26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þeir hv. þrír stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, hafa allir barið sér á brjóst og sagst vera 1 móti þeim samningi, sem gerður var í Osló, og ekki komi til greina að leyfa nokkrar veiðar útlendinga innan fiskveiðilandhelginnar, eins og ástand fiskstofnanna er. Vitaskuld eru allir íslendingar sammála um það, að við viljum nýta okkar fiskveiðilandhelgi einir. En það hafa áður komið aðvaranir um hættulegt ástand fiskstofna í hafinu umhverfis Ísland, og þá var samt gerður samningur um ekkert smámagn, eins og við breta 1973. Sá samningur fól ekki í sér neina viðurkenningu hreta á þeirri fiskveiðilandhelgi sem þá hafði verið ákveðin og færð út í 50 mílur. Það var mat þáv. ríkisstj. og meginhluta þáv. stjórnarandstöðu að það væri skynsamlegt og nauðsynlegt að gera slíkan samning til þess að fá frið, til þess að fá vopnahlé á miðunum umhverfis Ísland. Við vorum örfáir sem greiddum atkv. á móti þeim samningi þá, ekki af því að við vildum ekki semja, heldur að við töldum þann samning óaðgengilegan, og skal ég ekki fjölyrða um það frekar.

En af hverju gerðu þessir góðu íslendingar, sem töluðu hér áðan, af hverju studdu þeir þennan samning? Af hverju gengu þeir inn á þennan samning? Hann er þeirra samningur, þessara þriggja, þessarar heilögu þrenningar sem talaði hér áðan, þrátt fyrir aðvaranir fiskifræðinga. Þeir eru með ásökun í garð þeirra, sem síðan hafa verið þeirrar skoðunar að það beri að semja í deilumálum og hafa gert aðra samninga. En það eru skrýtin sinnaskipti þetta, allt í einu. Og hvers vegna fást menn ekki til þess að viðurkenna það, sem ég veit að þeir skilja vel, að samningurinn í Osló léttir á Íslandsmiðum? Hvernig stendur á því að greindur og reyndur maður eins og hv. 2. þm. Austurl. skuli fullyrða hér í ræðustól að breska heimsveldið hafi verið að gefast upp fyrir okkur íslendingum 1. júní? Ég er ekki herfræðingur, og ég hélt að þessi hv. þm. væri það ekki heldur, svo að það er erfitt fyrir okkur að meta hernaðarlega stöðu breta. Ég treysti mér ekki til þess. En eitt hafa bretar verið þekktir fyrir, það er fyrir seiglu, þrautseigju, og ég held að á henni einni saman hefðu þeir haldið út þangað til endalok Hafréttarráðstefnunnar lægju fyrir.

En við skulum líka, fyrst þessi tími er liðinn, líta á okkar stöðu. Hvernig var komið fyrir okkar varðskipum? Við sjáum núna á næstu mánuðum og kannske þegar kemur fram á næsta ár endanlega reikninga yfir allar þær ofboðslegu viðgerðir sem þurfti að gera. En þetta eru smámunir einir á við hitt, hve mikils virði það var og er að fá frið á miðunum. Það var áhyggjuefni allra manna að ef stórslys hefði orðið á miðunum, þá hefði það aldrei verið bætt. Það er hægt að gera við skip eða kaupa ný skip í staðinn fyrir þau sem verða ónýt eða farast, en það er ekki hægt að bæta fyrir mannslífin sem kunna að tapast í slíkum átökum. Þetta verðum við alveg örugglega að hafa í huga.

Við skulum líka hafa það í huga að á fyrstu 5 mánuðum s.l. árs veiddu bretar 36 þús. tonn, en þessa sömu mánuði á þessu ári veiddu þeir um 30 þús. tonn þrátt fyrir frækilega frammistöðu landhelgisgæslunnar tókst þeim undir herskipavernd að veiða 30 þús. tonn eða aðeins 6 þús. tonnum minna en þeir máttu veiða samkv. samningi þeirra Lúðvíks og Karvels sem var í gildi á árinu 1975.

