01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svörin, þó að ljóst sé á þeim að málið er enn skammt á veg komið, og vil benda á í því sambandi, að n. sem slík taldi sér skylt að eiga mjög nánar viðræður við allar þessar stofnanir, bæði þær sem hún gerði till. um að yrðu stofnuð útibú frá, deildir frá eða yrðu fluttar í heild. N. átti mjög ítarlegar viðræður við forstöðumenn allra stofnananna, sem hún náði til, og margra þeirra oftar en einu sinni. Ég held að mér sé óhætt að segja það, að þau viðtöl muni öll vera geymd, og viðhorfin hafa varla breyst mjög mikið hjá þessum aðilum og hér er að nokkru um endurtekningu að ræða. Það er vart hægt að segja að viðbrögð þessara forstöðumanna hafi verið neikvæð, nema ef átti að flytja stofnunina í heild út á landsbyggðina, þá ýfðust sumir nokkuð harkalega við og þóttu sem öll mannréttindi væru af þeim tekin ef þeir ættu að þurfa að flytjast eins konar hreppaflutningi út á land héðan af þessu svæði. Viðbrögð manna voru að vísu ólík um margt, og ég hygg að viðhorf þessara manna séu öll geymd og forsrn. eigi aðgang að þeim öllum. Það getur svo sem verið nógu fróðlegt fyrir þá ágætu menn, sem þar vinna, að bera saman það, sem þeir segja í dag, og það, sem þeir sögðu okkur á sínum tíma.

Ég ítreka það, sem ég gerði í fyrra, að hér er um mjög mikið og brýnt byggðamál að ræða. Aðstöðujöfnun fólks yfirleitt felst ekki síst í því, að það eigi greiðari aðgang að opinberri þjónustu hvers konar en það hefur í dag. Sama er að segja um það, að við þurfum að vinna að því að eðlileg vald- og áhrifadreifing hinna ýmsu opinberu stofnana verði sem allra mest, því hún hlýtur að vera öllum til góðs, stofnunum jafnt sem þjóðarheildinni.

Ég held að það sé ljóst, að viss aðili í stjórnkerfinu þurfi að hafa alla forustu um framkvæmd ef farsællega er að staðið og ef meining hæstv. ríkisstj. er að gera eitthvað í þessu efni. Forvinnan er auðvitað eðlileg hjá sjálfu forsrn. eins og hæstv. forsrh. kom inn á. En um leið og á að fara að framkvæma þetta og ef á að taka þar rösklega til hendi, eins og ég hef löngum gert mér vonir um að yrði kannske gert einhvern tíma, þá þarf um leið að gera áætlun sem verður bæði raunhæf, en um leið róttæk, og síðan að gera vissar ráðstafanir, sem eru töluvert fyrirhafnarmiklar og kosta töluvert líka til þess að hrinda þessu í verk. N. hafði aldrei hugsað sér neitt bákn í sambandi við þetta flutningsráð, en hún gerði sér ljóst að það þyrfti skipulega vinnu og væri eðlilegast að Alþ. skipaði af sinni hálfu ráð eða yfirnefnd sem hefði þetta hlutverk, svo sem hún gerði ráð fyrir.

Ég vil alveg sérstaklega benda á í sambandi við alla vinnu að þessu, ef fyrirhugað er að vinna eitthvað að þessu í alvöru, að núv. framkvæmdastjóri byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins, Bjarni Einarsson, var í þessari n., en ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að haft verði fullt samráð á milli byggðadeildar Framkvæmdastofnunarinnar annars vegar og forsrn. hins vegar að þessum málum öllum.