26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um þær ræður sem hér hafa verið fluttar af hálfu stjórnarandstæðinga.

Í fyrsta lagi hefur það verið gagnrýnt, að samningarnir og sú till. til þál. um staðfestingu á samkomulagi við ríkisstj. Bretlands um takmarkaðar veiðar breskra togara skuli ekki hafa verið lögð fyrir Alþ. áður en hún kom til framkvæmda og Alþ. sérstaklega saman kvatt af því tilefni. Það er þó þessum hv. þm. ljóst, að allir þm. stjórnarflokkanna munu vera fylgjandi þessum samningum, og jafnvel liggja fyrir yfirlýsingar frá a.m.k. einum þm. stjórnarandstöðunnar sem fellur á sama veg. Það er því enginn vafi á því, að þessir samningar voru byggðir á þingmeirihl. og það verulegum þingmeirihl.

Í annan stað hygg ég að það verði ekki dregið í efa með nokkrum rökum, að ekkert í þessum samningum er þess eðlis að íslendingar hafi ekki betri stöðu eftir gerð þeirra en áður. Hér hefur engu verið fórnað, en í raun og veru allt orðið okkur til ávinnings, enda hefur verið sagt að þessir samningar, sem gerðir voru í Osló, séu einhver mesti stjórnmálasigur sem íslendingar hafi unnið.

Það er dregið í efa að vísu af þessum hv. þm. að í samningnum felist viðurkenning breta á útfærslunni í 200 mílur, en í 10. lið samningsins segir: „Eftir að samningurinn fellur úr gildi munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði, sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu.“

Þeir hv. þm., sem hér töluðu áðan, sögðu í vor að í samningunum fælist loforð um áframhaldandi veiðar breta hér við land. En nú segja þeir, að það sé ýmist óþarfi að tala við breta eða það sé það eitt við þá að segja að þeir geti engin veiðiréttindi fengið hér við land. Í síðast nefndu ummælunum felst einmitt játning þeirra sjálfra á því, að í samningunum er um fullkomna viðurkenningu breta að ræða á 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar. Þjóð lofar ekki að hlíta fyrirmælum annarrar þjóðar nema hún sé þar með að viðurkenna yfirráð hennar á viðkomandi sviði. Og það er einmitt það sem bretar gera með þessu samningsákvæði. Auk þess hafa bretar síðan lýst því yfir, að þeir muni beita sér fyrir yfirlýsinga allra Efnahagsbandalagsríkjanna um að þau muni færa fiskveiðilögsögu sína út í 200 mílur á næstu úramótum og ef þeim takist ekki að fá slíka yfirlýsingu fram lýsa yfir sjálfir einhliða 200 mílna fiskveiðilögsögu. Þar með eru þeir búnir að viðurkenna hana sem gildandi alþjóðarétt, því að engin þjóð getur staðið að aðgerð sem slíkri nema hún telji hana vera lögmæta. Við erum sem sagt ekki eingöngu búnir að fá fram viðurkenningu breta á okkar eigin 200 mílna fiskveiðilögsögu, heldur töfum við fengið breta í lið með okkur gagnvart öllum öðrum, sem rétt okkar kunna að draga í efa og efast um að 200 mílna fiskveiðilögsaga sé lögmæt.

Það er sagt að við hefðum átt að fá loforð breta fyrir því að þeir skyldu aldrei fara fram á að fá nein fiskveiðiréttindi innan okkar fiskveiðilögsögu. Þetta er svo vita-meiningarlaust sem frekast má vera, enda sagði hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, að ef til þess kæmi einhvern tíma seinna að við hefðum áhuga á fiskveiðiréttindum utan okkar 200 mílna fiskveiðilögsögu, þá gætum við metið málið upp á nýtt eftir nokkur ár. Hann vildi sem sagt ekki afsala okkur rétti til þess að fara fram á það við breta að fá einhvern tíma síðar meir fiskveiðiréttindi hjá þeim. Er þá nokkru sanngjarnara að við heimtum af bretum að þeir fari aldrei fram á fiskveiðiréttindi hjá okkur? Hvers konar minnimáttarkennd er þarna á ferðinni? Við þolum það vel að aðrar þjóðir fylgi fram hagsmunum sínum gagnvart okkur. Ef sá málflutningur er ekki í samræmi við okkar hagsmuni, þá erum við menn til þess að segja frá því og ræða við viðkomandi þjóð um rök þeirrar þjóðar og flytja okkar eigin gagnrök. Og það er ekkert annað en það sem um er að ræða núna á næstunni í sambandi við lok samningstímabils.

