01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 325 að bera fram svo hljóðandi fsp. til hæstv. forsrh. um flutning ríkisstofnana:

„1. Er ætlunin að leggja fram á þessu þingi frv. um flutningsráð ríkisstofnana.

2. Hvað hefur ríkisstj. aðhafst eða ákveðið varðandi álit stofnananefndar, sem fram kom í árslok 1975?“

Síðla árs 1975 kom fram nál. um flutning ríkisstofnana, mikil bók, eftir að ég hygg allmikið starf og þokkalega undirbúið. Hér var og er vissulega um vandasamt verkefni að ræða. Engum blandast þó hugur um, sem hugsa vill, að aðgerða í þessum efnum er þörf, hverja leið sem menn velja að því marki. N. benti á þrjár leiðir sem allar bæri að athuga samhliða, þ. e. beinan flutning stofnana, útibúastofnun og deildaskiptingu, allt eftir eðli, umfangi og verksviði hverrar stofnunar. N. gerði sér ljóst að til þessa þyrfti skipulega áætlun, sem stjórnvöld gengjust fyrir, þó n. legði hins vegar áherslu á að góð grundvallarumræða færi fram um öll þessi mál nokkurn tíma áður en hafist yrði handa. Hún lagði því fram frumvarpsdrög að flutningsráði ríkisstofnana, sem hefði með yfirstjórn og skipulag þessara mála að gera.

Um það er nú spurt, hvort ríkisstj. hyggist bera fram á þessu þingi slíkt frv. eða frv. svipaðs efnis, sem hlýtur að vera forsenda þess að unnt sé að hefjast handa um framkvæmdir á þessu sviði.

Reynsla frændþjóða okkar er öll á þann veg, að ekkert dugi annað en skipulegt átak sem byggist á róttækum aðgerðum. Yfirstjórn þarf hér á að hafa, og hjá því verður vart komist með viðamikið verkefni að setja til þess vissan aðila í stjórnkerfinu að sjá þar um, svo sem við lögðum til með flutningsráðinu. Því er nú sérstaklega um þetta spurt.

Í öðru lagi leikur mörgum forvitni á að vita hvað ríkisstj. aðhefst í þessu máli eða hefur þegar ákveðið í aðgerðum. Það er mikið spurt á almennum fundum út um land um það, hvað og hvort eitthvað eigi að gera með þetta álit. Eflaust má um sumt deila í því, en þó er það eins vel grundað og ályktanir þar af dregnar sem n. hafði möguleika á á sínum tíma. Jafnframt vakna upp nýjar spurningar. Breytingar á starfsemi ýmissa stofnana eru mjög örar, og eitt er víst að frekari dreifing opinberra stofnana frá Reykjavík út á landsbyggðina er allri þjóðarheildinni til góðs og Reykjavík alveg eins. Sú hefur a. m. k. orðið raunin hjá norðmönnum, þó ekki séu þar eins hrikaleg hlutföll að vísu milli höfuðborgar og landsbyggðar sem hér. Um það er því einnig spurt, hvað ríkisstj. hafi aðhafst eða ákveðið hér um. Þetta er ekki hvað síst gert með tilliti til svara hæstv. forsrh. á þingi í fyrra við fsp. hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur. Þau svör hans gáfu vissa von um einhverjar aðgerðir þegar á þessu ári.