01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, að hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Ég veit ekki hvort mér vinnst tími til að koma með nokkrar viðbótarskýringar við það sem hér hefur komið fram. Ég vil í beinu framhaldi af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, einnig vísa til gr. 12.02, þar sem segir:

„ÍSAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

Satt að segja er þessi grein nokkur þrándur í götu fyrir þá sem hafa viljað knýja þetta fram hraðar en orðið hefur. Og ég tek undir það, að þetta hefði þurft að gerast bráðar, því að staðreyndin er sú, ég veit ekki hvort hv. þm. vita það, að t. d. norðmenn og bandaríkjamenn, sem hafa verið einna strangastir í þessum efnum, hafa ekki enn sett ákveðin tímamörk eða reglur fyrir eldri bræðslur. Bandaríkjamenn gerðu drög að slíkum reglum 1974 og hafa verið einna strangastir, en þeir hafa ekki framfylgt þeim enn. Og norðmenn hafa ekki sett hjá sér ákveðin tímamörk enn. (Gripið fram í.) Ja, það breytir því að í þessari grein — við getum kannske sagt því miður — segir: „Í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum.“ Þetta eru lög sem samþ. voru á Alþ. á sínum tíma. Þetta eru líka lög, þetta var samþ. á Alþ. á sínum tíma. En þetta er staðreynd og varpar e. t. v. nokkru ljósi á að þetta er vissum erfiðleikum háð.

Ég vil ekki taka undir það, að einhverjir hafi verið hlekktir. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. fyrrv. iðnrh. féllst á að tilraunir yrðu gerðar í Straumsvík með tæki, sem fundin voru upp af íslenskum manni. Ég tel að það hafi verið eðlilegt. En í hverju voru þau fólgin? Þau voru fólgin í því að hleypa öllum reyknum út í skálann úr opnum ofnum, sem sagt lagfæra ekkert inni í skálanum og draga það svo upp í rjáfrið og hreinsa það þar. Ég er ekki að áfellast fyrrv. hæstv. iðnrh. Þetta var sú tækni sem var algeng í gömlum verksmiðjum, þar sem reynt var að breyta þessu þá. En við mundum alls ekki sætta okkur við þetta í dag. Þessar tilraunir tóku tvö ár. Og eins og ég segi, þessir ofnar eru opnir. Eftir þessa tilraun var reynt að loka ofnunum. Því miður vinnst mér ekki tími til að fara út í nokkra tæknilega skýringu, en vil segja það í örfáum orðum, að ofnarnir í Straumsvík og víða í verksmiðjum eru þannig, að það er bætt í þá frá hliðunum. Tilraunir, sem gerðar voru fyrst með að loka slíkum ofnum, sýndu að með því að halda áfram að sinna ofnunum frá hliðunum varð að opna eða loka þær hlífar sem settar eru yfir ofnana, og þá slapp of mikið af flúor og reyk út í andrúmsloftið inni í verksmiðjunni.

Það munaði minnstu að þetta yrði gert hér. Ég segi fyrir mitt leyti, ég þakka að það var ekki gert. Það var gert fyrst í Bandaríkjunum, reynt þar á 40 pottum, og það sýndi sig að það mengaði svo andrúmsloftið inni í verksmiðjunni að því var kastað. (Gripið fram í.) Ja, þetta er staðreynd. Það er betra að heyra þetta nú en aldrei, ef hv. þm. skyldi vitkast eitthvað við það.

Annars vil ég segja það, að nú er búið að þróa tilraun sem felur hins vegar í sér gerbreytingu á ofnunum sjálfum. Það verður að hætta að fylla þá frá hliðunum, það verður að breyta þeim sjálfum. Við þetta eru verulega mikill aukinn kostnaður, en þessi aðferð er nú talin þaulreynd og hún verður notuð í Straumsvík. Ég verð því að segja fyrir mitt leyti, að þó að ég hefði viljað sjá hreinsitæki þar langtum fyrr, þá fagna ég því þó að þar voru ekki sett upp ófullnægjandi hreinsitæki, heldur hreinsitæki sem eru þau bestu sem þekkjast og eru fullreynd og munu einmitt einnig þjóna því markmiði, sem hv. fyrirspyrjandi var með, að hreinsa sem best andrúmsloftið inni í skálanum líka, ekki bara úti.