Við fengum ekki eingöngu með þessum samningi viðurkenningu hreta á 200 mílunum, heldur drógum við stórkostlega úr aflamagni þeirra hér við land, hvort heldur lítið er á aflamagn þeirra samkv. fyrri samningum eða aflamagn þeirra með herskipavernd. Við höfðum allmargra mánaða reynslu af veiðimagni þeirra undir herskipavernd, og þótt við lítum þeirra eigin aflatölur gagnrýnisauga, þá er það mála sannast að samningurinn felur í sér verulegan samdrátt á afla breta, hvort heldur sem var áður samkv. samningum eða þeir tóku upp úr sjó undir herskipavernd. Við fengum með samningunum friðunarsvæði okkar viðurkennd og friðunaraðgerðir okkar staðfestar og tryggt að eftir hvoru tveggja yrði farið. Það skiptir ekki litlu máli, vegna þess að það er ekki sama hvar aflamagnið er tekið upp úr sjó eða um hvaða fisk er að ræða eða hverrar stærðar. Ég held að það sé líka viðurkennd staðreynd að við styrktum stöðu okkar á Hafréttarráðstefnunni og slógum vopn úr hendi andstæðinga okkar sem vilja skerða rétt strandríkja og vilja fela þriðja aðila úrskurðarvald um það, hvaða yfirráð strandríki skuli hafa yfir 200 mílna lögsögu sinni ef til deilu kemur við annað ríki. Okkur hefur enn sem komið er tekist að tryggja óbreytt í frv. að hafréttarsáttmála það ákvæði að strandríki skuli hafa óskoraðan rétt að ákveða hvaða aflamagn skuli tekið úr sjó innan 200 mílnanna og hverjir það skuli gera. En við vitum líka að sótt er að þessu ákvæði og reynt er að breyta því á þann veg að gerðardómur skuli kveða upp úrskurð ef til deilu við önnur lönd komi.

Enginn vafi er á að staða okkar á Hafréttarráðstefnunni hefur styrkst vegna þessa samnings og okkur hefur tekist með þessum samningi að bægja hættum frá á íslenskum fiskimiðum. Það er verulegur ávinningur. Og ég held að sá háski, sem vofði yfir starfsmönnum landhelgisgæslu okkar og öðrum sjómönnum á fiskimiðum, hafi verið slíkur að það sé umtalsverður ávinningur að koma á friði og leysa þetta deilumál með þeim hætti sem gert var.

Hv. 2. landsk. þm. hafði um þetta að segja að við hefðum keypt af okkur ofbeldi og efnahagslegar þvinganir. En hann virti einskis minnkandi aflamagn breta, viðurkenningu þeirra á friðunarsvæðum og friðunaraðgerðum, og sjá menn þá hvers konar málflutningur er hér á ferðinni.

