01.03.1977
Sameinað þing: 58. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

113. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta hér í ljós þá skoðun mína, að ég tel að hér sé hreyft hinu merkasta málefni og mjög þýðingarmiklu. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hefur verið venja að gefa eftir aðflutningsgjöld og sum önnur gjöld af efni til rafvirkjana. Það er auðvitað vegna þess að það hefur ekki neinum blandast hugur um hve mikilvægar framkvæmdir raforkuvirkjanir eru. En svo mikilvægar sem raforkuvirkjanir eru, þá verður ekki annað sagt en hitaveitur séu eins þýðingarmiklar eða sambærilegar að mikilvægi. Ekki er það síst vegna þess, að nú um þessar mundir er verið að tala um og raunverulega verið að gera mikið átak til þess að hagnýta jarðvarma til upphitunar íbúðarhúsa. Á síðustu árum og allra síðustu mánuðum og missirum hefur verið gert alveg sérstakt átak í þessu efni. Í fyrsta lagi hefur verið kannað hvar jarðhiti er fyrir hendi sem hagnýtanlegur gæti verið til þess að hita upp íbúðarhús á þéttbýlissvæðum víðs vegar um landið. Í öðru lagi hefur, svo sem kunnugt er, verið lögð mikil áhersla á vinnsluboranir til þess að fá jarðvarma til að hagnýta til hitaveitna á hinum einstöku stöðum víðs vegar um landið, þar sem jarðvarmi er fyrir hendi.

Það er ástæðulaust fyrir mig að vera að leggja sérstaklega við þessa umr. frekari áherslu á þýðingu þessa máls. En það má gjarnan hafa það í huga, að orkulindir Íslands eru ekki síst fólgnar í jarðvarmanum. Það er einmitt á þessu sviði sem bæði í bráð og lengd er einna þýðingarmest að gera mikil átök. Í framkvæmd verður það gert með því að skapa möguleika til þess að hagnýta jarðvarmann, möguleika til þess að koma upp hitaveitum. Af þessum ástæðum legg ég áherslu á það, hve þýðingarmikið mál það er sem hér er hreyft.