01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2354 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Leitað var til Heilbrigðiseftirlits ríkisins eftir svari við þessum spurningum og eru svör þess svo hljóðandi:

Veruleg bein afskipti af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins af starfsemi álversins í Straumsvík hófust ekki fyrr en 1972 þegar út komu eftirfarandi reglugerðir: 1) Heilbrigðisreglugerð fyrir Ísland frá 8. febr. 1972, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. 2) Reglugerð frá 15. júní 1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna.

Í síðar nefndu reglugerðinni er Heilbrigðiseftirliti ríkisins falið að fjalla um umsóknir um starfsleyfi þeirra, er reisa vilja verksmiðjur eða iðjuver, og gera rökstuddar tillögur um skilyrði slíks rekstrar ásamt með mengunarmörkum til heilbrrh. sem endanlega úrskurðar málið.

Í samræmi við reglugerðina sendi Heilbrigðiseftirlit ríkisins þáv. heilbr.- og iðnrh. umsögn sína um mengunarhættu við álverið í Straumsvík með bréfi 22. jan. 1973 og taldi óhjákvæmilegt að setja upp hreinsunartæki við álverið, er taka ættu megnið af flúorsamböndum úr ræstilofti verksmiðjunnar, þannig að komið verði í veg fyrir frekari flúormengun umhverfisins og þar með skemmdir á gróðri og hugsanlegt heilsutjón á mönnum og dýrum. Var ályktun þessi í fullu samræmi við samþykkt Heilbrigðisráðs Hafnarfjarðar og álit borgarlæknisins í Reykjavík og ráðstafanir sem sjálfsagðar eru annars staðar í heiminum þar sem álframleiðsla fer fram. Staðfesti rn. þessa skoðun Heilbrigðiseftirlits ríkisins með bréfi, dags. 31. jan. 1973, til Íslenska álfélagsins.

Ástæðan fyrir því, að hér er bent á kröfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins um hreinsibúnað í álverinu, er sú staðreynd að í umr. um þau mál hefur nær eingöngu verið einblínt á nauðsyn slíks varnarbúnaðar til verndar gróðri og heilsufari manna og dýra í næsta nágrenni verksmiðjunnar með tilliti til flúormengunar, en minna eða lítið sem ekkert verið rætt um þá staðreynd, að með uppsetningu slíkra tækja „batnar andrúmsloft á vinnustað mjög verulega“, svo að vitnað sé í orðalag og skoðun forráðamanna Íslenska álfélagsins í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins frá 23. des. 1975.

Það er skoðun Heilbrigðiseftirlitsins, að viðunandi andrúmsloft á vinnustað við álverið í Straumsvík verði ekki til staðar fyrr en uppsetningu og starfrækslu fullkomins hreinsibúnaðar til hreinsunar á ræstilofti verksmiðjunnar er komið í gang.

Hér fer á eftir skýrsla um heilbrigðis- og öryggiseftirlit ásamt rannsóknum þeirra aðila, er um þessi mál fjalla, sem lita má á sem svar við spurningum þessum um rannsóknir á mengun innan veggja álversins í Straumsvík eða öðrum atriðum sem kunna að vera hættuleg heilsu starfsmanna þar.

Héraðslæknirinn í Hafnarfirði og Öryggiseftirlit ríkisins sáu um heilbrigðis- og öryggiseftirlitið í álverinu frá upphafi byggingarframkvæmda í mars 1967 fram til 1969 og 1970, en þá bættust við í eftirlitið heilbrigðisfulltrúinn í Hafnarfirði og Heilbrigðiseftirlit ríkisins.

Einnig hefur um alllangt skeið verið starfandi trúnaðarlæknir við álverið, og síðan 1. mars 1976 hefur svo „hollustunefnd“ verið starfandi þar, en í þeirri nefnd á aðaltrúnaðarmaður verkalýðsfélagsins sæti.

Frá upphafi byggingarframkvæmda í mars 1967 hefur héraðslæknirinn í Hafnarfirði haft meira eða minna regluleg bein eða óbein afskipti af heilbrigðis- og hollustumálum starfsmanna við álverið í Straumsvík, þar með talið starfsumhverfi og ytri mengunarmál. Frá 1969 hefur heilbrigðisfulltrúinn í Hafnarfirði undir umsjón héraðslæknis séð um hið reglulega eftirlit fyrir hönd heilbrigðisnefndar hafnfirðinga.

