01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Hafstein sagði hér áðan að þeir, sem sömdu við svissneska álfélagið um Straumsvíkurverksmiðjuna, hafi sett það sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að varðandi hollustuhætti, hreinlætis skilst mér, og annað slíkt skyldi framfylgt íslenskum lögum. Gallinn var bara sá, að það voru engin íslensk lög til þess að byggja á kröfurnar, skilst mér. Ef svo hefði verið, þá segi ég: Þessi samningur var glæfraskapur. (IngJ: Lögin voru sett 1969.) Það átti ekki að semja um eitt né neitt í þessu sambandi fyrr en nauðsynleg lög voru staðfest sem byggja mátti á kröfur okkar. Það er lítið gagn í skilyrðum sem ekki er staðið við.

Við erum alltaf að læra, segir hv. þm. Ingólfur Jónsson. Við vissum ekki neitt um stóriðju og afleiðingar hennar fyrr en við reistum verksmiðjuna í Straumsvík. Þó kemur það fram í hinni ítarlegu skýrslu hæstv. heilbrrh. áðan, að niðurstöðurnar af könnun Heilbrigðiseftirlitsins í verksmiðjunni eru allar í samræmi við þá reynslu sem þegar var fengin af sams konar rekstri erlendis. Hvers konar glópar eru íslenskir stjórnmálamenn? Hvers konar gáfnafar réð stefnunni þegar samið var við svisslendinga?

Hv. þm. Jóhann Hafstein sagði hér áðan, af því að það kemur nú fram að 85% starfsmanna í Straumsvíkurverksmiðjunni hafi nú skerta heyrn eftir vinnu sína þar: Hvernig er ekki með diskótekin? Unglingar okkar eru með skerta heyrn af því að hlusta á þessa háværu músík.

Já, það er eflaust rétt. En það hafa fleiri en íslenskir unglingar farið á diskótek og hlotið af því skerta heyrn. Í Straumsvíkurmálinu gengu íslenskir stjórnmálamenn á diskótek hjá alþjóðlegum auðhringum og þeir eru enn á því diskóteki. Þeir hafa að vísu ekki hlotið af þessu skerta heyrn í öllu tilliti, þeir heyra vel músíkina á diskótekinu. En þeir eru hins vegar hættir að heyra rödd sinnar eigin þjóðar.