07.03.1977
Neðri deild: 55. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

144. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu í hv. Ed., en þó þannig, að þar voru gerðar á því nokkrar breytingar. Þetta frv. miðar að því að lögfesta grundvallarreglur við úthlutun olíustyrksins.

Í fjárl. fyrir árið 1977 er gert ráð fyrir að verja 698 millj. kr. í styrk til einstaklinga vegna upphitunar íbúðarhúsnæðis með olíu og til rafveitna vegna framleiðslu rafmagns með olíu til upphitunar íbúða. Sú breyting var gerð, að þessi liður er í fyrsta skipti tekinn í fjárl. nú og tekjuöflun í þessu skyni er skv. lögum um söluskatt, en áður giltu sérstök lög um tekjuöflunina og úthlutun styrksins. Framlag til Orkusjóðs er nú sérstakur liður í fjárlögum.

Eldri lög um þetta efni giltu frá 1. mars 1976 til 28. febr. 1977, en voru afnumin frá 1. jan. s. l. með breyt. á l. um söluskatt. Er gert ráð fyrir því í þessu frv., að desembergreiðsla skv. þeim lögum verði greidd með greiðslu fyrir janúar til mars 1977 og tekjuöflun til hennar verði skv. eldri lögum.

Ákvæði þessa frv. eru ekki tímabundin, þannig að þau gilda áfram á meðan fé er veitt í fjárl. í þessu skyni. Rétt þykir að viðskrn. ákveði fjárhæð styrksins miðað við fjárveitingu hverju sinni.

Eins og hv. þm. er kunnugt eru hitaveituframkvæmdir á döfinni á nokkrum stöðum, svo sem á Reykjavíkursvæðinu, Suðurnesjum, Siglufirði og víðar. Þær munu smám saman draga úr fjölda þeirra sem olíustyrksins njóta, þannig að meira ætli að öðru jöfnu að geta komið í hlut hvers er styrk fær.

Þegar þetta frv. var lagt fram á sínum tíma í Ed. var gert ráð fyrir alveg óbreyttum reglum um þá sem yrðu styrks aðnjótandi, þ. e. a. s. að þá voru í frv. aðeins a- og b-liður 1. gr. frv. Að till. hv. fjh.- og viðskn. Ed. var gerð sú breyt. á, að við var bætt e-lið og d-lið. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fjölyrða um þá. Ég dreg ekki í efa að þörf sé þar fyrir hendi, en undirstrika aðeins það, að við afgreiðslu fjárlaga var ákveðin sú heildarfjárveiting sem er til úthlutunar á þessu ári, og því verður ekki breytt. Var í því sambandi rætt um meginstefnuna í þessum efnum, þannig að það á ekki að vera þörf á að endurtaka þær umr. Hér er aðeins um að ræða að úthluta þeirri fjárhæð sem var ákveðin í fjárl., og hún er fastákveðin fyrir þetta ár. En að sjálfsögðu er það svo á valdi fjárlagagjafans framvegis að ákveða þessa upphæð. Getur hann þá í næstu fjárl., með tilliti til þeirrar viðbótar sem nú hefur verið sett inn í 1. gr., ákveðið hana ríflegri en nú er gert. En sú fjárveiting, sem ákveðin var í fjárl., 698 millj., verður knöpp til úthlutunar og þess vegna ekki hægt að fullyrða að hægt sé að hafa upphæðina hærri í krónutölu en var á s. l. ári. Að sjálfsögðu mun það verða athugað nánar, áður en reglur verða settar um þetta, og mun reynt að stefna að því, ef mögulegt reynist, að fjárhæð geti orðið, miðað við ár, um 10 500 kr. á einstakling, en hún hefur verið 9500 kr. Ég geri ráð fyrir að fjárveitingin mundi a. m. k. fara langt að því að hrökkva til þess að mæta þeirri úthlutun. En ég vil aðeins undirstrika það, að auðvitað verður úthlutun til hvers og eins að taka mið af þeirri heildarfjárveitingu sem þegar hefur verið samþ., þannig að mönnum verður að vera það ljóst, þegar þeir samþ. nýja aðila sem eiga að verða þessa aðnjótandi, að það hefur þau áhrif að minna verður til skiptanna á milli hinna sem áður nutu styrksins.

Þetta frv. er sem sagt fyrst og fremst til þess að fá fullkomlega lagalegan grundvöll undir úthlutunina, en nánari reglur er svo gert ráð fyrir að viðskrn. setji. Þar á meðal verður sjálfsagt að skýra nánar b-liðinn sem er ekki alls kostar ljós eins og hann er í greininni. En ég geri ráð fyrir að það verði talið að rn. hafi heimild til þess með reglugerð að skýra það nánar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.