Nú skulum við líta aftur á það, sem áunnist hefur, og líta á aflann þessa mánuði sem samningur hefur verið í gildi. Þeir veiða í júnímánuði í ár 6814 tonn, en 1975 veiða þeir í júní 15496 tonn. Í júlímánuði nú í ár veiða þeir 7803 tonn á móti 14398 tonnum árið á undan, í ágúst 8573 tonn á móti 13087 tonnum áríð á undan og í sept. 5483 tonn á móti 9444 tonnum. Er þetta ekki ánægjulegur árangur af þessum samningi, að ná friði á miðunum og minnka veiðar breta svona gífurlega eins og ég hef hér rakið?

Ef við lítum á heildarbotnfiskaflann 30. sept., þá er hann 477.9 þús. tonn, þar af er þorskur 291.2 þús. tonn. Íslendingar veiða af þessu magni 366.5 þús. tonn og þar af þorskur 239.6 þús. tonn. Afli breta af þorski er á öllu árinu 45.7 þús. tonn, þjóðverja 2.3 þús. tonn, færeyinga 3.5 þús. tonn, norðmenn og Belgar eru með eitthvað um 200–300 tonn, sem varla tekur að nefna. Þetta er þorskaflinn. En ef við lítum aftur á þá þróun sem hefur orðið á þessum árum, t.d. á árinu 1972, þá er heildarveiðin við Ísland af þorski og botnlægum fiski 691.8 þús. tonn og þar af er veiði íslendinga aðeins 380.4 þús. tonn eða 55%. Heildarveiði íslendinga á þorski er 57% þetta ár, á árinu 1973 fer þorskveiðin upp í 62%, 1974 í 64% og 1975 nálægt 70%, en nú á þessu ári hefur þorskafli íslendinga aukist hlutfallslega miðað við útlendinga og hann er kominn í 82.3% þessa fyrstu 9 mánuði ársins. En heildarhlutur okkar í öllum botnfiskaflanum þessa fyrstu 9 mánuði ársins er 76.7%. Ég fyrir mitt leyti er mjög ánægður með þessa þróun. En hún verður auðvitað að halda áfram í þessa átt og auðvitað eins fljótt og unnt er.

Það er vafasamt að þjóðverjar veiði að fullu og öllu það heildarmagn sem þeir mega veiða á einu ári, og það er það sem þeir héldu fram undir samningsgerðinni, miðað við skipafjölda, að þeir mundu ekki ná þessu aflamagni og voru mjög óánægðir með það. En í ágústlok hafði heildarveiði þjóðverja hér við land numið 46.4 þús. tonna, þar af var karfi 25.500 tonn tæplega og ufsi 13400 tonn, en þorskur aðeins 2.4 þús. tonn.

Við vitum það mætavel, að sókn okkar íslendinga sjálfra í einstakar tegundir af fiski hefur verið mjög takmörkuð. Við höfum lagt höfuðáhersluna á þorskinn og ýsuna og við höfum aukið verulega sóknina í ufsann, en samt erum við ekki nema með 70% af ufsa. Hins vegar er veiði okkar íslendinga á s.l. ári ekki nema 46% af heildarveiði karfa. Þar hefur verið um að kenna að íslensku togveiðiskipin hafa ekki sóst eftir karfanum nema þá einkum stóru togararnir, fyrr en þá nú að þetta hefur nokkuð breyst til hins betra, og þá hefur það verið gert með sérstökum ráðstöfunum um að hækka verulega verð á þessum fiski til þess að minnka um leið sóknina í þorskinn og auka veiðar í þessa fisktegund.

Hv. 2. landsk. þm. sagði í sinni ræðu að á fyrsta samningafundinum milli breta og íslendinga, sem var haldinn hér í Reykjavík, hefði aðstoðarutanrrh. breta farið fram á 100 þús. tonna veiði fyrir breta á ári. Þetta er ekki rétt, því að krafa Hattersleys á þessum fyrsta fundi var um 130 þús. tonna veiði, eins og samningurinn frá 1973 gerði ráð fyrir. Á þeim fundi sögðum við samningamenn íslendinga að slík krafa væri svo fjarri öllu að það tæki því varla að svara henni og það þýddi ekki að nefna neitt nálægt því þessa veiði við okkur. Og ég fullyrði það að enginn ráðh. í ríkisstj. leit einu sinni við helmingi af þessu magni eftir þennan fyrsta fund upp á það að semja um.

