26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er heldur tilgangslitið að þreyta langar umr. um þessa till. til þál. um staðfestingu á samkomulaginu sem gert var við ríkisstj. Bretlands um veiðar breskra togara hér við land. Samkomulagið var gert til 6 mánaða og eru aðeins um 5 vikur eftir, þannig að búast má við því, eins og hér hefur þegar komið fram hjá síðasta ræðumanni, að þessi till. verði varla afgr. hér í þinginu þegar tímabilið er útrunnið.

Það var að sjálfsögðu deilt mikið um þetta samkomulag þegar það var gert í júní og margir kröfðust þess að Alþ. væri þá kallað saman. Hitt þótti mér heldur verra, hvernig að þessu var staðið, því það var augljóst hverjum manni að ríkisstj. beitti sér af harðneskju fyrir því að ljúka störfum Alþ. með hraði fyrir ákveðinn dag til þess að hæstv. forsrh. og utanrrh. gætu farið utan með ákveðinni flugvél til þess að ganga til þessara samninga. Það hefði ekki meira þurft en að láta Alþ. sitja áfram og ljúka ýmsum málum, sem þingið hljóp frá, í svo sem eina eða tvær vikur. Þá hefði þingið með eðlilegu móti getað fjallað um samningasamkomulagið strax.

Það er rétt hjá hæstv. utanrrh., að fordæmi eru mörg fyrir því að viðamiklir samningar við önnur ríki hafa verið gerðir á þennan hátt og Alþ. beðið um að staðfesta þá löngu síðar. Ég tel að þetta sé eitt af þeim stjórnarskráratriðum sem við verðum á næstunni að gera okkur grein fyrir. Er það vilji okkar að meiri háttar samningar við önnur ríki skuli þurfa staðfestingar Alþ. eða ekki? Ef svo er, verður að setja um það ákvæði hvaða samningar þurfi staðfestingu Alþ. og þeir samningar taki síðan ekki gildi fyrr en sú staðfesting liggi fyrir. Þannig mun þessum málum vera háttað hjá ýmsum öðrum þjóðum. Hitt get ég ekki tekið undir, ef einhverjir hafa sagt að um stjórnarskrárbrot væri að ræða. Þessi mál eru óljós og þau hafa verið túlkuð á þann hátt sem er Alþ. óhagstæðast, ekki aðeins í þetta skipti, heldur oft áður. En það er alveg jafnt gagnrýni vert nú eins og það hefur verið áður, þegar þannig var að farið.

200 mílna landhelgin er liðlega eins árs gömul og er athyglisvert að rifja upp fyrir sér allar þær tilraunir sem gerðar voru til þess að ná samningum við breta um veiðar þeirra í þessari nýju landhelgi. Ég býst við að hv. alþm. reki minni til þess, að í fyrstu viðræðunum, sem hófust í sept. 1975, héldu áfram í okt. sama ár og síðan í nóv., höfðu bretar undir forustu Hattersley aðstoðarutanríkisráðherra alveg furðulega óraunhæfar hugmyndir. Þeir voru þá að tala um afla sem átti ekki að verða minni en 100 þús. tonn. Það var mál manna hér heima að ýmsir væru svo hlynntir því að gera samkomulag við breta, eitthvert samkomulag, að þeir vildu reyna að tefla við þá í því skapi sem þeir voru þá í, og hefði andstaða gegn samningum ekki verið eins sterk í landinu og hún þá reyndist vera, hefði vel getað komið til þess að samið væri upp á 80–90 þús. smálestir. Ég tel því að andstaðan gegn samningum við breta hafi þá komið að góðu gagni, og ég býst við að andstaðan á því stigi málsins hafi ekki aðeins verið í stjórnarandstöðuherbúðum, heldur náð langt inn í raðir ríkisstj., enda varð niðurstaðan sú í ríkisstj., sem betur fer, að ekki var gengið til samninga á þeim kjörum.

Þegar samningar voru gerðir í Osló var það um allt annað magn, sem að vísu er nú umdeilt og þó ærið mikið eins og aðstæður allar eru. Um þessa samninga var mjög mikið deilt, sem vænta mátti, og Alþfl. tók formlega afstöðu á móti þeim.

