01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. sérstaklega flutning á þessari skýrslu og raunar forseta líka fyrir að gefa honum rýmilegan tíma fram yfir þingfundasköp í Sþ. til að gera okkur grein fyrir þessu máli. En ég verð að taka undir orð síðasta ræðumanns, að þetta var dapurleg niðurstaða, vægast sagt dapurleg niðurstaða. Það segir orðrétt, ef ég hef náð því: „Viðunandi andrúmsloft ekki til staðar fyrr en hreinsitæki eru komin upp.“ Þetta er undirstrikað í skýrslunni orðrétt, eftir allan þennan tíma. Og enn eru engin tímamörk á uppsetningu þessara tækja. Hvert stefnum við? Fram undan eru umræður um nýja verksmiðju enn verri í mengunarlegu tilliti — miklu, miklu verri. Það er viðurkennt um allan heim og til um það hafsjór upplýsinga. Hvert stefnum við? Það er rétt, að þetta er nýtt svið fyrir okkur. En við getum ekki haldið áfram með bundið fyrir augun, alls ekki. Fyrst við uppgötvum vandann verðum við að láta hendur standa fram úr ermum og framfylgja því sem hæstv. ráðh. lauk máli sínu á. Kröfur heilbrrn. standa óhaggaðar. En það vantar framkvæmd í samræmi við það.

Hæstv. ráðh. vitnaði í ýmsar reglugerðir og tilskipanir. En í svarinu kom fram að aðilar eru viðræðugóðir, en efndir misgóðar. Það þarf meira en viðræðugóða aðila. Það þarf aðila sem standa við það sem þeir segja, svo að málin verði í lagi.

Þessi skýrsla er svo dapurleg, að ég óska eftir því að hún verði ljósrituð sérstaklega sem fyrst og dreift á borð þm. svo að menn átti sig nægilega vel á málinu þegar í stað. Hún er það mikilvæg og mætti raunar birtast almenningi strax. Það er því miður viðurkennt í skýrslunni að það er margt að. Menn eru teknir til læknisskoðunar einu sinni eða tvisvar á ári, sennilega eftir óskum viðkomandi aðila. Ég náði því ekki beint, hvort það væri krafa, en það er a. m. k. lágmark einu sinni á ári, skildist mér. E. t. v. geta menn farið miklu oftar ef menn óska eftir því.

Einn þáttur var nokkuð ræddur í skýrslunni sem er afar alvarlegur, og það er asbestið og uppskipunin. Það er afar alvarlegt mál. Út um allan heim er asbestvandamálið eða rykið frá asbestinu eitt það alvarlegasta sem við er að etja, og þarf alveg sérstakar varúðarráðstafanir gagnvart því, langt fram yfir allt annað, vegna eðlis málsins. Það þekkja sumir þm., sem hér eru staddir nú, miklu betur en ég.

Það er svo margt, sem kemur fram í þessari skýrslu, að það er ómögulegt fyrir okkur að ná því öllu, en þetta er mjög alvarlegt ástand, það fer ekkert á milli mála, og það þarf miklu meira en góða viðmælendur til að laga þetta mál. Því verður að framfylgja af einurð. Og ég treysti því, miðað við getu hæstv. heilbrrh., að hann kippi hér rækilega í spottann. Það er svo margt sem kom fram í skýrslunni, eins og ég sagði áðan. að við verðum að fá hana á borð okkar og sjá nánar og eiga möguleika á því að fylgjast nánar með framkvæmd mála á þessu stóra atvinnusviði.

Það kom líka fram að það væri búið að heyja langa baráttu fyrir vissum þáttum og það hefðu verið haldnir vissir fundir með aðilum. En það er ekki nóg. Það verður að standa við það sem sagt er og setja þessu einhver tímamörk. Peningar eru algert aukaatriði í þessu efni, hvort sem upphæðin er há eða lág. Það er heilbrigði mannanna sem er mesta verðmætið þarna, hvort sem það eru fáir menn eða margir, ég tala nú ekki um ef það er svo, að fjöldi manna hefur þegar beðið heyrnarskemmdir. Það nær ekki nokkurri átt að vera að tala um einhverjar krónur í þessu sambandi, hvort sem þær eru taldar í milljörðum í íslenskum kr. í dag eða ekki. Hér verður að verða á breyting. Það er engin vafi á því.

Varðandi önnur atriði í stóriðjunni, þá er nú óhætt að fara að doka við og sjá hvernig við stöndum með þær öryggisráðstafanir sem nauðsynlegar eru þegar er á döfinni fyrirtæki sem felur í sér margfalt verri atriði í þessu tilliti heldur en álverið. Það er alveg óhætt að gera okkur grein fyrir þeirri stöðu áður en næsta skref er stigið.

En ég vil enda orð mín með því að þakka hæstv. ráðh. aftur fyrir langa og ítarlega skýrslu. Ég vænti þess að hann fylgi málinu eftir fyrst hann hefur gert þetta með sóma — ég segi það hiklaust: með sóma — að opinberu máli hér á Alþingi.