07.03.1977
Neðri deild: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2436 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta um að stytta mál mitt mjög, enda er ég forseta sammála um að um svo mikilvægt mál sem hér er um að ræða beri að ræða á annan veg og öðrum tíma og með öðrum hætti en utan dagskrár í Sþ.

Ég var því miður fjarverandi við önnur skyldustörf þegar vakið var fyrir nokkrum dögum máls á því máli sem hér er nú haldið áfram að ræða um. En ég vona að vegna fyrri afskipta minna af grunnskólalöggjöfinni og skólamálum yfirleitt sé ekki talið óeðlilegt að ég segi örfá orð í þessu sambandi.

Þegar grunnskólalögin voru sett á sínum tíma höfðu þau verið mjög lengi til meðferðar hér á hinu háa Alþ. Það hafði á sínum tíma fallið í minn hlut að undirbúa þá lagasetningu sem hefur síðan verið kennd við grunnskóla. Það gerðist meðan ég fór með stjórn menntmrn., eða 1. júlí 1969, að ég skipaði n. manna til að semja frv. um gagngera breytingu á skólalöggjöfinni, sem í aðalatriðum er eins og sú sem löngu síðar var samþ. hér á hinu háa Alþ. Rækilegur undirbúningur hafði farið fram í rn. sjálfu áður en n. var skipuð til að semja frv. 1. júlí 1969. N. lauk störfum á ótrúlega skömmum tíma, einmitt vegna þess hve rækilegur undirbúningur hafði áður farið fram til að auðvelda henni nefndarstörfin, þannig að hægt var á síðasta starfsári viðreisnarstjórnarinnar svonefndu að leggja fram frv. um grunnskóla og frv. um skólakerfi. Þetta var á þinginu 1970–1971. En fyrir þetta þing lagði ég fyrir hönd ríkisstj. fimm önnur mikilvæg frv. um skólamál. Ríkisstj. lagði auk frv. til grunnskóla og skólakerfis fram frv. um Kennaraháskóla, um Fiskvinnsluskóla, um iðnfræðslu, um Hótel- og veitingaskóla og frv. til l. um breyt. á háskólalögum, þannig að þetta síðasta þing þáverandi kjörtímabils hafði mjög svo mikilvæg verkefni á sviði skólamála og þau tóku upp verulegan hluta af starfstíma þingsins. Af þessum sex frv. voru fimm afgreidd. Á þessu síðasta starfsári viðreisnarstjórnarinnar svonefndu voru samþykkt lög um Kennaraháskóla, það voru samþykkt lög um Fiskvinnsluskóla, ný lög um iðnfræðslu, um Hótel- og veitingaskóla og gerðar breytingar á háskólalögum. Hins vegar var það eindregin ósk ýmissa aðila í stuðningsflokkum þáv. ríkisstj. að afgreiðsla grunnskólafrv. og frv. um skólakerfi, sem var í nánum tengslum við það, yrði látin bíða næsta þings. Féllst ég á það fyrir mitt leyti sem menntmrh., vegna þess að hér var um stórt og umfangsmikið mál að ræða. En jafnframt var ákveðið, um leið og tekin var ákvörðun um að láta ekki reyna á um afstöðu þingsins til grunnskólafrv. og frv. um skólakerfi, heldur láta það bíða næsta þings, að senda frv. í frumbúningi sínum öllum skólastjórum og öllum skólanefndum á landinu, til þess að þessir aðilar gætu athugað það stóra og viðamikla mál, sem hér var um að ræða, einmitt á því sumri, þannig að fyrir gætu legið skoðanir þessara aðila á málinu þegar þing kæmi saman aftur haustið 1971 og tæki málið þá væntanlega til fullnaðarafgreiðslu. Þetta var gert, og víðs vegar að af landinu eða öllu heldur hvarvetna af landinu bárust mjög mikilvægar leiðbeiningar fyrir menntmrn. og ríkisstj. varðandi efni málsins.

Því miður reyndist það eftirmanni mínum í sæti menntmrh. þungsóttari róður en ég hafði vænst að fá samþykki Alþ. eða stuðningsflokka sinna fyrir þessu frv. Hann lagði það að sjálfsögðu fyrir og gerði það meira að segja oftar en einu sinni, en ekki tókst að fá frv. samþykkt á Alþ. fyrr en á síðustu dögum þingsins 1973–1974 og þá eftir, að því er manni skildist, mjög hörð átök innan þáv. stjórnarflokka og gegn verulegri andstöðu stærri stjórnarflokksins, þó að frv. hefði fullan stuðning míns flokks, Alþfl., eins og kom fram við lokaafgreiðslu málsins. En sem sagt, lög um grunnskóla voru ekki samþ. fyrr en vorið 1974, og voru þá liðin fimm ár frá því að frv. um þá gagngeru endurskipulagningu skólanna, sem í því felst, var lagt fyrir hið háa Alþingi.

