, og einnig í dreifibréfum, bæði almennum dreifibréfum til skólanna og dreifibréfum þar sem fjallað var um einstakar námsgreinar sérstaklega. Þetta finnst mér skipta miklu máli að hv. þm. sem aðrir geri sér ljóst, að mikill undirbúningur hefur átt sér stað áður en þessi breyting er gerð og að leitast hefur verið við af hálfu rn. að kynna hana sem allra rækilegast sem allra flestum, þeim sem hlut eiga að máli, fyrst og fremst innan skólakerfisins, en einnig t. d. hv. alþm. sem eins og eðlilegt er hljóta að láta sig miklu varða hvernig svo þýðingarmikil löggjöf sem grunnskólalöggjöfin er framkvæmd.

Ég tel það nánast útilokað að fara að ræða hér faglega um þessi mál, Ég tel að hvorki sé eðlilegt að taka til þess tíma í fsp.- tíma í hv. þd. né heldur hef ég af ástæðum, sem ég greindi frá áðan, haft tækifæri til þess að búa mig undir slíka umr. eins og ég hefði viljað. Og ég minni aftur á það, að samfelldar upplýsingar hafa komið fram og munu koma fram áframhaldandi í blöðum, ríkisfjölmiðlum og í Fréttabréfi menntmrn. Ég hefði að vísu getað einfaldlega gert það að mínu innleggi í þetta mál efnislega, flutt hér kaflann, útlistanirnar í Fréttabréfi menntmrn. nr. 17 frá 15. nóv. s. l., þar sem þetta er, eins og ég áðan sagði, útlistað mjög rækilega. En mér finnst ekki eðlilegt að gera það hér og nú. Þetta eru einar 9 vélritaðar síður.

Ég sagði áðan að breytingar hefðu verið orðnar óhjákvæmilegar á námsskipan og námsmati. Allir hv. þm. hafa orðið varir við þá miklu gagnrýni sem fram kom á undanförnum missirum á skólakerfið. Það var gagnrýnt hversu litlar breytingar þar hefðu orðið, hversu mikil stöðnun hefði orðið, og var oft tekið sterkt til orða um þetta.

Ég vil leggja áherslu á það í framhaldi af orðum hv. fyrirspyrjanda um að mikið vald væri lagt í hendur einnar n. að gera og ganga algerlega frá prófum, að þetta er ekki rétt. Prófanefnd hefur ekki úrslitaorðið um þessi mál. Það er prófanefndin sem vinnur þetta upp í fyrstu, hún er eðlilegur aðili til þess og til þess sett, en jafnframt er fjallað um málið í skólarannsóknardeild rn., sem prófanefnd starfar undir að sjálfsögðu, og síðan kemur málið til ráðh. og ráðuneytisstjóra áður en þetta er látið út ganga.

Ég skal manna fúsastur viðurkenna að slíkar breytingar sem hér er verið að gera eru ákaflega vandasamar. Það er mikill vandi á höndum fyrir alla aðila sem að þeim vinna og þá náttúrlega ekki síst fyrir ráðh. sem síðastur skrifar undir bréfin áður en þau ganga út. Og mér finnst það ekki nema vonlegt og í raun og veru óhugsandi annað en af þeim þúsundum manna, sem vinna við kennslu á Íslandi, hljóti alltaf að vera nokkur hópur sem er mjög gagnrýninn á slíkar breytingar og kannske tekur þeim ekki alveg opnum örmum. Ég held að það sé útilokað að gera jafnumfangsmiklar breytingar eins og þær, sem hér er um að ræða, án þess að fram komi einhver fremur neikvæð viðbrögð, kannske ekki alltaf að nægilega vel athuguðu máli. Og til er svo það líka, að fyrir hrein mistök verða óþægindi. Ég man eftir því, að það kom upp gagnrýni í fyrra í sambandi við breytingu, sem þá var verið að gera, að breytingin hefði ekki verið kynnt með nægilegum fyrirvara. Og þá kom það hreinlega í ljós, að bréf rn., sem sent var með mjög löngum fyrirvara, hafði hreinlega lagst til hliðar — svona eins og getur náttúrlega alltaf átt sér stað — og kom sér mjög illa. Er ekki til mikilla bóta, eins og þá átti sér stað, að fara með það í blöðin. Þó að það hins vegar kannske skaði ekki mikið, þá er það varla til bóta. Málið er nú við þessa fyrstu tilraun á mjög viðkvæmu stigi.

