01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

262. mál, útflutningsgjald af grásleppuhrognum

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Á þskj. 334 hef ég beint eftirfarandi fsp. til hæstv. sjútvrh. um útflutningsgjald af grásleppuhrognum :

„1. Hversu hárri upphæð nam útflutningsgjald af grásleppuhrognum árið 1976?

2. Hvernig var þessari upphæð ráðstafað og hvaða aðilar nutu þess fjármagns er inn kom í þessu útflutningsgjaldi af grásleppuhrognum?

3. Hvað var mikið verðmæti unnið hér á landi árið 1976 úr söltuðum grásleppuhrognum, og hvert voru þessar afurðir seldar?“

Þegar breyting varð á útflutningsgjaldi seinast, þá var nokkur óánægja, jafnvel veruleg óánægja víða um land út af því ákvæði að leggja á grásleppuhrognin 6% gjald. Þeir aðilar, sem fást við að veiða grásleppu, eru margir hverjir aldraðir menn og hafa ekki notið neinnar sérstakrar fyrirgreiðslu í einu eða öðru formi út á sínar litlu fleytur, og er þeirra mat að það sé ósanngjarnt að þeir séu að leggja ákveðinni stofnun í þjóðfélaginu til verulegt skattgjald. Að vísu fóru nokkru fleiri bátar á þessar veiðar en venja var vegna góðs verðs á grásleppuhrognum. Nú hefur verið sett um þetta reglugerð sem hindrar að stærri bátar en 12 tonn fari á grásleppuveiðar nema með sérstakri undanþágu, ef viðkomandi aðilar hafa starfað við þetta áður. Engu að síður er hér um verulegt skattgjald að ræða á þá menn er stunda þessar veiðar. Mér virðist, miðað við fréttir um verðmæti einnar tunnu í dag, að þetta gjald á eina tunnu geti jafnvel verið nokkuð á fjórða þúsund kr. Hér er því um verulegt skattgjald að ræða hjá þessum mönnum, hafandi það sérstaklega í huga að hér er um marga aldraða menn að ræða sem eiga ekki kost á venjulegri vinnu á venjulegum vinnumarkaði. Þrátt fyrir það að margir ungir menn stunda þessa atvinnugrein mjög viða um landið, þá er þetta óumflýjanleg staðreynd. Það er því nauðsynlegt að upplýsa þetta fólk um ráðstöfun á þessum peningum sem inn koma í gjaldið, og þess vegna leyfi ég mér að forvitnast um þetta mál.