01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. var að enda við að flytja hér röggsamlega skýrslu. En þetta var skýrsla um hneyksli. Þetta var skýrsla um mjög alvarlegt hneyksli, ekki vegna þess að Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki staðið sig. Ég get ekki látið hjá líða að hrósa Heilbrigðiseftirlitinu fyrir það, hvernig það hefur gengið til verks. En athuganir Heilbrigðiseftirlitsins sýna að í álverinu er ekki aðeins um að ræða hættu á atvinnusjúkdómum, heldur eru mjög alvarlegir atvinnusjúkdómar þegar orðnir staðreynd í þessari verksmiðju, lungnasjúkdómar ýmiss konar, ofnæmissjúkdómar og 85% starfsmanna í verksmiðjunni eru skertir á heyrn, 85% af þessum rúmlega 600, þ. e. 500 manns, sem unnið hafa í þessari verksmiðju, eru nú með skerta heyrn. Þetta er uppskeran, þetta er heilsufarsuppskeran af þessari verksmiðju.

Argasta hneykslið er svo það, sem fram kemur í skýrslu hæstv. ráðh., að Heilbrigðiseftirlitið hefur engin bein afskipti af verksmiðjunni fyrr en í byrjun árs 1972. Þeir, sem sömdu fyrir hönd okkar íslendinga um þessa verksmiðju, létu alveg hjá líða að athuga þessa hlið málsins. Og þó kemur fram í skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins að allar niðurstöðurnar eru í fullu samræmi við reynslu og þekkingu varðandi sams konar verksmiðjur í öðrum löndum. Reynslan lá sem sé fyrir þegar þessi verksmiðja var reist, en þeir, sem þarna gengu til samninganna fyrir hönd okkar íslendinga, létu sig þetta einu gilda, vissu kannske ekkert um það, sömdu eins og glópar.

Það er svo ekki fyrr en vinstri stjórnin er mynduð og Magnús Kjartansson tekur við þessum málum að sett er reglugerðin um Heilbrigðiseftirlitið, að það fylgist með þessari verksmiðju, sú reglugerð sem leiðir nú til þessarar niðurstöðu, leiðir í ljós þennan ægilega sannleik.

Það ætti ekki að þurfa að vekja athygli á þessu reginhneyksli. Það blasir við hverjum manni. Það blasir líka við hverjum manni, hversu treystandi er aðilum eins og þessum, hvort heldur þeir heita nú Alusuisse upp á frönsku eða Elkem-Spigerverket upp á norsku, hvað þeim er treystandi þegar til kastanna kemur. Þeir eru viðræðugóðir, segir í skýrslunni. Þeir eru alltaf nógu viðræðugóðir, þessir menn. Þeir heita öllu góðu, þeir lofa öllu fögru, en standa svo ekki við neitt. Síðasta fyrirheitið er að koma upp hreinsitækjum einhvern tíma, við fáum ekkert að vita hvenær þau eiga að koma upp. Hins vegar fáum við að vita hvað það mun kosta vesalings Alusuisse ógurlega mikla peninga, 4.5 milliarða. Það er náttúrlega skýringin á því, að þetta kunni eitthvað að dragast, og við verðum þá að fyrirgefa það.

Ég vildi svo aðeins, af því að hér er verið að ræða verksmiðjumál og hættu á atvinnusjúkdómum sem kunna að fylgja slíkum verksmiðjum, beina þeirri fsp. til hæstv. iðnrh., hvað það sé varðandi samningana við Elkem-Spigerverket sem veldur því, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur ekki enn veitt starfsleyfi handa verksmiðjunni. En það er skýringin á því að frv. um þessa verksmiðju er ekki enn þá komið úr nefnd.