01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

166. mál, flutningur ríkisstofnana

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm., fyrirspyrjandi, taldi að hér væru e. t. v. ekki nógu hröð handtök í tengslum við þær hugmyndir sem n., er fjallaði um flutning opinberra stofnana, hefði látið frá sér fara. Ég vil í því sambandi rifja upp að n. sjálf tók sérstaklega fram hvernig hún hugsaði sér að málsmeðferð yrði hagað. Með leyfi forseta, segir svo í bréfi n.:

„Reynslan af störfum sams konar nefnda í Noregi og Svíþjóð sýnir að mjög gagnlegt ef ekki nauðsynlegt er að till. n. verði til almennrar og opinberrar umfjöllunar a. m. k. í nokkra mánuði eða missiri áður en stjórnvöld taka ákvarðanir um afstöðu sína til einstakra tillagna.“

Hér er talað um nokkur missiri, og við erum nú ekki komnir nema á þriðja missiri frá því að álit n. barst stjórnvöldum. Stjórnvöld hafa notað þann tíma til þess að dreifa nál. og óskað beinlínis eftir umsögnum um nál.

N. segir enn fremur í bréfi sínu, með leyfi forseta: „N. þykir einnig rétt að kynna rn. á þessu stigi þrjár mismunandi aðferðir sem stjórnvöld geta beitt við fyrsta áfanga ákvarðanatöku um flutning ríkisstofnana.“ Allar þessar aðferðir eru bundnar við að hin almenna umræða hafi farið fram um nokkurt skeið. Ein af þessum aðferðum er stofnun svokallaðs flutningaráðs. Það er sem sagt álit n. sjálfrar, að til stofnunar flutningsráðs eða annarra þeirra aðgerða, sem n. bendir á, komi ekki fyrr en nál. hafi verið til opinberrar umræðu í nokkur missiri.

Ég tel rétt að þetta komi fram. Ég tel að meðferð málsins hafi verið með eðlilegum hætti og það sé rétt að þm. og öðrum gefist kostur á að lesa umsagnir stofnananna um álit nefndarinnar.

Það er einnig rétt, sem fram kom hjá hv. 9. landsk. þm. áðan, að lítil opinber umræða hefur farið fram um álit stofnananefndar. Ég vakti einmitt athygli á þessu í maímánuði s. l. og taldi þá e.t.v. vafasamt að draga af því þá ályktun, að lítill áhugi væri á þessu máli hjá þeim sem það snertir. En eftir því sem tíminn líður og málið hefur verið til umfjöllunar lengur, þá læðist vissulega að manni sá grunur, eða sú skoðun hlýtur að styrkjast, að á þessu máli sé takmarkaður áhugi, og kann að vera ástæða til að íhuga hvaða ályktanir sé hægt að draga af slíku.

Ég vil ennfremur láta það koma fram, að sem betur fer hefur farið í vöxt að ýmsar ríkisstofnanir hafi sett upp starfsstöðvar úti á landi. Hér hefur verið minnst á Hafrannsóknastofnunina og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Einnig má nefna Vegamálaskrifstofu, Póst og síma. Í fræðslumálum hefur þetta og komist á að nokkru leyti.

Ég held að við náum aldrei verulegum árangri í að dreifa valdinu út til fólksins, þar sem það býr, eins og mér skilst vera skoðun velflestra sem um þessi mál hafa fjallað, nema við séum reiðubúin til þess fyrst og fremst að draga að einhverju leyti úr ríkisafskiptum þar sem það er unnt, í öðru lagi að gefa sveitarfélögum tækifæri til að glíma við fleiri verkefni, skipta svo verkefnum milli ríkis og sveitarfélaga að þau fái fleiri og veigameiri verkefni í sinn hlut og þá væntanlega tekjustofna ásamt þeim til að standa undir þessum nýju verkefnum. Þetta tvennt álít ég skipta mestu máli. En í þriðja stað væri eðlileg og heilbrigð þróun að ríkisstofnanir og verkefni, sem væru á vegum ríkisvaldsins, væru með starfsstöðvum slíkra ríkisstofnana flutt sem mest út á landið og stjórnun þeirra mála, sem skipta staðarmenn, sé í þeirra höndum.