Of langt mál yrði að telja upp alla þá mörgu og margvíslegu þætti sem þeir hafa haft afskipti af og beitt sér fyrir úrbótum á og miklu máli skipta fyrir heilbrigði og heilsufar starfsmanna álversins, aðeins stiklað á stóru. Þeir hafa beitt sér fyrir endurbótum á mötuneyti og eldhúsi þess og fengið framgengt að nýtt eldhús var byggt, en eitthvað hafði borið á því, að starfsmenn fengju iðrakvef vegna lélegrar aðstöðu í eldhúsi. Í því sambandi héldu þeir fræðslufundi um hollustumál fyrir starfsfólk mötuneytisins í hollustuháttum og fengu til þess sérfróðan aðila. Sýni af matvælum og áhöldum eru tekin reglulega til gerlarannsókna og hafa niðurstöður verið góðar. Þrátt fyrir langa baráttu fyrir nýju og stærra mötuneyti og loforð forráðamanna álversins hefur ekki enn verið hafin bygging þess.

Neysluvatnssýni eru rannsökuð reglulega og hefur vatnið uppfyllt lágmarksskilyrði um hollustu með tilliti til efnasamsetningar og gerlagróðurs. Sérstaklega hafa sýnin verið rannsökuð með tilliti til flúorinnihalds, sem hefur verið á bilinu 0.05–0.06 mg í lítra, sem er eðlilegt magn, og aldrei hefur fundist cýanið í vatninu vegna hugsanlegrar mengunar á grunnvatni frá fyrrverandi öskuhaugum Hafnarfjarðar þar sem kerbotnum var komið fyrir í upphafi. Í þessu sambandi beittu þeir sér fyrir rannsóknum á grunnvatnsrennsli á Straumsvíkursvæðinu sem framkvæmd var að ósk heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar af Orkustofnun í mars 1966, og kostaði álverið þá athugun.

Þeir hafa og beitt sér fyrir endurbótum á starfsumhverfinu í verksmiðjunni með ráðleggingum og leiðbeiningum með forsvarsmönnum álversins og verkamönnum, þó einkum trúnaðarmönnum. Í því sambandi hafa þeir lagt áherslu á að menn noti rykgrímur reglulega, þar sem rykmengun er mikil, og lagt áherslu á að rykbinda og hreinsa reglulega vinnusvæðin. Sérstaka áherslu hafa þeir lagt á betri aðbúnað í skautasmiðju og kerskála með tilliti til minni rykmyndunar með betri loftræstingu.

Krafist hefur verið, en án árangurs, betri úrlausnar á uppskipun og meðferð súráls, sem er mjög rykugt starf, og að fylgst sé með loftræstingu í vélaviðgerðarverkstæði.

Sérstaklega skal bent á árvekni og framtakssemi héraðslæknisins og heilbrigðisfulltrúans um heilbrigðishættu sem stafað getur af asbestryki á vinnustað. En niðurstöður erlendra rannsókna fóru að birtast í erlendum tímaritum á árinu 1975, þar sem bent var á að asbestryk gæti valdið krabbameini í brjóst- og lífhimnu ásamt lungum, en áður hefur lengi verið þekkt til óeðlilegrar bandvefsmyndunar í lungum vegna þessa ryks, en þessi sjúkdómur er fyllilega jafnalvarlegur og svokölluð kísillungu eða kísilveiki, sem stafar af innöndun kísilryks.

Var fyrirtækinu gert að gera grein fyrir asbestnokun sinni og gefin fyrirmæli um að draga úr þeirri notkun ásamt því að viðhafa sérstaka gát og varnir við sögun og aðra meðferð á efninu. Skilaði Íslenska álfélagið ítarlegri skýrslu um asbestnotkun sína, og drógu þeir tafarlaust úr notkun þess eins og þeir gátu, ásamt loforði um að ekki yrði sagað asbest eða mulið lengur og að tilraunir til að draga úr notkun þess héldu áfram.

Í skýrslu félagsins kom fram, að alls nam notkunin 62 500 kg á ári miðað við framleiðslu á 70 þús. tonnum áls og fóðruð 100 ker.

Auk þess, sem hér hefur verið upp talið um almennar ráðleggingar og endurbætur á starfsumhverfi og almennum hollustu- og heilbrigðismálum, var fylgst með heilsufari starfsmanna bæði af héraðslækni, trúnaðarlækni félagsins og heimilislæknum starfsmanna, sem sendu þá til rannsóknar hjá sérfræðingum í ríkisspítölunum eftir því sem við átti. En strax á fyrstu árum álbræðslunnar fór að bera á ýmsum óþægindum, einkum frá slímhúðum nefs og öndunarfæra, hjá nokkrum starfsmönnum í kerskálunum, eins og dæmi eru til um frá öðrum álverum. Ekki voru þessir starfsmenn þó tilkynntir til héraðslæknis sem hafandi atvinnusjúkdóma.

