07.03.1977
Efri deild: 48. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

150. mál, fávitastofnanir

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Varðandi orð hv. 4. landsk. þm. vil ég taka fram, að þetta atriði var rætt allmikið í n. og einnig átti formaður n. viðræður við stjórn Landssambands þroskaheftra. Við urðum ásátt um að þar sem hér væri um brtt. við ákveðin lög að ræða, þ. e. a. s. lög um fávitastofnanir, þá væri best að hleypa þessu í gegn eins og það er orðað þarna, vegna þess að nú eru lög um fávitastofnanir í endurskoðun og reyndar er verið að undirbúa heildarlöggjöf um þennan hóp. Þá mun nafninu án efa verða breytt. Frv. að þessari löggjöf mun nú vera tilbúið, löggjöf í um 35 eða 36 greinum, og ætlast er til að það fari nú til umsagnar til ýmissa aðila sem um þessi mál fjalla og með þau hafa að gera. Væntanlega verður svo frv. að nýrri heildarlöggjöf lagt fyrir næsta Alþ. Varð samkomulag um að frekari breyt. yrði þess vegna ekki gerð á lögum um fávitastofnanir í þetta sinn.