26.10.1976
Sameinað þing: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að stytta mál mitt, bæði af því að nokkuð er orðið áliðið og aðrir hafa beðið um orðið og eins vegna þess að ýmsu af því, sem til mín var beint, hefur nú þegar verið svarað, þannig að ég þarf ekki að dvelja lengi við það. En nokkur orð má ég þó til að fá að segja hér áður en þessari umr. lýkur.

Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Austurl. talaði um að hér væri um formsatriði að ræða sem enga þýðingu hefði, að fjalla um þennan samning þar sem hann væri næstum útrunninn. Ég skal fúslega fallast á að það eru skemmtilegri vinnubrögð að bera slíka samninga undir Alþ. áður en þeir taka gildi, og ég er því hlynntur þegar því verður við komið. En að hér sé einungis um formsatriði að ræða sem ekkert gildi hafi get ég ekki fallist á, því að ef Alþ. neitar staðfestingu á þessum samningi, þá er það ljóst að mínu mati að ríkisstj. hefur farið út fyrir umboð sitt og verður þá að víkja, alveg eins og vera mundi ef brbl., sem búin eru að þjóna gildi sínu og við þekkjum mörg dæmi um að eru borin undir Alþ., fengju ekki samþykki. Þess vegna álit ég að hér sé að vísu kannske um formsatriði að ræða, en formsatriði sem hafi þýðingu. Ég hygg að við getum verið sammála um að svo sé.

Ég veit ekki hvort hér ber að tala um meiri háttar samning eða minni háttar. Það sýnir sig að þessi samningur mun veita bretum möguleika á eitthvað nálægt 25–30 þús. tonna afla á því tímabili sem hann tekur til. Ég veit ekki hvort það er stórkostlegur samningur í augum hv. alþm. Mér finnst það ekki vera hvað snertir magn. Hann er helmingi hærri að vísu en samningurinn við færeyinga, sem eins var farið með, en hann er að öllu leyti ósambærilegur að mínu mati við t.d. samningana 1961, þar sem íslendingar ákváðu að leggja það á vald Haagdómstólsins hvort þeir færðu út lögsögu sina nokkurn tíma framar eður ei. Á þessu geri ég verulegan mun og finnst ekki fyllilega sambærilegt að bera þetta tvennt saman.

Um viðurkenninguna á 200 mílum þarf ég ekki að hafa mörg orð. Það hefur svo oft verið lesin upp 10. gr. Oslóarsamningsins úr þessum ræðustóli nú í kvöld, að ég held að menn hljóti að vera farnir að veita henni athygli hafi þeir ekki gert það áður. Þessi grein er ótvíræð viðurkenning á því, að við ráðum fiskveiðilögsögunni eftir 1. des. Ég veit að það þarf ekki að taka dæmi um það. En ekki mundi ég biðja hv. 2. þm. Austurl. til að mynda um að fá að sitja í bílnum hans heim, eins og ég hef stundum gert, nema af því að ég viðurkenni að hann á hann. Og þannig mætti mjög mörg dæmi taka sem ég skal ekki þreyta þm. á að nefna.

Hv. 2. þm. Austurl. sagði að bretar hefðu verið að gefast upp, og hann vildi sanna það með því að eftir að samkomulagið var gert, þá hefðu þeir viðurkennt það. En ætli það sé nú ekki svo með stjórnmálamenn í Bretlandi eins og kannske viðar, að þeir verði að réttlæta gerðir sínar? Mér dettur í hug að Crosland, þm. í Grímsby, hafi kannske dottið ofan á það að segja að það hafi ekki verið nein önnur leið út úr þessum ógöngum, sem Bretland var komið í, en að semja og bjarga þar með andlitinu, því að þeir hefðu orðið að gefast upp hvort sem var. Gæti þetta ekki verið hugsanleg skýring á því, hvers vegna bretar eða þessi tiltekni þm. viðurkenndi það eða hélt því fram að bretum hefði ekki verið stætt lengur á styrjöldinni.