Þegar haldið var áfram stækkun álversins á árunum 1970–1971 og menn héldu að hreinsitæki fyrir útblástur væru á næstu grösum, óttuðust starfsmenn í kerskálunum að skaðleg efni og mengun mundi aukast í andrúmslofti þeirra. Urðu þessar umræður til þess, að héraðslæknir og heilbrigðisfulltrúi gátu fyrr en ella hafið mælingar á loft- og ryksýnum í andrúmslofti á vinnustað til efnagreiningar ásamt mælingu á flúormagni í sólarhringsþvagi frá starfsmönnum álversins, en það er talinn allgóður mælikvarði á flúorupptöku og mengun starfsmanna. Hófust þessar rannsóknir 1971, en verkið sóttist seint vegna ófullkomins tækjabúnaðar og ófullnægjandi rannsóknaraðstöðu.

Að ósk verkalýðsforustunnar fól þá ráðh. Heilbrigðiseftirliti ríkisins að taka þessa rannsókn að sér og hraða henni. Framkvæmd og niðurstöðum þeirrar rannsóknar, sem hófst í nóv. 1971, hefur fyrrv. forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins lýst í grg. til heilbr.- og trmrh. frá 11. ágúst 1972, og verða hér í stuttu máli raktar helstu niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Rannsókninni var hagað þannig:

1. Vinnustaðir verksmiðjunnar skoðaðir, og var niðurstaða skoðunarinnar sú, að allmikið ryk væri í þessum vinnustöðum, og fann skoðunarmaður til óþæginda í öndunarfærum vegna hins mengaða lofts.

2. Rannsakað var loftkennt flúormagn í kerskála, en niðurstöðu þeirra rannsókna er ekki getið í skýrslunni. Aftur á móti eru til rannsóknir á flúorvetni frá nóv. 1971, en þar er sagt að niðurstöður séu lægri en búast mátti við, sennilega vegna vandkvæða við sýnishornatökuna að einhverju leyti.

3. Brennisteinssýrlingur var rannsakaður í andrúmslofti í kerskála og skautasmiðju og reyndist vera að meðaltali 0.14 mg á rúmmetra, en hæstu tölur einstakra mælinga fóru upp í 0.475 mg á rúmmetra, og var talið að þessar tölur væru innan uppgefinna hættumarka.

4. Ryksýni voru tekin í kerskála og skautasmiðju, en ekki rannsökuð með tilliti til magns eða efnasamsetningar.

5. Teknar voru stikkprufur af efnainnihaldi andrúmslofts af kolsýrlingi og súrefni og reyndust þessar lofttegundir innan eðlilegra marka.

6. Raka- og hitastig var mælt og álitið eðlilegt við viðkomandi aðstæður og starfsemi.

7. Flúor í sólarhringsþvagi var rannsakað frá 10 starfsmönnum fyrirtækisins, þar af þremur skrifstofumönnum fyrirtækisins. Reyndist það vera frá 0.6 mg í litra til 3.2 mg í lítra, en miðað er við 4.8-5 mg í lítra sem hættumörk miðað við 48 stunda vinnuviku.

8. 7 menn af 8, sem veikst höfðu í álverinu, voru kallaðir til viðtals og tekin af þeim nákvæm sjúkrasaga og aflað upplýsinga um rannsóknir á þeim frá öðrum læknum eða stofnunum. Allir höfðu reynst einkennalausir við læknisskoðun þegar þeir hófu störf hjá álverinu. Niðurstöður þessara rannsókna leiddu í ljós að þessir menn þjáðust af einkennum frá öndunarfærum sem í sumum tilfellum voru mjög slæm. Einnig kom fram ofnæmi hjá sumum þessara manna, en auk þess bar mikið á sleni og þreytu að vinnu lokinni. Flestir höfðu unnið í kerskála, en margir við súrálsuppskipun og haft mikla yfirvinnu.

Talið var að mengun andrúmslofts á vinnustöðum þessara manna svo að víst næmi 4 af 7 mönnum væru samverkandi orsök sjúkdómseinkenna þeirra og öli veikindatilfelli ættu að flokkast undir atvinnusjúkdóma. Þannig er talið af Heilbrigðiseftirliti ríkisins að aðstæður í Straumsvík séu þannig, að hætta sé á atvinnusjúkdómum hjá starfsmönnum.

Bent er á varnarráðstafanir sem beita verði við álverið gegn atvinnusjúkdómum, t. d. hreinlætis-, öryggis- og loftræstiráðstafanir. Bent er á að auk athugunar á almennu heilsufari beri sérstaklega að athuga ástand öndunarfæra og ofnæmistilhneigingar hjá starfsmönnum, og í þriðja lagi verði að stilla vinnutíma í hóf.

