01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, að hér hefur verið flutt mjög athyglisverð skýrsla sem segja má um hvort tveggja, eins og hér hefur verið gert, að hún sé skýrsla um hneyksli og hún sé líka sorgleg. En mér finnst að þessar umr., sem hér hafa orðið, hafi farið ótrúlega langt á snið við kjarna málsins.

Það er enginn vafi á því, að þeir, sem eiga álverið í Straumsvík, hafa komist upp með bæði að skjóta sér undan því, sem lagt hefur verið fyrir þá, með því að biðja um frest og fá frest, og hreinlega að svíkjast um að gera það sem lagt var fyrir þá. Einnig hafa þeir komist upp með það að fá meiri hl. alþm. til þess að undanþiggja þá nauðsynlegum ráðstöfunum.

Við skulum ekki reyna að þræta neitt um þá staðreynd, að þegar upphaflegur samningur við eigendur álversins var staðfestur hér á Alþ., þá fóru hér fram feiknalega miklar umr. um mengunarhættu í sambandi við rekstur verksmiðjunnar. Hér voru uppi kröfur um að það skilyrði skyldi sett, að hreinsitæki ættu að vera á verksmiðjunni. Það fékkst ekki fram. Það var ekki talið nauðsynlegt, það yrði að athuga síðar.

Það er hins vegar rétt að mínum dómi sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Hafstein, að það hefur aldrei verið samið um það við þá að þeir væru undanskildir því að hlýða okkar reglum. Hins vegar stóð hann og fleiri að því á sínum tíma að neita því að setja þetta skilyrði, sem var auðvitað sjálfsagt skilyrði, að það ætti að setja upp hreinsitæki á verksmiðjuna. Það er ekki lengra síðan en tæplega eitt ár, á s. l. ári var þetta sama fyrirtæki enn á ný að leita eftir staðfestingu hér á Alþ. fyrir stækkun á álverinu, fyrir því að geta aukið framleiðsluna. Þá kom hér enn fram hjá okkur ýmsum kröfur um að nú skyldi sett það skilyrði, að þeir fengju ekki þessa stækkun fyrr en þeir bæru búnir að setja upp hreinsitæki. En það fékkst ekki fram þá. Meiri hl. alþm. var enn á þeirri skoðun, að þarna væri líklega ekki nein hætta, það væri allt í lagi að bíða.

Þeim herrum þarna suður frá hefur tekist að plata sveitamanninn á þennan hátt, plata alþm. Það er sannleikur málsins. Og þeim hefur einnig tekist að vinda sig undan þeim fyrirmælum sem þeim höfðu verið gefin af réttum aðilum í landinu, heilbrigðisyfirvöldunum, um að breyta þessu ástandi. Þeir hafa fengið frest og aftur frest. En ég er ekki í neinum vafa um að málin eru þannig, að heilbrrh. hefur í dag leyfi til að stöðva þennan rekstur. Það erum við sem getum sett þeim fresti. Þeir eiga ekki einu sinni að sleppa út úr þessu með því að segja: Ja, við ætlum að setja upp hreinsitæki, við erum enn þá að semja framkvæmdaáætlun, og við skrifum ykkur um það seinna, hvernig við höfum hugsað okkur framkvæmdaáætlunina. — Sannleikurinn er sá, að það erum við sem getum sett reglurnar, ef við viljum, og sett þeim kostina. Við getum meira að segja stöðvað þennan rekstur svo að segja hvenær sem er.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram. Þeir eru búnir að komast upp með það að reka þessa verksmiðju í 71/2 ár án þess að hafa þarna hreinsitæki, með þeim afleiðingum sem hér hefur verið lýst, að þarna eru komnir upp mjög alvarlegir atvinnusjúkdómar og hættan blasir nú við öllum. Það er auðvitað á okkar valdi að fylgja þessu eftir og draga okkar lærdóma af reynslunni, bæði í sambandi við þessa verksmiðju og aðrar, og láta ekki plata okkur á þann hátt sem gert hefur verið til þessa.