01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

261. mál, rannsóknir á mengun í álverinu í Straumsvík

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel að þær umr. sem hér hafa farið fram, hafi leitt þrjú atriði í ljós:

Í fyrsta lagi að þær ábendingar, sem við fengum frá okkar eigin sérfræðingum, þegar samningarnir við ÍSAL voru til umr., um að frá þeirri verksmiðju mundi ekki stafa alvarleg mengunarhætta, þessar upplýsingar reyndust ekki á rökum reistar, m. a. vegna þess að við höfðum þá hvorki nægilega sérfróða menn, nægilegan tækjabúnað né nægilega reynslu til að ígrunda þetta álit þeirra. Það, sem einnig hefur komið í ljós og er nýtt í málinu, er að það er mun alvarlegri mengunarhætta, sem orðið hefur innan verksmiðjuveggjanna, heldur en jafnvel utan þeirra.

Annað atriði, sem þessar umr. hafa einnig leitt í ljós, er að það hefur tekið okkur íslendinga talsverðan tíma að komast að því og sanna það, svo að ekki verður um villst, eins og kom fram í skýrslu hæstv. ráðh., að um mengun sé að ræða bæði innan veggja og utan veggja þessarar verksmiðju. Eins og kom fram í skýrslu hans tók það talsverðan tíma að framkvæma og ljúka þeim rannsóknum sem gera þurfti til þess að sanna þetta, og raunar lauk þeim ekki fyrr en við höfðum varið talsvert miklum tíma og talsvert miklu fjármagni til þess að breyta og bæta rannsóknaraðstöðu sem þessir aðilar áttu við að búa. Okkur vantaði ekki að þessu leyti lagasetningu eða reglugerðarákvæði. Okkur vantaði sérþekkingu, okkur vantaði reynslu, okkur vantaði tækjabúnað og okkur vantaði fé.

Niðurstaðan af þessu er í fyrsta lagi, að spurt er: Hvað verður gert af hálfu stjórnvalda nú þegar liggur fyrir sú niðurstaða sem hæstv. ráðh. hefur lýst og þarf ekki lengur að deila um hér á Alþ. hver er, heldur er skotið undir óhrekjandi sönnunum? Hvað ætla stjórnvöld að aðhafast? Gera stjórnvöld sér grein fyrir því, að ef þau aðhafast ekkert í þessu máli, þá hlýtur það að koma til álita hjá þeim verkalýðsfélögum, sem eiga trúnaðarmenn þarna á vinnustað eða eru ábyrg fyrir mönnum sem þarna vinna, að þau sjálf grípi til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að fólk vinni við þær aðstæður, sem þarna eru?

Í annan stað hlýtur sú að vera einnig niðurstaðan af þessum umr., að við verðum á næstunni að efla mjög allt eftirlit, ekki aðeins með þessari verksmiðju, heldur með öðrum vinnustöðum, og í því sambandi að verja talsvert miklu fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna til slíkra verka. Ég vil t. d. benda á í því sambandi, að ýmsir þeir atvinnusjúkdómar, sem gætu komið til greina í verksmiðjum eins og þessari, t. d. alls konar lungnasjúkdómar o. fl., svo að ekki sé talað um krabbamein, það getur verið ákaflega erfitt að sanna það óvefengjanlega aðeins með athugunum á starfsmönnum verksmiðjunnar einum út af fyrir sig, að verksmiðjan eða vinnuumhverfi þessa fólks valdi slíkum sjúkdómum, ef engar aðrar rannsóknir eru hafðar til viðmiðunar. Ég held því að það sé nauðsynlegt, ekki aðeins varðandi þessa verksmiðju, heldur aðrar, að þeir, sem eiga að framkvæma rannsóknir um hollustuhætti á vinnustöðum, vinni þær þannig og verði sköpuð aðstaða til þess að vinna þær þannig, að þeir framkvæmi í fyrsta lagi að sjálfsögðu rannsóknir á starfsfólki í þessari verksmiðju og öðrum, en hafi til samanburðar rannsóknir sem framkvæmdar eru af einhverju ákveðnu úrtaki landsmanna til viðmiðunar, þannig að fram komi ef um óvenjulega eða óalgenga tíðni á hættulegum sjúkdómum er að ræða á einhverjum ákveðnum vinnustað. Þetta kostar talsvert mikið fé. En þetta er eina leiðin til þess að hægt sé að sanna að vinnuumhverfi, svo sem eins og í álbræðslunni í Straumsvík, skapi sannanlega ákveðna hættulega sjúkdóma, svo sem hjarta- eða lungnasjúkdóma.

Ég vil leggja mjög mikla áherslu á það við hæstv. ráðh., að hann a. m. k. fyrir sitt leyti beiti sér fyrir því að Heilbrigðiseftirlit ríkisins geti fengið það fjármagn og þann mannafla og þann tækjabúnað sem geri Heilbrigðiseftirlitinu fært að vinna slíkt verk, þannig að það geti leitt í ljós, hvort um sannanleg áhrif sé að ræða af vinnuaðstöðu og umhverfi manna, miðað við samanburðarrannsóknir á sérstökum úrtökuhópum í þjóðfélaginu sem yrðu notaðar til viðmiðunar.