Hér hefur verið talað um að það væri ástæða til þess að lýsa því yfir fyrir fram nú þegar að ekki væri ástæða til þess að eiga nein samtöl við Efnahagsbandalag Evrópu eða þá breta, þar eð ástand fiskstofnanna væri þannig hjá okkur að óhugsandi væri að við gætum neitt látið í staðinn fyrir það sem þeir kynnu að vilja bjóða. Ég vil segja það í tilefni af þessu, að ég er því fylgjandi og fýsandi — eða a.m.k. fylgjandi, skulum við segja, að viðræður við Efnahagsbandalag Evrópu fari fram, ef þeir óska, til þess að í ljós komi hvað þeir hafa að bjóða sem okkur mætti að gagni koma. Ég er síður á því að tala við breta eina, m.a. vegna þess að ég kem ekki auga á að þeir hafi yfirleitt nokkuð það að bjóða sem geti verið ávinningur fyrir okkur að láta eitthvað í staðinn fyrir. Að vísu skal ég viðurkenna það, að ég er enginn sérfræðingur í fiskveiðum og fiskveiðimálum, og það kann vel að vera að þetta sé rangt ályktað hjá mér. En svona hef ég hugsað þetta mál fyrir mitt leyti. Ég sagði það í Nd. og ég skal endurtaka það hér í tilefni af því sem sagt hefur verið, að ég vil ekki hafna viðræðum við Efnahagsbandalag Evrópu ef fram á það verður farið, en ég tel að það verði að fara mjög varlega í þeim viðræðum og við eigum að gæta vel að okkur í þeim viðræðum, — ég skal undirstrika það.

Um Grænland og fiskveiðiréttindin þar þykir mér rétt að segja frá því hér, að ummæli Ívars Nörgaards, viðskrh. dana, voru ekki alls kostar rétt eftir höfð í því blaði sem birti þau hér. Það var, ef ég man rétt, sagt í því blaði, að Grænland mundi ekki falla undir efnahagslögsögu Efnahagsbandalagsins. Þetta hefur síðan verið borið til baka, en jafnframt lögð á það áhersla, að grænlendingar fengju sérstök réttindi, hefðu sérstöðu. En það var áréttað af talsmanni dana hjá Efnahagsbandalagi Evrópu við sendiherra okkar þar, að Grænland mundi falla undir yfirráð Efnahagsbandalagsins, en sem sagt leita eftir nokkurri sérstöðu, sem ég get því miður ekki upplýst á þessu stigi í hverju á að vera fólgin. Þetta skiptir kannske ekki neinu meginmáli, en ég vildi leyfa mér að geta um þetta af því að ég er nýbúinn að fá þessar upplýsingar.

Hv. 2. landsk. þm. tjáði mér að hann þyrfti að fara af fundi, og þess vegna mun ég nú kannske ekki fara eins nákvæmlega út í hans mál og annars mundi verið hafa. En ég kemst ekki hjá því að gagnrýna þann málflutning sem hann viðhafði hér um okkur í ríkisstj., þar sem hann gaf í skyn að ýmsir okkar hefðu viljað fallast á upphaflegar till. Hattersleys aðstoðarráðherra breta. Ég veit ekki undir hvaða tegund blaðamennsku á að flokka þetta, en rannsóknarblaðamennska er það áreiðanlega ekki. Hér er verið að gefa í skyn að menn hafi viljað semja um 130 þús. tonna ársafla til handa bretum, sem sagt um óbreyttan samning frá 1973. Ég staðhæfi að það var enginn ráðh. sem vildi ganga til þeirra samninga, ekki einn einasti, og það þó um miklu minna magn væri að tefla.

