03.03.1977
Sameinað þing: 59. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

117. mál, bygging dómshúss

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál., svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja undirbúning, þ. e. lóðarval, hönnun og fjármagnsöflun að byggingu dómhúss yfir héraðsdómstólana í Reykjavík, rannsóknarlögreglu ríkisins og embætti ríkissaksóknara. Stefnt skal að því að byggingu hússins verði lokið fyrir 1981.“

Margt hefur verið rætt og ritað um dómsmál að undanförnu, og fram hefur komið réttmæt gagnrýni á seinagang í meðferð mála og í réttarfari. Segja má að þjóðin hafi vaknað af Þyrnirósarsvefni og áttað sig á mikilvægi dómstólanna og geri nú allverulegar kröfur til aukinna virkni og aukins hraða í meðferð dómsmála. Vissulega er þessi gagnrýni að mörgu leyti á rökum reist. En ekki er að öllu leyti um að kenna illu innræti stjórnmálamanna eða slökum dómgæslumönnum, heldur sýnast það vera aðrar ástæður sem þar um valda. Má þar nefna það sem fram kom í umr. um mál það sem hér var á dagskrá áðan, að réttarfarslöggjöfin er þannig úr garði gerð að hún greiðir a. m. k. ekki fyrir auknum hraða í meðferð mála og mætti þar margt lagfæra og bæta úr að flestu leyti.

En önnur ástæða er líka sú, að starfsskilyrði dómstóla eru afar slæm. Segja má að það sé forsenda þess að hægt sé að gera verulegt átak í dómsmálum til aukins réttlætis og til þess að bæta hag þeirra, sem þangað þurfa að leita, að starfsaðstaða dómstólanna sé bætt. Og ég held að það sé sómi réttarríkis að svo verði gert. Sannleikurinn er sá, að starfsaðstaða dómstólanna í Reykjavík er fyrir neðan allar hellur. Borgardómaraembættið, borgarfógetaembættið, embætti ríkissaksóknara eru öll í leiguhúsnæði, og ég hef fengið upplýsingar um það, að leigugjald fyrir þetta húsnæði, sem nefnd embætti eru til húsa í, sé um 10 millj. kr. á ári. Þá hef ég ekki talið með embætti sakadómara í Reykjavík. Það embætti er að vísu í húsnæði ríkissjóðs, en það húsnæði hefur ekki verið byggt fyrir slíka starfsemi og er í alla staði ófullnægjandi. Þessi starfsaðstaða, þessi húsakostur er í öllum tilfellum afar óhentugur, enda eru viðkomandi hús ekki byggð með það fyrir augum að dómstörf fari þar fram og dómstólar hafi þar aðsetur. Nú hefur verið stofnað nýtt embætti rannsóknarlögreglu ríkisins, og mér skilst að það embætti sé á hrakhólum með húsnæði.

Skoðun mín er sú, að hér sé um að ræða kotungsskap sem sé í hrópandi ósamræmi við þá reisn og þann metnað sem sérhverju réttarríki ber að hafa fyrir hönd dómsvalds síns. Ég tel því að tími sé til kominn að hér sé gerð bragarbót á og að fjárveitingavaldið veiti nokkurt fé til þess að byggja sérstakt hús yfir þessa starfsemi, þar sem öll viðkomandi dómsembætti komist fyrir. Það er viðtekin venja erlendis og þykir sjálfsagt að reisa slík hús, þar sem réttarríki er á annað borð, og þau hús eru oftast nær glæsilegar byggingar og sóma sér vel í hinum ýmsu borgum, hæði að fegurð og notagildi. Því er það að þessi till. er hér lögð fram og gert ráð fyrir að nú sé hafinn undirbúningur að byggingu dómhúss í Reykjavík og gert ráð fyrir að þeirri byggingu verði lokið 1981. Þó er það ekki í mínum augum aðalatriði að setja slík tímamörk og kemur vel til greina að breyta þeim eða fella þau niður. Aðalatriðið er að nú sé hafist handa.

Ég tek undir flest af því sem sagt var í umr. áðan varðandi till. um úrbætur á réttarfari. Þar tóku til máls tveir hv. þm. ásamt hæstv. dómsmrh. Mál þeirra hneig í sömu átt. Það var eindrægur vilji til þess af þeirra hálfu að gera nú verulegt átak til þess að dómsvaldið liggi ekki áfram undir gagnrýni vegna seinagangs við meðferð mála. Ég tel að jafnframt slíku átaki geti og sé nauðsynlegt að farið sé af stað með byggingu dómhúss, það sé hægt að hnykkja á þessu máli með því að samþykkja þessa till. sem hér er nú á dagskrá.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. allshn.