03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

65. mál, tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Hann upplýsti að n. þessi hefði verið skipuð 25. nóv. s. l., en eins og kunnugt er fluttum við þá þáltill., sem hér um ræðir, í þingbyrjun, og einnig mun þá hafa verið fram komin fsp. sem ég gerði áðan að umtalsefni, um tölvubanka rannsóknarlögreglunnar.

Í þeim umr., sem fóru fram um fyrrnefndan tölvubanka, upplýsti hæstv. dómsmrh. að um væri að ræða tilraunastarfsemi sem einungis ætti að standa í fimm mánuði eða fram í febrúarmánuð 1971 og allar ákvarðanir, sem teknar hefðu verið um starfrækslu þessa tölvubanka, væru ákvarðanir til bráðabirgða. Ég var þess vegna að vona að nú, þegar sá mánuður er liðinn, febrúar 1977, þá mundu liggja fyrir einhverjar frekari upplýsingar af hálfu dómsmrn. um það, hvaða stefnu þessi mál mundu taka. En ég heyri að svo er ekki, og verður þá við það að sitja. En ég vil eindregið leyfa mér að skora á hæstv. dómsmrh. og dómsmrn. að taka þessi mál til meðferðar, þannig að þau megi nokkuð skýrast.

Hæstv. dómsmrh. komst svo að orði, að sums staðar erlendis hefði það tekið nokkur ár að semja lög af því tagi sem hér um ræðir. Þetta er vissulega nýtt svið og mjög flókið, og þar sem þetta verk hefur verið unnið kannske án mikillar fyrirmyndar annars staðar frá, þar er eðlilegt að slíkt taki talsverðan tíma. En ég tel að þessi mál séu það langt komin alls staðar í kringum okkur og við höfum þegar dregist það mikið aftur úr í þessum efnum, að ástæðulaust sé að við þurfum að biða mörg ár eftir því að geta fjallað um slíka löggjöf hér á Alþ. Ég vil því eindregið vekja athygli á orðum hæstv. dómsmrh., að hann hefði ekki neitt við það að athuga að Alþ. gæfi viljayfirlýsingu um að þessi löggjöf gæti verið tilbúin næsta haust. Ég vænti þess sem sagt að aðrir alþm. verði sammála um þetta.