03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson flutti þáltill. á þskj. 131, þegar hann átti sæti á þingi í nóv. Meðflm. hans að till. eru hv. þm. Tómas Árnason, Eðvarð Sigurðsson og Magnús T. Ólafsson. Það hefur orðið að ráði að ég mælti fyrir till. í fjarveru Braga.

Till. er um fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti nú þegar semja frv. til breytinga á lögum og geri aðrar ráðstafanir til undirbúnings því, að komið verði á fljótvirkari og ódýrari meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum. M. a. geti dómari ákveðið, að mál, sem höfðuð eru af viðskiptavinum verslunar eða þjónustufyrirtækis vegna viðskipta við fyrirtækið, hljóti skjótari og ódýrari afgreiðslu en nú tíðkast. Meðferð þessari megi beita við minni háttar mál, sem varða allt að 100 þús. kr. Við þessar lagabreytingar verði meðferð líkra minni háttar mála í öðrum löndum höfð til hliðsjónar, en reglur færðar til íslenskra aðstæðna.“

Alloft er því hreyft, að meðferð mála hjá dómstólum landsins gangi seint, og þær raddir heyrast, að ekki borgi sig að fara með mál fyrir dómstólana, meðferð þeirra sé svo hæg og kostnaðarsöm. Til þess að bæta úr þessu er óskað eftir sérdómstólum til að fara með ákveðna málaflokka. Nægir hér að nefna dómstól í ávana- og fíkniefnamálum, sem hefur verið stofnaður, og umferðardómstól, sem sífellt er óskað eftir. Það mun mála sannast, að þeir, sem best þekkja til, séu yfirleitt andvígir sérdómstólum. Benda þeir t. d. á, að sérdómstólar, sem fyrir eru í landinu, eru starfræktir að miklu leyti af sömu mönnum og almennu dómstólarnir. Stafi þetta af því, að takmarkaður fjöldi manna hafi þjálfun í raunverulegum dómsstörfum og umdeilanlegt hljóti að teljast, hversu mörgum mönnum þjóðfélagið geti séð af til þessara starfa.

Í neysluþjóðfélagi eins og því íslenska fer ekki hjá því, að upp komi fleiri eða færri deilumál m. a. milli neytenda og þeirra sem selja þeim vörur og þjónustu. Mörg þessara mála varða hvert um sig e. t. v. ekki mikla upphæð, og verður það óhjákvæmilega til þess, að neytandanum þykir ekki borga sig að eyða tíma eða fé fyrir dómstólunum. Á þennan hátt fer forgörðum heilbrigt aðhald sem verslunarstéttunum er nauðsynlegt.

Þá má benda á, að til þess að skapa þetta aðhald, án þess að það leiði til mikils kostnaðarauka fyrir ríkið, er lagt til að þeirri þjónustu verði komið á fót, sem till. gerir ráð fyrir. Þessa meðferð mála mætti einnig nýta í öðrum skyldum smámálum og létta þannig vinnuálagi af dómstólunum, en það hlýtur þá einnig að leiða til hraðari meðferðar hinna umfangsmeiri mála.

Það mun mála sannast, að þau mál, sem fyrir dómstóla eru lögð í dag, eru mjög mismunandi. Sum þeirra eru tæpast þess eðlis, að full þörf sé á eins vandvirknislegri meðferð og nú tíðkast. Rétt er að dómari ákveði, hvort þessa meðferð megi við hafa, þar sem hann er í bestri aðstöðu til þess að meta hvort hún eigi við. Rétt er að meðferð málsins fari eftir eðli þess, en venjulega ætti ekki að þurfa að krefjast eins ríkra sannana og í venjulegu máli og aðilar ættu að mega leggja málið fyrir á þann hátt sem þeir kjósa. Stefna ætti að því, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu að mestu. Sérfræðileg atriði er að jafnaði rétt að leysa með aðstoð meðdómenda. Úrskurður samkv. þessari meðferð ætti að hafa sömu áhrif og dómur í venjulegu dómsmáli.

Herra forseti. Ég hef tekið fram helstu atriðin úr grg. þeirri, sem Bragi Sigurjónsson reit með till. sinni, og legg til að lokum að till. verði vísað til allshn.