01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

260. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil færa hæstv. sjútvrh. þakkir fyrir þau svör sem hann hefur gefið og ég tel vera fullnægjandi eins og mál horfa við. Og ég vil færa honum bestu þakkir fyrir þann mikla áhuga sem hann hefur sýnt á framgangi þeirra mála sem hér er um fjallað, eins og raunar flestra þátta eða kannske allra þátta sjávarútvegsmálanna. Ég hygg að öðrum sé ekki betur treystandi en honum til þess að knýja á um það, að allt verði gert, sem skynsamlegt er, til þess að nýta þessi miklu auðæfi einmitt á þann veg að endurnýja þessar verksmiðjur og gera það sem allra fyrst.

Að því er Skagaströnd varðar og höfnina þar, þá er rétt að þar hefur ekki verið nægilega góð aðstaða fyrir hin stærri fiskiskip. En svo vill til að stórt átak verður gert í hafnarmálum skagstrendinga á yfirstandandi ári, og þá er öruggt, að ég held, að jafnvel hin allra stærstu skip geti athafnað sig í innri höfninni og það raunar alveg við verksmiðjuvegginn, þannig að ekki þurfi að óttast að erfiðleikar verði af þessum ástæðum varðandi vinnslu loðnunnar.

Það er sérstaklega ánægjulegt að nú skuli vera athugað að auka geymslurými verksmiðjanna á Siglufirði, og kemur það auðvitað að svipuðum notum og að taka enn eina verksmiðju þar til vinnslu.

Það var varla þess að vænta, að hæstv. ráðh. gæti svarað þeirri síðbúnu fyrirspurn sem hér kom fram varðandi SRP, gömlu verksmiðjuna sem í notkun er. En ég leyfi mér að beina þeim tilmælum til hans, að það verði athugað af þeirri n., sem um þessi mál fjallar, hvort ekki væri hugsanlegt, um einhvern tíma a. m. k. á hverju ári, að nota þá verksmiðju einnig til loðnuvinnslu þótt hún verði um sinn að sinna líka vinnslu á beinum. Einnig kæmi til greina að lítil verksmiðja yrði byggð eða húsnæði SRN eða SR-30 notað til þess að setja upp litla verksmiðju til að vinna beinin, en nota hin meiri afköst SRP-verksmiðjanna til loðnuvinnslu.