27.10.1976
Efri deild: 6. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

37. mál, tollskrá

Albert Guðmundsson:

Forseti. Ég vil að sumu leyti taka undir með hv. flm., 5. þm. Norðurl. e., og undir hans málflutning, en þó ekki að öllu leyti. Ég er mjög hræddur um að í þessu frv. felist vissar hættur. Í lok 1. gr. segir: „Eftirgjöf þessi nái einnig til smíðaefnis í slíkar talstöðvar fyrir fatlaða.“ Það er afskaplega erfitt að gera mun á því hvaða smíðaefni og hvaða varahlutir eiga að fara sérstaklega í tæki þau sem fatlaðir og bæklaðir til gangs kæmu til með að nota, þannig að till. býður þarna upp á vissa möguleika á því að komast hjá því að greiða eðlileg aðflutningsgjöld fyrir þá sem ekki eiga að njóta þeirrar undanþágu sem frv. getur um. Þess vegna hefði ég talið eðlilegast, þar sem flm. hefur upplýst að hér sé um að ræða tiltölulega fámennan hóp, sem skiptir nokkrum tugum, að þessi 1. gr. yrði umorðuð eitthvað á þá leið, að Landssíminn láni endurgjaldslaust talstöðvar í bifreiðar fatlaðs fólks sem er lamað eða bæklað til gangs. Slíka till. mundi ég álíta heppilegri fyrir þetta fólk. Landssíminn sæi þá endurgjaldslaust um viðgerðir, ef á þarf að halda, fyrir þetta fólk sem skiptir ekki nema nokkrum tugum eftir þeim upplýsingum sem ég hef hér fengið. Að öðru leyti styð ég þetta frv.