03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

110. mál, meðferð minni háttar mála fyrir héraðsdómstólum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka vinsamlegar undirtektir hæstv. dómsmrh. undir þetta frv. Braga Sigurjónssonar og þriggja meðflm. hans.

Ég skal verða síðastur manna til að draga nokkra dul á það, .sem fram kom í ræðu hv. þm. Tómasar Árnasonar, að mikið hefur gerst í sambandi við umbætur á lögum um dómskerfi landsins á undanförnum árum. En þróun þjóðfélagsins á þessum sama tíma og ýmsir atburðir hafa einnig orðið til að draga það mjög skýrt fram í dagsljósið, hversu nauðsynleg slík umbótastarfsemi var og að hún hefði raunar þurft að hefjast löngu fyrr.

Það kemur fram í till. og grg., hvað fyrir flm. vakir. Ég tel sjálfsagt að þeir mundu fagna því, ef tilganginum yrði náð á einhvern hátt, og þá alveg sérstaklega ef hægt yrði að ná megintilgangi till. með því að fella efni hennar á einn eða annan hátt inn í frv. sem þegar liggja fyrir þinginu. Meginmálið er að flýta afgreiðslu mála fyrir dómstólum, um það eru allir sammála, og til þess hefur margvísleg viðleitni verið höfð uppi, eins og fram hefur komið í síðustu tveim ræðum.

Einnig er rétt að hafa í huga að við þurfum að gera dómstólakerfið þannig úr garði að það sé aðgengilegt almenningi, hinum umkomulausa einstaklingi sem á ekki þægilegt með að leita sér faglegrar hjálpar, að kerfið sé ekki þannig að slíkt fólk fælist frá því að leita réttar síns, ýmist vegna þess hve kerfið er flókið, hve afgreiðsla tekur langan tíma eða hve afgreiðsla getur verið dýr. Ég las í blöðunum nú nýlega að rithöfundur einn, sem fór í mál til að heimta ritlaun, hafi unnið málið og fengið 3 þús. kr. greiddar fyrir nokkur kvæði. En ég held að lögfræðingurinn hafi hirt 25 þús. kr. Ég býst við að það séu margir sem hika einmitt með smáu málin, sem oft eru, eins og hæstv. ráðh. benti réttilega á, fjárkröfur út af einhvers konar viðskiptum. En ég vil benda á að umbætur á afgreiðslu mála fyrir dómstólum stuðla að því að gera þá aðgengilegri. Við þurfum að hafa þetta í huga um jafnréttismál, sem ég tel að sé í anda þess hugsunarháttar sem þjóðin hefur tileinkað sér í vaxandi mæli, eins og raunar aðrar þjóðir, það eigi að gera hverjum borgara, hversu umkomulítill sem hann er, fært að leita réttar síns ef hann telur sig vera misrétti beittan.