03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Hver sú viðleitni, sem stuðlar að því að gera meðferð máls fyrir dómi skjótvirkari og ódýrari, er góðra gjalda verð. Ég tel að þessi till. sé flutt í þeim tilgangi, og þess vegna fagna ég því að þetta mál verði tekið til athugunar. Hins vegar mætti kannske, ef til kæmi, afmarka þetta nánar og á þann veg, sem mér sýnist að hafi vakað fyrir flm., sem sé að þarna er átt við fjárkröfur sem ekki ná tilskilinni fjárhæð. En ef talað er bara um minni háttar mál, þá er það nokkuð teygjanlegt hvað eru minni háttar mál og hvað ekki, vegna þess að það geta verið ýmsir hagsmunir, sem ekki verða endilega metnir til fjár, sem aðilum þykja mikilsverðir. En ég þykist sjá það raunar bæði af tillgr. og eins af grg., að það hafi verið þetta sem í raun og veru hefur vakað fyrir flm., það séu minni háttar fjárkröfur eða lágar fjárkröfur einkamálaréttarlegs eðlis sem þarna eru hafðar í huga. Tel ég gott að það sé athugað.

Ég vil benda á að það hefur sitthvað verið gert í þessu efni. Sérstaklega eru það lög sem sett voru á sínum tíma um svokölluð áskorunarmál, sem eiga að stuðla að fljótvirkari meðferð í smærri málum sem varða fjárkröfur. Sú aðferð er mikið notuð hjá dómstólum og hefur gert sitt til þess að flýta fyrir afgreiðslu þeirra.

Í annan stað vil ég sérstaklega undirstrika það, að auk lögréttufrv., sem liggur fyrir, þá liggur fyrir einnig frv. til l. um breytingu á meðferð einkamála í héraði. Það liggur fyrir í hv. Ed. Í því frv. eru einmitt ákvæði sem eiga að stuðla að skjótvirkari meðferð dómsmála. Það er engan veginn útilokað að lögfesta það frv. út af fyrir sig þó að menn vildu athuga lögréttufrv. betur. Í þessu frv. er t. d. felld alveg niður meðferð fyrir sáttanefndum, sáttanefndir lagðar niður, og það ætti að sjálfsögðu að verða til þess að flýta meðferð dómsmála, gerandi ráð fyrir því, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, að ekki kveði ýkjamikið að sáttameðferð hjá sáttamönnum. En út af fyrir sig getur það verið gott og gilt ef sáttanefndir starfa og sáttamenn kveða upp úrskurð í allra smæstu málum, sem þeir hafa líka heimild til eftir einkamálalögum. Ég vil enn fremur nefna það, að í þessu frv. er gert ráð fyrir .að úrskurði þurfi ekki að rökstyðja, og það er einmitt í samræmi við þá hugsun sem kemur fram í þessari þáltill., að einstaka úrskurði, sem kveðnir eru upp í sambandi við meðferð máls, þarf ekki að rökstyðja, en það er önnur regla en nú gildir. Þess vegna ætti eftir þessu frv., ef það verður að lögum, að verða miklu fljótunnara starf fyrir dómara að kveða upp úrskurði. Þá er enn fremur samkv. þessu frv. undirstrikuð og staðfest sú meðferð, sem átti í raun og veru að vera lögleidd með einkamálalögunum í upphafi, að unnið sé að málum í einni lotu, eftir að grundvöllur málsins hefur verið lagður með þingfestingu, greinargerða sækjanda og verjanda, þá fari fram munnlegar yfirheyrslur og gagnasöfnun í einni lotu, en ekki eins og nú á sér stað, að það eru sífelldir frestir sem koma til greina, þetta vitni tekið fyrir í þessu þinghaldi, annað í öðru þinghaldi einhvern tíma seinna o. s. frv., og loks er málið tekið til flutnings þegar allri gagnasöfnun er lokið. Sú aðferð, sem höfð er í huga í þessari þáltill., er undirstrikuð einmitt í þessu frv., að því fráskildu að það er auðvitað gert ráð fyrir vandaðri meðferð af því að þetta á við um öll mál. Þess vegna er t. d. ekki gert ráð fyrir því, að hægt sé að hafa þá einföldu aðferð sem gert er ráð fyrir í grg. með þessari þáltill. að það sé hægt að færa úrlausnina inn á stefnu án alls rökstuðnings.

Ég held að þetta frv. um breyt. á l. um meðferð einkamála sé mjög þýðingarmikið. Ég skil það vel að hv. alþm. þurfi að gefa sér tíma til að athuga frv. til lögréttulaga, vegna þess að þar er um að ræða gerbreytta skipun á dómsmálakerfi landsins. En ég fyrir mitt leyti held að það sé í raun og veru önnur leið til þess að flýta því að menn fái kröfum sínum mörgum hverjum fyrr fullnægt heldur en nú á sér stað. Þar á ég við það, að heimilað er í lögum að út af veðskuldabréfi, sem fullnægir tilteknum skilyrðum, þurfi alls ekki að fara í mál, heldur megi leita aðfarar eftir því beint hjá fógeta. Ég held að það þurfi að athuga hvort það eru ekki miklu fleiri skjöl sem geta sætt þeirri meðferð sem veðskuldabréf nú sæta. Hvers vegna — liggur mér við að segja — á að vera að ónáða dómstóla með víxlum, sem eru augljósir, eða tékkum? Því á ekki að vera heimilt að fara með þá beint til fógeta? Ég bara bendi á þetta í þessu sambandi. Þetta mál þarf nánari athugunar við, en mér finnst að þarna geti verið einmitt um að ræða leið til þess að létta starfi af dómstólum og koma í veg fyrir þann tvíverknað sem á sér í raun og veru stað, þar sem fyrst verður að fara til dómara til að fá dóm fyrir kröfunni, síðan verður að fara til annars dómara, fógetans, og fá hann til að fullnægja kröfunni, og svo til þriðja dómarans, uppboðshaldara, ef til kemur, og fá hann til að bjóða upp.