Ég vil þá hverfa að því sem hv. þm, ræddu um, hvað mundi gerast 1. des. n.k. Í stefnuræðu minni gat ég um það að Efnahagsbandalagið hefði enn ekki markað fiskveiðistefnu sina, það væri enn ekki ljóst á hvaða grundvelli Efnahagsbandalagið eða fulltrúar þess tækju málið upp við okkur, og fyrr en það væri fram komið, væri ekki unnt að taka afstöðu til málsins, hvað gerðist eftir 1. des. n.k. Það er mál út af fyrir sig að haga sé þannig í samskiptum við önnur ríki að segjast annaðhvort ekki vilja ræða við þau eða hins vegar að segja fyrir fram að viðræður við þessi ríki geti í engu breytt afstöðu okkar eða við séum fyrir fram með fastmótaða skoðun sem ekki verði haggað. Þótt síðara tilvikinu væri til að dreifa og okkar afstaða væri slík, þá væri það engan veginn kurteisleg framkoma í alþjóðasamskiptum að koma þannig fram. Við eigum auðvitað að hlýða á hvað önnur ríki hafa að segja, hver málaleitan þeirra er og röksemdir fyrir þeirra málaleitun. Við eigum að hafa það sjálfstraust að geta flutt okkar mál og svarað málaleitun þeirra með hagsmuni okkar eigin þjóðar fyrir augum og gera endanlega hug okkar upp eftir því sem í ljós kemur í viðræðunum. Við eigum áreiðanlega eftir, íslendingar, að leita til annarra þjóða þegar hagsmunir okkar sjálfra eru í veði, og við viljum gjarnan fá tækifæri til þess að flytja mál okkar, jafnvel þótt í byrjun séu litlar líkur á því að viðræðuþjóðin vilji ljá eyra málflutningi okkar. Við viljum samt ná eyra hennar og kanna hvort við getum ekki sannfært hana. Á sama hátt er ekkert óeðlilegt að við hlýðum á aðrar þjóðir. Það er afskaplega mikil minnimáttarkennd, ef við treystum okkur ekki til þess að gæta hagsmuna okkar í samskiptum við önnur ríki, við eigum í raun og veru ekki skilið að vera sjálfstæð þjóð ef við treystum okkur ekki til að haga okkur þannig í samskiptum við önnur ríki, auk þess sem við getum ekki með réttu ætlast til þess að ná eyrum annarra þjóða ef við viljum ekki hlusta á þær þegar þær telja hagsmunum sínum á þann veg háttað að þær þurfi á því að halda.

Hv. 5. þm. Vestf. talaði um gífurlegan þrýsting og að bretar hefðu mikinn áhuga á að ná fiskveiðiréttindum hér við land. Ég efast ekkert um að bretar hafi gífurlegan áhuga á að fá einhver fiskveiðiréttindi hér við land. En ef við teljum það ekki í samræmi við okkar hagsmuni, þ.e.a.s. að við náum fram með því gagnkvæmum fiskveiðiréttindum, þá takast auðvitað ekki samningar. Samningar takast ekki nema báðir aðilar telji síg hafa nokkru hag af þeim, og það er á þeim grundvelli sem til slíkra viðræðna verður gengið. Áður en við vitum, hvað gagnaðilinn hefur að bjóða okkur, er algerlega útilokað að segja hvort úr samningum verður eða ekki. Við höfum veitt síld í Norðursjó og lítillega botnlægan fisk við Grænland. Við vitum það enn fremur að karfi og þorskur við Grænland kemur á stundum hingað til lands. Við verðum að heyra í hverju fiskveiðiréttindi þau, sem okkur verða boðin, eru fólgin áður en við höfnum þeim eða gerum upp við okkur hvort við getum látið eitthvað í staðinn, þannig að á þessu stigi málsins er of snemmt að kveða eitt eða neitt upp úr um endalok þessara viðræðna. Samningar takast ekki af okkar hálfu nema við munum sjá okkur hag af þeim.

Hv. 2. þm. Austf. hneykslaðist nokkuð á því, að ég hefði ekki látið mér nægja að lýsa yfir að skammtímasamningahagsmunir ættu að ráða hvort úr samningum ætti að verða eða ekki. Ég held að það hvíli sú skylda á öllum þeim, sem fara með samningsumboð einnar þjóðar, að líta ekki eingöngu til dagsins í dag, heldur einnig hvað morgundagurinn ber í skauti sínu og líta yfir lengri veg, þegar skoðaðir eru hagsmunir þjóðarinnar. Þetta á einkum og sér í lagi við um samninga þjóða á milli.

Þegar þáltill. þessi um samkomulag við breta er til umr., þá er auðvitað ekki ástæða til þess að fara nánar út í hvað tekur við þegar samningstímanum lýkur. En umræðurnar um það, hvað tekur við þegar samningstímanum lýkur, sýnir þó, svo að ekki verður um villst, hvílíkur árangur hefur orðið af þessari samningsgerð, hvílíkan sigur við höfum unnið með þessum samningum, nefnilega það, að framvinda málsins er algerlega á okkar valdi, og við verðum að meta framvinduna og marka stefnuna í ljósi þess hvað er best í samræmi við hagsmuni Íslands í bráð og lengd.