Þótt ljóst sé að fyrrnefndar mengunarrannsóknir séu meira eða minna ófullnægjandi, hefur niðurstaða rannsóknanna í heild verið í fullu samræmi við reynslu og þekkingu frá niðurstöðum rannsókna frá öðrum löndum við svipaðan atvinnurekstur og aðstæður.

Þá er þáttur Öryggiseftirlits ríkisins ótalinn, en starfsmenn þess fara vikulega í eftirlitsferð í verksmiðjuna og skoða þungavinnuvélar, verkstæði og aðbúnað starfsfólks, auk þess sem gasmælingar eru framkvæmdar til að finna leka í leiðslum (bútan- og própangas). Samkv. skrá Öryggiseftirlitsins frá 9. nóv. 1976 voru skráð 16 atriði sem lagfæra þurfti, og er þar um að ræða atriði vegna lélegrar loftræstingar, vöntunar á neyðarútgangi, hávaða, hitastigs og almennrar hreinlætisaðstöðu, ásamt fatageymslum. Sumt hefur verið lagfært, annað er í athugun. Einnig fór fram hávaðamæling 1972 í nokkrum vinnusölum álversins og var hávaði við mælingartilfelli undir hættumörkum á vinnustöðum. Þó skal þess getið, að þessar mælingar segja ekkert um hávaða við einstök störf starfsmanna.

10.–15. febr. 1974 framkvæmdi heyrnardeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur heyrnarmælingar á 117 starfsmönnum álversins, þar með talið fólk úr eldhúsi og fleiri stöðum, og reyndust 97 starfsmenn hafa skerta heyrn, þar af 30 með verulegt heyrnartap. Þótt samanburði sé ekki lokið á tíðni heyrnartaps við önnur hávaðasöm störf, t. d. vinnu í blikksmiðjum o. s. frv., virðast þessar tölur, — þ. e. 83% með skerta heyrn og 25.6% af öllum með verulegt heyrnartap eða 31% af þeim sem hafa skerta heyrn, — benda til þess að um óeðlilega háa tíðni heyrnartaps sé að ræða hjá starfsmönnum álversins og full ástæða til að endurtaka þessa rannsókn hið fyrsta.

Þess skal getið, að skýrslur um niðurstöðu heilbrigðisrannsókna starfsmanna álversins framkvæmdar af trúnaðarlækni, liggja ekki fyrir á þessari stundu, en gerðar hafa verið ráðstafanir til að afla þeirra svo og skýrslu um slysatíðni við verksmiðjuna. Trúnaðarlæknir rannsakar alla nýráðna og síðan er framkvæmd regluleg heilbrigðisskoðun á 6 mánaða og eins árs fresti á þeim starfsmönnum sem ástæða er til að kalla til rannsóknar eða leita til læknis.

Fram hefur komið nýlega að álverið hefur yfir að ráða nauðsynlegu rykmælitæki til rannsóknar á rykmengun í andrúmslofti starfsmanna, en ekki liggja fyrir skýrslur um það, hvort tækið hafi verið notað hin síðari ár og með hvaða árangri. Enn fremur hefur félagið sjálft mælt hávaða á vinnustöðum auk gasmælinga, en sömu sögu er um það að segja, að skýrslur liggja ekki fyrir, en gerðar hafa verið ráðstafanir af hálfu Heilbrigðiseftirlits ríkisins til þess að fá slíkar skýrslur hið fyrsta séu þær til.

Það er samdóma álit eftirlitsaðila að forráðamenn álversins hafi í flestum tilvíkum verið viðræðugóðir, en efndir framkvæmda verið misjafnar. Þó hefur í flestum tilvikum verið ráðin bót á hlutunum nema stóru eða alvarlegustu mengunarmálunum, bæði innan dyra og utan, þar hafa efndir ekki verið.

Þess skal að lokum getið, að auk fyrrnefndra eftirlitsaðila hefur verið leitað til annarra aðila, þar sem það hefur átt við, eða þessir aðilar átt frumkvæði að athugunum, og skal nefnt sem dæmi eiturefnanefnd, Náttúruverndarráð, landlæknir o. fl. Gott samstarf hefur og verið á milli allra þessara eftirlitsaðila.

Miðað við mannafla, efni og allar aðstæður hafa viðkomandi eftirlitsaðilar unnið gott starf. En þeim er ljóst að betur má ef duga skal, og er unnið að viðeigandi lausn þessara mála eftir því sem aðstæður leyfa. Það eru einkum fámenni og fjárskortur viðkomandi stofnana ásamt mörgum öðrum aðkallandi verkefnum sem tefja framkvæmdir.