Ég skal að vísu viðurkenna, eins og ég hef oft gert áður opinberlega, að í sambandi við þessa samninga er eitt atriði sem hefur sérstöðu. Það stóðu yfir átök milli breska flotans og Landhelgisgæslunnar hér við land, og það var öllum mönnum ljóst að ekki þurfti annað en slæmt slys, sem gat komið fyrir hvenær sem var, til þess að þau átök leiddu til skaða, skipsskaða og jafnvel mannskaða. Ýmsir geta lítið þannig á, að það hafi verið kaupandi hvaða verði sem var að bægja þessari hættu frá. Þetta sjónarmið get ég að vissu leyti viðurkennt. En að öðru leyti taldi ég að þessir samningar hafi verið fjarri því að vera viðunandi fyrir okkur íslendinga.

Sú röksemd með samningsgerðinni, sem hæst hefur verið haldið á lofti, er að bretar hafi með samningunum veitt okkur viðurkenningu fyrir 200 mílunum. Sú viðurkenning er ekki formleg, en alltaf má halda því fram að samningsgerðin sé óbein viðurkenning. En ég vil vekja athygli á því, að s.l. vor og sumar og fram til þessa dags hefur viðurkenning sáralitla eða jafnvel enga þýðingu fyrir okkur íslendinga lengur. Fyrir einu ári, þegar við stóðum einir í þessum hluta heims með 200 mílur, hafði hvaða viðurkenning sem við gátum fengið siðferðilega og pólitíska þýðingu. En þegar svo var komið málum, að ríki eins og Mexíkó, Bandaríkin og Kanada höfðu tekið ákvörðun um útfærslu í 200 mílur, hafði þessi staða breyst gersamlega. Þá var það staðreynd, sem hæstv. forsrh. fullyrti í ræðu sinni í gærkvöld og verður ekki mótmælt, að 200 mílur ern þjóðaréttur í dag. Það verður engin þjóð sökuð um að brjóta alþjóðalög með því að færa út í 200 mílur. Við vissum það þegar í júnímánuði, um svipað leyti og samningarnir stóðu yfir í Osló, að sérfræðingar norsku ríkisstj. höfðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri lagalega og pólitískt fullkomlega verjandi að færa út í 200 mílur. Enda þótt Hafréttarráðstefnan hefði ekki horið tilætlaðan árangur, hafði þjóðaréttur þróast með framkvæmd veigamikilla ríkja og með þeim vilja fjöldamargra ríkja sem þegar hafði komið fram á ráðstefnunni. Það var óhætt að líta svo á að 200 mílur væru orðnar staðreynd og við þyrftum ekki að borga bretum með neinum afla, ekki einum einasta þorsk, fyrir að þeir veittu okkur einhvers konar viðurkenningu, sem raunar var ekki bein og formleg viðurkenning. Það er því haldlítið að minni hyggju að telja að viðurkenningaratriðið hafi vegið þungt á þessum tíma. En ég ítreka það, að einu ári áður, þegar við stóðum einir með 200 mílur í þessum hluta heims og höfðum allar nágrannaþjóðir okkar beinlínis á móti okkur, en Hafréttarráðstefnan var rétt að byrja, þá skipti viðurkenningin miklu máli.

Ef við lítum á þennan samning, má segja að við höfum í rauninni unnið tvennt, við fengum tvö atriði á móti þeim hlunnindum sem við veittum bretum. Við fengum breska flotann til þess að snúa heim, við keyptum af okkur ofbeldið með 50 þús. tonnum eða meira af þorski.

Hitt atriðið var „bókun sex“. Ég er þeirrar skoðunar að bókun sex sé mjög mikilvæg og það sé furðuleg þröngsýni að halda fram að markaðurinn í Efnahagsbandalaginu skipti okkur ekki máli svo og að tala um minni greinar sjávarútvegsins sem njóta mestra hlunninda þarna, eins og rækju, hrogn o.fl. eins og þær séu einskis virði. Það tel ég líka vera ómaklegt. Engu að síður skulum við minnast þess, að við höfum gert samninga við Efnahagsbandalagið og við höfðum samið við það um þau hlunnindi sem bókun sex nær til. Efnahagsbandalagið beitti okkur efnahagslegum þvingunum út af landhelgismálinu með því að láta hana ekki koma til framkvæmda. Atriði nr. tvö, sem ég tel að við höfum fengið: Við keyptum af okkur efnahagslegar þvinganir. hetta finnst mér það sem raunverulega gerðist. Og þetta er ekki skemmtileg saga. Herskipaofbeldið og efnahagslegar þvinganir báru þennan árangur.

Nú er sagt að ekki komi til greina neinir frekari samningar nema þeir verði gagnkvæmir. En af hverju datt engum í hug að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir, úr því að það átti að semja, þegar það var gert? Hefði ekki verið gott að fá bretana til þess að heita því þá að þegar til kæmi mundu þeir stuðla að því að veita okkur síldveiðileyfi. Þeir vissu að það var aðeins mánaðaspursmál þangað til þeir færðu út, og loforð og fyrirætlanir í þessum efnum gætu verið mikils virði ef menn vildu sækjast eftir þeim.