Hv. 5. þm. Vestf. gerði nokkuð að umræðuefni að utanrrh. Bretlands hefði sagt að fundur færi fram á ákveðnum degi, sem utanrrh. hefur þegar gefið yfirlýsingu um, og enn fremur hafði hann mörg orð um hvað breskur þingmaður, Prescott að nafni, hafi sagt hér um Efnahagsbandalagið og kröfu breta um að þeir fái samninga til jafnlangs tíma og þjóðverjar. Þó að menn séu nú um það bil að ganga í Alþfl., þá þurfa þeir ekki að gera að biblíu sinni tvo krata úti í Bretlandi, ég tel enga ástæðu til þess. Þessi Prescott, þm. Verkamannaflokksins, talaði hér í sjónvarp seinni partinn í sumar og þar lét hann þessi orð falla. Hann var mjög miður sín eftir viðræður sem hann hafði átt fyrr um daginn við íslensk stjórnvöld um þennan skilning sinn, vegna þess að hann fékk þau viðhorf að slíkt komi ekki til greina og íslendingar væru ekki til viðræðna um það, svo að það er alveg ástæðulaust að láta sér hitna eitthvað í hamsi út af því hvað þessi þm. sagði í sjónvarpinu þetta kvöld. Hitt er staðreynd, að í 10. gr. samningsins á milli Bretlands og Íslands segir: „Samningur þessi skal gilda í 6 mánuði frá gildistöku. Eftir að samningurinn fellur úr gildi munu bresk skip aðeins stunda veiðar á því svæði, sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, í samræmi við það sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu.“ Ég skil eiginlega ekki í mönnum að vera að deila um túlkunaratriði þessarar gr. samningsins, því að það er svo greinileg viðurkenning breta á því að bresk skip muni ekki veiða innan þess svæðis sem greint er í hinni íslensku reglugerð frá 15. júlí 1975, nema það sem samþykkt kann að verða af Íslands hálfu. Það segir sig sjálft að Ísland hefur vald til þess að hafna öllu, nema það verði boðið eitthvað sem íslendingar telja að sé þjóð sinni fyrir bestu.

Það er algert ranghermi hjá hv. 5. þm. Vestf. að ég sé hvetjandi þess að viðræður verði teknar upp við breta. Ég hef aftur sagt það, eins og utanrrh. hefur sagt og forsrh., að ríkisstj. er reiðubúin til þess að ræða við breta eða Efnahagsbandalagið ef þeir óska eftir viðræðum, sem við vitum að þeir muni gera, og utanrrh. hefur skýrt frá því hér að það hafa farið fram viðræður á einum fundi úti í Brüssel. Þær viðræður voru ekki um annað en það, að þar lýstu fulltrúar Íslands hvernig ástandið væri í fiskstofnum og hvað snertir ofveiði og fullnýtta ákveðna fiskstofna við landið. Og það var spurt: Hver er þá skoðun Efnahagsbandalagsins? Efnahagsbandalagið hafði enga stefnu fram að færa. Meira hefur ekki verið gert í þessum efnum. En það, sem auðvitað kann að gerast, er að Efnahagsbandalagið óskar eftir þessum viðræðum og ríkisstj. er ákveðin í að eiga viðræður við þessa aðila, en hún hefur ekki tekið neina ákvörðun um hvað skuli gert fyrr en hún heyrir hvað þar er um að ræða. Ég hef látið hafa það eftir mér, að við höfum ákveðið að ræða við breta eða Efnahagsbandalagið um gagnkvæm veiðiréttindi innan 200 mílna, og ég endurtek og legg á það áherslu að hér er aðeins um gagnkvæmar viðræður að ræða um fiskveiðiréttindi, en ekki um tollamál eða einhliða fiskveiðiréttindi breta á Íslandsmiðum. Og ég segi það fyrir mitt leyti, að ég tel að það komi ekki til greina annað en halda áfram þeirri ákveðnu viðleitni og baráttu að við nýtum fiskveiðilandhelgina einir, nema við fáum gagnkvæm fiskveiðiréttindi annars staðar sem við teljum að henti okkur betur.

Það er líka til eitt í því, að ef slíkar viðræður fara fram, þá geta þær beinst inn á þær brautir að það verði um einhverjar viðræður að ræða síðar, eins og hv. 2. þm. Austurl. benti á í sinni ræðu. Við vitum alveg hvernig ástandið er í okkar málum. En við verðum eðlilega að hafa þann hátt á, eins og kurteisum mönnum sæmir, að eiga viðræður við þessar þjóðir. Og við verðum líka að vera þess minnugir að Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er ekki endanlega lokið.