Það er ljóst að nauðsynlegt er að framkvæma heildarúttekt á ástandi og eðli vinnustöðva við álverið með tilliti til rykmengunar, flúormengunar, brennisteins- og kolsýrlingsmengunar, auk hávaðamælinga og fleiri atriða. Samtímis þarf að rannsaka á kerfisbundinn hátt heilsufar starfsmanna með tilliti til ákveðinna atvinnusjúkdóma og í því sambandi framkvæma flúormælingar á þvagi starfsmanna, framkvæma heyrnarmælingar og lungnaþolspróf og fleira, svo að eitthvað sé nefnt.

Þegar þessar rannsóknir liggja fyrir er fyrst hægt að meta mengun vinnustaða og væntanleg áhrif þeirra á heilsufar starfsmanna. Þá fyrst verður hægt að fylgjast með árangri aðgerða til endurbóta þegar hægt er að mæla hvaða áhrif endurbætur hafa haft. Slíkar rannsóknir sem þessar eru nauðsynlegar er fylgjast á með áhrifum starfsumhverfis og heilsufari starfsmanna yfir lengra tímabil.

Á það skal sérstaklega bent, að ekki er sama hvernig sýni eru rannsökuð og með hvaða aðferðum, og skal í því sambandi skipuleggja í tæka tíð sérstaklega vel öll þau atriði er þau mál varða. Endurskoða þarf heilbrigðisþjónustu starfsmanna álversins, en þar starfa um 630 manns, og er augljóst mál að trúnaðarlæknir með fárra stunda vinnuviku getur ekki sinnt þeim verkefnum sem gera verður kröfu til að framkvæmdar séu á jafnfjölmennum vinnustað.

Það, sem hér hefur verið nefnt um endurbætur og frekari rannsóknir, hefur verið rætt nokkuð á fundum með eftirtöldum aðilum: forstöðumanni Heilbrigðiseftirlits ríkisins, landlækni, héraðslækni Hafnarfjarðar, trúnaðarlækni Íslenska álfélagsins, prófessornum í heilbrigðisfræðum við Háskóla Íslands og forstöðumanni Öryggiseftirlits ríkisins. Frumkvæði að þessum fundum hefur átt forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, en tilefni þeirra var fyrst og fremst bréf Öryggiseftirlitsins til héraðslæknisins í Hafnarfirði frá 25. jan. 1977 um að sjá um að framkvæma flúorrannsóknir í þvagi starfsmanna álversins og bréfi sama dag til íslenska álversins um það efni, auk þess sem Öryggiseftirlitið fór þess á leit við Heilbrigðiseftirlit ríkisins að samvinna yrði milli þessara embætta um framkvæmd þessara mála.

Í framhaldi af þessum bréfaviðskiptum leituðu bæði trúnaðarlæknir álversins og héraðslæknirinn í Hafnarfirði eftir aðstoð Heilbrigðiseftirlits ríkisins við skipulag og framkvæmd rannsóknanna. Varð það að samkomulagi milli allra aðila að fela Heilbrigðiseftirliti ríkisins stjórn og skipulag þessara mála og hefja sem fyrst rannsóknir á þvagsýnum með tilliti til flúorinnihalds. Mun stofnunin leita þeirrar sérfræðiaðstoðar sem þörf verður á í þessu sambandi.

Þessi mál voru kynnt hinn 22. febr. 1971 í grófum dráttum fyrirsvarsmönnum álversins, þar sem bent var á skyldur fyrirtækisins um reglulegar mælingar á ástandi starfsumhverfis svo og rannsóknir á heilsufari starfsmanna alfarið á kostnað fyrirtækisins, eins og tíðkast erlendis við svipaðan atvinnurekstur. Voru forsvarsmenn viðræðugóðir og féllust á þessa framkvæmd mála. Ekki hefur unnist tími til að kynna þessi mál Starfsmannafélaginu eða verkalýðsfélaginu á staðnum, en það mun verða gert við fyrsta tækifæri. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist bráðlega og þvagsýni rannsökuð.

Þess skal að lokum getið, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur með fjárhagsstuðningi heilbr.- og trmrn. aflað nauðsynlegs tækjabúnaðar til mælinga á ryki í andrúmslofti starfsmanna og er unnið að frágangi og öðrum nauðsynlegum atriðum í sambandi við þessi tæki þessa dagana. Kröfur heilbrigðisyfirvalda um mengunarvarnir standa óhaggaðar.