Að sjálfsögðu skiptir í dag framtíðin mestu máli. Eins og margir spáðu í júnímánuði er nú allt útlit fyrir að það verði hart að okkur sótt um áframhaldandi undanþágur, hvort sem það verður Efnahagsbandalagið sjálft, sem sækist eftir samningum eða hvort bretar verða að gripa til þess sjálfir af því að samkomulag næst ekki í Efnahagsbandalaginu fyrir þann tíma. Það eru allviðamikil átök sem hafa átt sér stað innan bandalagsins í Brüssel, og er t.d. athyglisvert hvað er að gerast í sambandi við breta og íra. Þeir heimta að fá einkalögsögu innan 200 mílnanna, sem hinar bandalagsþjóðirnar fá ekki leyfi til að veiða á. Írar gerðu þetta að skilyrði og hindruðu samkomulag nú fyrir skömmu, en heimtuðu að fá 50 mílur. Mér er sagt að það sé skoðun íranna að hin gífurlega andstaða gegn því að þeir fengju einkalögsögu, 50 mílur eða eitthvað nálægt því, hafi stafað m.a. af því að bandalagið var að hugsa til væntanlegra samninga við íslendinga. Ef þeir ganga inn á að bretar og írar fái að hafa alger einkaafnot af fyrstu 50 mílunum, þá gætu þeir illa heimtað það í samningum við okkur að fá að fara inn fyrir sams konar línu hér, svo að allt hangir þetta saman og er okkur sjálfsagt til nokkurra upplýsinga.

Ástandið hér við land er þannig, að ég á ákaflega bágt með að sjá hvað það er sem við gætum boðið, þegar við fáum að vita það, sem ríkisstj. virðist bíða eftir, hvers Efnahagsbandalagið óskar, við vitum að við erum þegar komnir langt fram fyrir þau mörk í þorskveiðum sem vísindamenn töldu að væru það sem mest mætti veiða á þessu ári, og eru þó allmargar vikur af árinu eftir. Þetta gefur okkur að sjálfsögðu ástæðu til að vera áhyggjufullir, þrátt fyrir það að nokkur merki þess hafi komið í ljós að árgangar séu á ferðinni sem tekist hafi með besta móti.

Ég tel tvímælalaust að við hljótum að sýna ítrustu tregðu í þessum efnum. Það er ekkert gaman að því fyrir þm., sem hafa í dag verið hlaupandi niður í herbergi á neðri hæðinni til að ræða við stóra sendinefnd vestan af Snæfellsnesi sem hefur þá sögu að segja að afli hafi þar hrunið svo niður að þeir sjái ekki annað en neyðarástand fram undan, ef ekki verður á einhvern hátt bætt úr því, og koma svo hingað upp oa skeggræða við ríkisstj. sem bíður eftir að fá fréttir frá Brüssel um það hvað viðræður við aðrar þjóðir eigi að snúast um. Það kann að vera að hæstv. ráðh. þyki ekki kurteisi að gefa yfirlýsingar um það fyrir fram, áður en sest er að samningaborðinu, hvað búi inni fyrir. En ég vona þá að orð stjórnarandstæðinga, sem ekki eru bundnir af diplómatískri kurteisi, berist og þeir, sem ríkisstj. ætlar að taka upp samninga við, frétti af því að íslenska þjóðin hefur áhyggjur af þessu og telur sig engan afla hafa til að veita öðrum. Ef þetta getur borist út, þá hafa hæstv. ráðh. gagnlegt nesti með sér, úr því að þeir fást ekki til að segja eitt eða neitt um það, hvað þeim sjálfum finnst um þessar samningshorfur.

Þar sem þeir fást ekki til að ræða um annað en það, að þeir ætli að tala við aðrar þjóðir sem þess kunna að óska, þá er í sjálfu sér tilgangslaust að skeggræða eða bollaleggja frekar um málið á þessu stigi. Verðum við að vænta þess, að í þetta skipti fái Alþ. að fylgjast með, og ef ríkisstj. stigur það ógæfuspor að gera nýja samninga, þá verði þeir staðfestir hér áður en þeir taka gildi, ef Alþ. telur slíka staðfestingu mögulega.

Ég tek svo fram, að í framhaldi af þeirri afstöðu Alþfl. mun hann ekki geta veitt þessari þáltill. stuðning sinn.