Ég hef með þessum örfáu orðum mínum viljað benda á að sú breyting, sem gerð var á íslensku skólakerfi með samþykkt Alþ. á grunnskólalögunum, á sér langan aðdraganda. Hún var rækilega undirbúin áður en n., sem samdi frv., var skipuð, hún var rækilega undirbúin í n., og Alþ. hafði málið til meðferðar á mörgum þingum, frá því að það fyrst var flutt á þinginu 1970–1971, og þangað til það var samþykkt á árinu 1974. Ég legg áherslu á þessi atriði til þess að geta með góðri samvisku bent á og undirstrikað, að mér virðist svo sem framkvæmd grunnskólalaganna, síðan Alþ. setti þau, hafi tæplega verið eins vönduð og ígrunduð og nauðsynlegt hefði verið og ekki með sama hætti vandlega að henni staðið og að sjálfum undirbúningi frv. á sínum tíma og kom einnig fram í hinni löngu meðferð Alþ. sjálfs á frv. Mér virðist að ýmsu leyti hafa verið rasað um ráð fram varðandi framkvæmd grunnskólalaganna. Þar hafa því miður orðið ýmis mistök sem hægt hefði verið að sneiða hjá, ef menn hefðu athugað gang sinn betur og vandað vinnubrögð sín betur.

Ég ræði þetta ekki frekar á þessum stað og þessum tíma, í umr. utan dagskrár á Alþ., en að sjálfsögðu er enginn vandi að finna þessum orðum stað á réttum stað og eðlilegum tíma. Ég tel að þetta eigi bæði við um ákvarðanir varðandi námsefnið og um ákvarðanir varðandi framkvæmd prófa. Þetta ber að harma vegna þess, hve hér er um mikilvægt atriði að ræða. Mér virðist sem nokkur tilhneiging hafi verið til þess á undanförnum árum, og ég segi enn í fyllstu alvöru: því miður, að rn. hafi einangrast nokkuð frá skólunum, frá skólakerfinu sjálfu, frá starfandi skólastjórum og kennurum. Á því þarf nauðsynlega að verða breyting. Hér er um svo mikla hagsmuni að ræða, hér er svo mikið í húfi, að ekkert dugir annað en mjög náið samstarf og mjög náin samráð á milli yfirvalda menntamálanna annars vegar og milli þeirra, sem starfa að framkvæmd laga og reglna um þessi efni, hins vegar. Þess vegna vil ég leyfa mér að ljúka þessum örfáu orðum mínum með því að beina ákveðinni hugmynd til hæstv. menntmrh. Hún er sett fram af góðum hug, og ég er viss um að yrði hún framkvæmd, þá mundi hún geta orðið til mikilla bóta.

Því er ekki að leyna, að það er að grafa um sig víðtæk óánægja í skólakerfinu sjálfu, meðal skólastjóra, kennara og nemenda, — óánægja sem þarf að eyða og er hægt að eyða ef rétt og skynsamlega er á málum tekið. Ég skal engan veginn gera lítið úr því, að vandasamt sé og erfitt að gera jafngagngerar breytingar á skólakerfinu og grunnskólalöggjöfin gerir ráð fyrir. Það er mér víðs fjarri að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem eru á slíku. Ég hef nægilega þekkingu og reynslu varðandi undirbúning sjálfrar löggjafarinnar til þess, að það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr því, að erfitt er að framkvæma jafngagngera breytingu á fræðsluháttum og samþykkt grunnskólalöggjafarinnar hefur haft í för með sér og hlýtur að hafa í för með sér. En þeim mun meiri nauðsyn er á því, að um aukið og batnandi samstarf sé að ræða á milli yfirvalda í fræðslumálum og þeirra sem framkvæma eiga lög og reglugerðir í þágu nemendanna sem njóta eiga bættra laga, sem grunnskólalögin eru sannanlega miðað við hið eldra skólakerfi. Hugmyndin, sem ég vil leyfa mér að varpa fram að gefnu tilefni í opinberum umr. í blöðum og fjölmiðlum, sem farið hafa fram, og í framhaldi af þeim umr., sem hafnar voru hér fyrir nokkrum dögum á hinu háa Alþ., er sú, að menntmrn. efni strax á vori komanda til ráðstefnu skólastjóra og kennara um framkvæmd grunnskólalaganna. Með því á ég fyrst og fremst við breytingar á námsefni og breytingar á prófum. Það er skemmst af að segja, að slík samráð milli fræðsluyfirvalda annars vegar og þeirra, sem framkvæma eiga lögin og reglugerðirnar, hafa ekki átt sér stað síðan framkvæmd grunnskólalaganna hófst fyrir alvöru nú fyrir skömmu. Framkvæmdin er enn á tilraunastigi, og það gagnrýni ég í sjálfu sér alls ekki. Það er ekkert óeðlilegt við það að lög, sem samþ. voru vorið 1974, séu enn, í ársbyrjun 1977, á tilraunastigi. En ég tek undir það sem sagt hefur verið fyrr í þessum umr., að sumt af því, sem var hugsað sem tilraun, hefur í reynd orðið að ákvörðun án þess að eðlilegt, sanngjarnt og nauðsynlegt samstarf hafi verið haft við þá sem framkvæmdina hafa með höndum. En ég tel ekki orðið of seint að bæta úr þessu. En það er komið á síðasta snúning. Það má ekki dragast lengur en til næsta vors að haft verði fullkomið, rækilegt og ítarlegt samráð við skólastjóra og kennara um framkvæmd grunnskólalaganna, um námsefni samkv. þeim og um próf samkv. þeim. Þess vegna er þessari ábendingu, þessari hugmynd skotið fram hér til athugunar hæstv. menntmrh.