Það er sagt núna að viðurkenning breta hafi enga þýðingu, hér liggi ljóst og hreint fyrir að 200 mílur séu alþjóðalög, um það þurfi ekki að ræða, norðmenn hafi þegar í júní verið sannfærðir um að 200 mílur væru orðnar staðreynd. En þá liggur manni við að spyrja: Eftir hverju eru norðmenn þá að biða til 1. jan. 1917, ef það eru í þeirra augum alþjóðalög í júní 1976 að 200 sjómílna fiskveiðilögsaga sé réttur hvers einasta ríkis? Slíkan málflutning fæ ég ekki með neinu móti skilið, enda held ég að það sé mála sannast, að þrátt fyrir það að líklega muni engum detta í hug lengur að beita ofbeldi gegn 200 mílum, þá eru þó enn þá ríki sem viðurkenna þær ekki í reynd. Þess vegna hefur m.a. gengið svo erfiðlega á Hafréttarráðstefnunni sem raun ber vitni og margir hv. alþm. þekkja af eigin raun að koma saman alþjóðalögum um þetta efni. En ég trúi því engu að síður fastlega eftir síðasta fund Hafréttarráðstefnu í New York, sem endaði í maí ef ég man rétt, að þá muni kaflinn um einkarétt strandríkis haldast. Ef það er þetta sem hv. 2. landsk. hefur meint og annað ekki, þá get ég út af fyrir sig verið sammála því.

Ég mótmæli því að við höfum keypt af okkur ofbeldi og við höfum keypt af okkur efnahagsþvinganir. Við gerðum samning sem minnkaði þær veiðar sem bretar héldu uppi undir herskipavernd. Það, sem við náðum með samningnum, var í fyrsta lagi að losna við ofbeldi, í öðru lagi að losna við efnahagsþvinganir og í þriðja lagi að minnka afla breta.

Ég tek alveg undir það með hv. 5. þm. Vestf., að það er mjög leiðinleg staðreynd, sem ekki verður þó á móti mælt, að margsinnis hefur sá trúnaður, sem settur hefur verið á ýmis mál, verið brotinn. Og það er illt til þess að vita, hver sem í hlut á. En það gildir ekki bara um þýsku samningana, hv. 5. þm. Vestf., það gildir um fleiri samninga, og um það er hægt að finna dæmi í dagblöðunum, fleirum en því sem þarna átti hlut að máli. En ég endurtek, að það er leitt til þess að vita að þetta skuli hafa átt sér stað, og ég get vel skilið að mönnum, sem ekki hafa brotið trúnað, þyki hart undir því að búa að aðrir geri það. Ég vona að okkur takist í framtíðinni að komast hjá slíkum vinnubrögðum því að þau þjóna ekki nema slæmum tilgangi að mínu mati.

Síðan vil ég ítreka það, að ummæli Croslands utanrrh. breta um ákveðinn fund 3. nóv. eru ranghermi. Það hlýtur að stafa af því að hann hafi óskalista um hvaða dag hann geti fengið viðræður við Ísland. Viðræður við okkur hafa ekki verið nefndar á nafn, ekki farið fram á þær og viðurkennt að slíkt sé ekki hægt fyrr en bandalagið hefur sjálft fastmótaða stefnu í fiskveiðimálum. Ég vona að menn taki þetta gilt, því að hér er algerlega rétt frá skýrt. Við gátum aldrei vænst þess, held ég, og getum aldrei vænst þess að það verði aldrei farið fram á nein fríðindi af okkar hálfu, t.d. innan fiskveiðilögsögunnar, af því að það er helsta auðlind sem við eigum. Við gengum heldur ekkert að því gruflandi í júní, þegar við vorum að gera þennan samning, að það mundi gerða leitað á okkur eftir 1. des., það þarf engum á óvart að koma. Það segir berum orðum í bréfi Croslands til okkar að ríkisstj. Bretlands muni fara þess á leit við Efnahagsbandalag Evrópu að það hefji samningaviðræður við Ísland svo fljótt sem verða má um samkomulag til langs tíma um gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Það þarf því engum á óvart að koma þótt fast verði á okkur leitað, og við skulum alveg búa okkur í stakk til þess að mæta því, enda hygg ég, að sjálfstæðisbaráttu þjóðanna ljúki seint, og þetta er kannske sú sjálfstæðisbarátta sem við heyjum hvað erfiðasta. Það er að halda auðlindum okkar fyrir okkur sjálfa.

Ég skal svo, herra forseti, láta máli mínu lokið. Ég sé ástæðu til þess að gera þessar örstuttu aths. við þær ræður sem hér hafa verið haldnar.