Það hafa orðið nokkur mistök við framkvæmdina núna. Hv. þm. sagðist ekki gera þau sérstaklega hér að umtalsefni. Hins vegar var fjallað um þau í nefndri frásögn í Morgunblaðinu og allt að því gefið í skyn að um misferli eða mjög alvarleg mistök a. m. k. hefði verið að ræða. Ég vil láta það koma fram hér, að það sem ég hef getað kynnt mér um þessi mistök — það eru þrjú atriði sem ég hef heyrt nefnd — þá hefur þetta komið fram:

Við gerð prófa í ensku, sem notuð voru í hljóðvarpi og á segulbandsspólum, urðu mistök, mistök sem ég get ekki á nokkurn hátt afsakað og á satt að segja mjög erfitt að sætta mig við að skuli geta átt sér stað hjá fólki sem er til þess sett að vinna upp svo þýðingarmikil verkefni sem þarna er um að ræða. Ég get aðeins sagt til viðbótar þessum orðum um þetta atriði, að það verður allt gert sem unnt er til þess að koma í veg fyrir að þessi mistök hafi áhrif á niðurstöður prófanna og þá sérstaklega í þá veru að skaða þá sem próf taka.

Í annan stað hefur það komið fyrir og verið gagnrýnt, að próf, sem var tímatakmarkað, hafi verið framlengt um 10 mínútur. Við þá athugun, sem ég hef getað látið gera nú þegar, virtist koma í ljós, að af ástæðum, sem örðugt var að ráða við, byrjaði þetta tiltekna próf í þessum tiltekna skóla um það bil 10 mínútum síðar en það átti að byrja og til þess að jafna það upp var tíminn framlengdur um 10 mínútur.

Þá kom það fyrir í einum skóla, að hátalarakerfi skólans reyndist ekki vera í lagi þegar til átti að taka. Um það vil ég segja líkt og ég sagði áðan um gerð prófanna og mistökin við þau, að það er mjög erfitt að afsaka svona lagað. Það er mikið í húfi þegar á að taka próf, og það er náttúrlega óforsvaranlegt af viðkomandi aðilum að hafa ekki prófað kerfið fyrir fram. Vera má þó að það hafi verið í lagi síðast þegar það var notað, og maður skyldi þess vegna ekki að litt athuguðu máli kasta steini að þeim sem hér áttu hlut að máli. En þannig var þetta þarna, og þá var gripið til þess eina ráðs, sem tiltækt var, að nota segulbandið. Það er mishermt í nefndri frásögn, að í nokkrum skólum hafi prófið verið tekið upp eftir útvarpi. En prófið var bæði flutt í útvarpi og það var tekið á bönd og skólum, sem þess óskuðu, gefinn kostur á því að fá þessi bönd og nota þau jafnframt.

Mér fannst rétt að láta þetta koma fram, því það er hægt á tiltölulega stuttum tíma, þó að ekki vilji ég fara út í faglegar umr. um þetta mál í heild hér í fsp.-tíma.

Ég vil svo leggja áherslu á það, að nánari grg. heldur en birt var í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi, þ. e. frá menntmrn., nánari grg. verður tekin saman og birt svo fljótt sem unnt er. Og ég vil enn fremur að lokum leggja áherslu á það, að námsmat og uppbygging náms í skólakerfinu, í þessu tilfelli í grunnskólanum, er vitanlega og á að vera stöðugt í endurskoðun, þó að auðvitað verði að forðast skyndibreytingar. En hún á að vera og er stöðugt í endurskoðun. Á þetta atriði var rækilega bent, t. d. í Fréttabréfi menntmrn. sem ég var að vitna í og hv. þm, fengu í hendur í nóv., en þar segir um þetta atriði á þessa leið:

„Þrátt fyrir þá skipan, sem hér hefur verið lýst við námsmat við lokun grunnskóla, er ekki þar með sagt, að hér sé um endanlega lausn að ræða. Fylgst verður vel með kostum og göllum þessa fyrirkomulags, eins og þeir birtast á hverjum tíma, og nauðsynlegar lagfæringar verða gerðar þegar í ljós kemur, að þeirra er þörf.“

Á þetta var lögð áhersla í lok þessarar grg., sem ég nefndi, og ætla ég að svo hafi jafnan verið þar sem menntmrn. hefur látið frá sér heyra um þessi umfangsmiklu mál.